Menningarhús

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:22:38 (3254)

1999-02-03 15:22:38# 123. lþ. 58.12 fundur 420. mál: #A menningarhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Þau lífsgæði sem við köllum menningu finnum við um allt land. Óbilandi áhugi og vilji er drifkraftur mikils fjölda fólks sem tekur þátt í söng og leikstarfi, leikur á hljóðfæri, skapar og sinnir söfnum og sýningum. Það sem helst háir starfi þessa stóra hóps er fjárskortur og heltast því iðulega öflugir einstaklingar, listamenn, úr hópnum þar sem fjárhagsleg umbun eru oft lítil og stundum engin. Þessi starfsemi fer fram í hinum ýmsu menningarhúsum landsbyggðarinnar, félagsheimilum, leikhúsum, kirkjum, húsum verkalýðsfélaga, ungmennafélaga og áfram mætti telja.

Frá ríkinu hefur ekki fengist nema brot af því fjármagni sem beðið hefur verið um undanfarin ár til að styrkja og efla þá menningu sem nú þegar fer fram í þessum menningarhúsum landsbyggðarinnar. Meiri hlutinn á Alþingi ákvað meira að segja nú fyrir jólin að ekki mætti lengur skylda ríkið til að styðja fjárhagslega eina atvinnuleikhúsið á landsbyggðinni.

Það er líka verið að gera upp fjölda menningarhúsa. Gömul sögufræg hús eru að fá nýtt hlutverk en það hefur verið harðsótt að fá framlög frá ríkinu, hvað þá framlög sem munar um til þeirra framkvæmda. Það fannst þess vegna fleirum en mér holur hljómur í hinni miðstýrðu pakkalausn ríkisstjórnarinnar fyrir landsbyggðina, menningarhús á fimm staði, sameiginleg verkefni ríkis, sveitarfélaga og einstaklinga.

Vissulega væri frábært, herra forseti, að eiga enn glæsilegri og fullkomnari hús. En við hljótum að spyrja: Vantar okkur einmitt hús og hvað með innihaldið, starfsemina sjálfa? Þar vantar svo sannarlega fjármuni. Ætti ekki frumkvæðið að koma frá sveitarfélögunum eða íbúunum sjálfum, þeim sem þekkja þarfirnar og hafa metnaðinn? Ég hef þess vegna lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. menntmrh.:

,,1. Hversu stór á hlutur ríkisins í byggingu menningarhúsa að verða, eða endurgerð eldri húsa ef sú leið verður valin? Hve miklu fé ætlar ríkið að verja til þessara framkvæmda og á hvaða tíma?

2. Hver er forgangsröðun framkvæmdanna?

3. Hver á að verða rekstraraðili menningarhúsanna og hversu mikinn þátt mun ríkið taka í rekstri þeirra?``