Menningarhús

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:25:17 (3255)

1999-02-03 15:25:17# 123. lþ. 58.12 fundur 420. mál: #A menningarhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hinn 7. janúar sl. kynnti ríkisstjórnin að hún ætlaði að leggja sitt af mörkum til þess að byggja upp svokölluð menningarhús utan höfuðborgarsvæðisins og byggði þar á því að ríkið kom að því á sínum tíma að byggja upp félagsheimili víðs vegar um land. Ríkissjóður veitti á sínum tíma styrki til smíði slíkra húsa. En síðan 1989 hefur það alfarið verið á verksviði sveitarstjórna að veita byggingarstyrki til félagsheimila.

Í þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem var kynnt hinn 7. janúar kemur fram að ætlunin er að nefnd fari yfir lögin um félagsheimili frá 1970 og fjalli þá einnig um hvernig ríkið geti komið að því að reisa eða stuðla að því að menningarhús rísi um landið og eru fimm staðir nefndir til sögunnar í þessari fréttatilkynningu og ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í henni og ákvörðun ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Í sumum tilvikum yrði um endurnýjun á gömlum húsum að ræða. Annars staðar yrði að ráðast í nýjar framkvæmdir. Um yrði að ræða sameiginlegt verkefni ríkis, sveitarfélaga og einstaklinga enda ættu fulltrúar þessara aðila sæti í stjórn húsanna.``

Á blaðamannafundinum þegar þetta var kynnt var spurt svipaðra spurninga og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir gerir nú á hinu á Alþingi. Þar kom fram að skiptingin ætti að vera þannig að 60% kæmu í hlut ríkisins af kostnaði og 40% í hlut sveitarfélaganna. Það kom einnig fram að ekki hefði verið forgangsraðað við framkvæmdirnar. Það var forgangsraðað má segja með því að velja fimm staði og nefna þá en ákvarðanir hafa ekki verið teknar af ríkisstjórninni um það hvernig þeim stöðum sem nefnir eru verður forgangsraðað, enda fer það eftir viðræðum við hvern stað og fer eftir því hvernig miðar í vinnu þeirrar nefndar sem verður komið á laggirnar.

Þá er spurt: Hver á að verða rekstraraðili menningarhúsanna og hversu mikinn þátt mun ríkið taka í rekstri þeirra? Eins og segir í ákvörðuninni og tilkynningunni yrði um að ræða sameiginlegt verkefni ríkis, sveitarfélaga og einstaklinga, enda ættu fulltrúar þessara aðila sæti í stjórn húsanna. Þarna kemur fram að mínu mati það viðhorf að aðilar standi saman að því að stjórna húsunum og kæmu þar með að því að taka ákvarðanir um rekstur þeirra. Hvernig því verður háttað ætla ég ekki að slá föstu á þessu stigi. Ég vil aðeins, herra forseti, árétta það sem ég hef sagt víða þegar þetta mál hefur borið á góma að það ber fyrst og fremst að líta á þetta sem mikilvæga stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar um þátttöku í uppbyggingu á menningarstarfi út um land fjarri höfuðborgarsvæðinu til að byrja með því að í þessu felst viðleitni af hálfu ríkisvaldsins til að skapa aðstæður til þess að stunda menningarlegt starf á hinum ýmsu stöðum á landinu. Að mínu mati á ekki að leggja höfuðáherslu á orðið hús í þessu heldur menningu og þá viðleitni sem fram kemur í þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja sitt af mörkum til þess að efla menningarstarf út um landsbyggðina. Ef menn eru með aðrar hugmyndir á einstökum stöðum en ráðast í nýbyggingar --- ríkisstjórnin hefur ekki gert neinar kröfur um það hvers konar hús þetta ætti að vera --- og eru með hugmyndir um uppbyggingu sem tekur mið af öðru en því að reist verði ný hús þá er það að sjálfsögðu mál sem kæmi til álita og skoðunar því aðalatriðið er að skapa almennt betri aðstöðu til þess að stunda menningarlegt starf á landsbyggðinni. Og í þessari ákvörðun felst vilji ríkisvaldsins til að leggja sitt af mörkum til að skapa betri aðstæður.