Menningarhús

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:32:41 (3258)

1999-02-03 15:32:41# 123. lþ. 58.12 fundur 420. mál: #A menningarhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., StG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:32]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Ég kem upp til þess að fagna samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 7. janúar sl. um menningarhús á landsbyggðinni. Þessi hugmynd tengist á vissan hátt þeirri ágætu tillögu ríkisstjórnarinnar um stefnu í byggðamálum sem nú er til meðferðar í þingnefnd. Ég vil taka það fram og taka undir þau orð sem hæstv. menntmrh. sagði að hér er um mikla stefnumörkun að ræða. Ég vona að menn átti sig á því. Ég vil líka taka það fram að hér þarf að vanda sig. Það þarf að vanda sig í þeirri smíð sem hér er að nokkru leyti verið að leggja grunn að. Ég óttast ekki að það náist ekki sátt um það samstarf sem hér er stofnað til milli ríkis og sveitarfélaga um að standa að þessum mannvirkjum.

Ég kem líka upp til þess að þakka hæstv. menntmrh. sérstaklega fyrir framgang hans í þessu máli. Ég er sannfærður um að hér er stigið gæfuspor í byggðamálum.