Staða náttúrufræði í íslensku skólakerfi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:40:24 (3262)

1999-02-03 15:40:24# 123. lþ. 58.13 fundur 425. mál: #A staða náttúrufræði í íslensku skólakerfi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:40]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það mál sem ég tala fyrir kom til umræðu áðan undir annarri fyrirspurn, fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, þannig að út af fyrir sig er sú umræða sem nú hefst að nokkru leyti framhald þeirrar umræðu sem hún hóf áðan. Hæstv. menntmrh. tók þátt í henni og svaraði spurningu þingmannsins. Í fyrirspurn minni er þetta orðað svo:

,,Hvað hyggst ráðherra gera til að koma til móts við erindi frá Félagi náttúrufræðinga o.fl., dags. 2. desember 1998, um stöðu náttúrufræði í íslensku skólakerfi?``

Tilefni fyrirspurnarinnar er bréf frá Félagi náttúrufræðinga og fleirum, dagsett 2. desember, sem okkur barst þar sem tekið er á þessum vandamálum og lögð áhersla á það eins og þar segir, með leyfi forseta:

,,Við undirrituð, sem erum í forsvari fyrir menntun nemenda í náttúrufræðum á öllum skólastigum og/eða látum okkur varða stöðu náttúrufræðinnar í íslensku skólakerfi, lýsum þungum áhyggjum yfir stöðu náttúrufræðigreinanna eins og hún birtist í viðmiðunarstundaskrá fyrir grunnskóla, samanber bæklingurinn ,,Enn betri skóli``, og drögum að nýrri námskrá fyrir framhaldsskóla þar sem gert er ráð fyrir 50--70% niðurskurði á tímafjölda í kjarna og niðurskurði í sérgreinum náttúrufræðibrauta.``

Síðar í þessu sama bréfi segir, með leyfi forseta:

,,Stefna yfirvalda menntamála er því óskiljanleg eins og hún birtist í því tímamagni sem ætlað er greininni í kjarna í grunn- og framhaldsskólum. Hún er óskiljanleg í ljósi niðurstöðu TIMSS-rannsóknarinnar á stöðu íslenskra nemenda miðað við aðrar þjóðir. Kjarnanám í náttúrufræðum í framhaldsskólum virðist stefna í að verða minna en 5% af námi til stúdentsprófs.``

Þessu bréfi sem okkur barst núna fyrir áramótin fylgdi líka afrit af bréfi frá Félagi náttúrufræðikennara á grunnskólastigi og frá kennurum í þessari grein við Kennaraháskóla Íslands.

Nú hefur það hins vegar verið upplýst að menntmrn. hefur ákveðið að tímafjöldi til náttúrufræðikennslu á grunn- og framhaldsskólastigi verði ekki eins lítill og þessir aðilar óttuðust. Mér virðist að málið liggi þannig að tekin hafi verið ákvörðun um að bæta við einum tíma í 7. og 8. bekk, þ.e. fara úr tveimur tímum á viku í þrjá tíma á viku frá því sem gert hafði verið ráð fyrir, en undirbúningshópur þessara mála af hálfu kennaranna lagði áherslu á að ef það ætti að búa sæmilega að náttúrufræðinni í grunskóla þá yrði tímafjöldinn að vera fjórir tímar á viku.

Í öðru lagi sýnist mér að það hafi átt að minnka náttúrufræði í kjarna í framhaldsskólum úr tólf í sex einingar en þær verði níu samkvæmt þeim breytingum sem nú virðist vera gert ráð fyrir.

Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. menntmrh.: Á hvaða greinar er gengið með þeirri ákvörðun sem verið er að taka hér um breytingar á viðmiðunarstundaskrá? Í öðru lagi vil ég spyrja hann: Hvenær var þessi ákvörðun tekin? Var hún tekin í gær eða fyrradag? Er tilefnið kannski fyrirspurnirnar sem verið er að ræða hér? Og í þriðja lagi vil ég biðja hann að meta það með mér hvernig á því standi að ákvörðun um þetta lítinn hlut náttúrufræðigreinanna verði til. Hvaða sambandsleysi veldur því að hlutirnir eru eins og þeir birtust m.a. Félagi raungreinakennara og ég hef hér gert grein fyrir?