Staða náttúrufræði í íslensku skólakerfi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:45:36 (3264)

1999-02-03 15:45:36# 123. lþ. 58.13 fundur 425. mál: #A staða náttúrufræði í íslensku skólakerfi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að ákvörðun hafi verið tekin um að koma til móts við þau sjónarmið sem hér eru uppi. Ég tel einnig að mikilvægt að undirstrika að stórefla verður þátt raungreina í skólakerfi okkar. Ég er sannfærður, eftir að hafa fylgst aðeins með þessum málum um nokkurt skeið, um að þar er einn veikasti hlekkurinn í skólakerfi okkar varðandi það að bæta lífskjör í framtíðinni, m.a. með því að byggja upp rannsóknarsamfélag á hagnýtum sviðum. Ég tel að þar sé nauðsynlegt að taka myndarlega á.

Fyrir mitt leyti geri ég engar athugasemdir við að gengið sé á svokallaðar valgreinar í þessu efni. Ég held að í þeim efni þurfi kannski að fara öðruvísi að en gerst hefur. Ég tel það skipta verulegu máli að raungreinarnar séu alls ekki minni þáttur af lokaprófi í framhaldsskólum en nú er gert ráð fyrir. Fólk sem kemst hjá því að kynna sér raungreinar eins og hér var til skamms tíma nær oft og tíðum ekki sambandi við það samfélag sem við búum í, þær gífurlegu tæknisviptingar sem eiga munu sér stað á næstu árum og áratugum.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, um leið og ég þakka fyrir þau svör sem hér hafa verið veitt.