Lausaganga búfjár

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:50:48 (3266)

1999-02-03 15:50:48# 123. lþ. 58.14 fundur 287. mál: #A lausaganga búfjár# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:50]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Þessi fyrirspurn er mjög eðlileg í ljósi frétta af atburðum sem eru, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um í upphafi máls síns, ástæðan fyrir skipun nefndar um málið. Nefndin sem hér um ræðir hefur það hlutverk að fjalla um leiðir til að halda búfé frá helstu þjóðvegum landsins. Í samráði við ráðherra hefur nefndin nú skilað áfangaskýrslu sem mér barst fyrir nokkrum dögum. Þar er greint er frá stöðu mála og settar fram 16 tillögur til úrbóta.

Þar sem skýrslan er of efnismikil til þess að unnt sé að gera fullnægjandi grein fyrir öllum tillögunum og greinargerðum með þeim í stuttum fyrirspurnatíma hef ég látið dreifa áfangaskýrslunni til þingmanna. Jafnframt hef ég sent hana fjölmiðlum og öðrum sem málið varðar.

Tveir nefndarmenn skiluðu séráliti sem lýtur einkum að tveimur tillögum. Annars vegar tillögum um hver bera skuli kostnað við viðhald veggirðingar og hins vegar um algert bann við lausagöngu stórgripa. Um þau atriði náði nefndin ekki saman að svo stöddu en varð þrátt fyrir það sammála um að skila áfangaáliti þannig að vinna mætti að framgangi annarra tillagna sem er forsenda frekara starfs nefndarinnar.

Nefndin óskar eftir því að unnið verði eftir tillögum hennar næstu mánuði. Þegar reynsla verður komin á framkvæmd þeirra mun nefndin aftur setjast að verkinu, meta árangur og skila endanlegum tillögum. Nefndin er sammála um að ekki sé mögulegt að leggja til lögfestingu á algeru banni við lausagöngu búfjár á Íslandi. Það mundi hafa veruleg áhrif á hefðbundinn búskap, valda mörgum bændum verulegum erfiðleikum og í reynd gera sumum ókleift að stunda búskap. Það gæti einnig valdið mikilli byggðaröskun sem vart er á bætandi.

Nefndin leggur til aðgerðir til að draga eins og kostur er úr þeirri hættu sem lausaganga búfjár á vegsvæðum skapar og telur að helsta leiðin að því marki sé að setja upp samfelldar girðingar með helstu þjóðvegum landsins. Þær mundu teljist hluti af vegamannvirkjum. Of langt mál yrði að kynna ítarlega allar tillögur nefndarinnar. Ég mun greina frá því helsta sem nefndin leggur til að framkvæmt verði eftir því sem tími minn leyfir.

Nefndin leggur til að Vegagerðin og sveitarfélög geri úttekt á á hvaða vegum slys vegna ákeyrslu á búfé eru tíðust og hvar alvarlegustu slysin hafa orðið. Jafnframt meti þessir aðilar þörf og ástand þeirra girðinga sem nú er gagngert ætlað að halda búfé frá þjóðvegum landsins. Verkefnið lúti forustu Vegagerðarinnar og verði lokið fyrir 1. júlí nk. Enn fremur er lagt til að metinn verði kostnaður við uppsetningu nýrra girðinga og endurbætur þeirra eldri og gerð áætlun þar að lútandi. Stefnt skal að því að ljúka framkvæmdum innan þriggja ára en til að það megi takast verður að koma til sérstök fjárveiting frá Alþingi.

Í greinargerð með þessari tillögu segir að nefndin telji heppilegast að sveitarfélögin og Vegagerðin annist þetta verk þar sem þessir aðilar hafi besta þekkingu á því hvar slysatíðni er mest og til hvaða aðgerða sé heppilegast að grípa. Nefndin leggur áherslu á að undirbúningur verksins hefjist sem fyrst og niðurstöður liggi fyrir á miðju sumri þannig að unnt verði að gera ráð fyrir kostnaði vegna framkvæmda fyrir afgreiðslu fjárlaga á næsta ári náist samstaða um tillögurnar.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að Vegagerðin kosti og sjái um að girða og annast viðhald veggirðinga sem gagngert eru reistar til að friða vegsvæði þjóðvega fyrir ágangi búfjár. Uppsetningu og viðhald girðinga fjarri vegi í þeim tilgangi að gera lokuð hólf og friða þannig svæði í nágrenni vega fyrir ágangi búfjár verði hins vegar á hendi sveitarfélaga nema um annað sé samið. Við nýframkvæmdir vega verði þörf fyrir veggirðingar metin og teljist þörf á þeim skal kostnaður vegna þeirra talinn til stofnkostnaðar vegarins.

Nefndarmenn eru sammála um að uppsetning og viðhald girðinga sem reistar eru meðfram þjóðvegum í þeim tilgangi að friða vegsvæði fyrir búfé verði á einni hendi. Nefndin var ekki sammála um hver ætti að bera kostnaðinn. Telur meiri hlutinn eðlilegast að hann sé greiddur af hinu opinbera með fjárveitingu til Vegagerðarinnar í ljósi slæmrar reynslu af því fyrirkomulagi sem nú gildir. Ekki þykir fært að leggja kostnaðinn á landeigendur eina m.a. vegna þess að eignaraðild á jörðum er oft dreifð og aðstaða jarðareigenda mjög mismunandi.

Þar sem svo háttar til að girt er fjarri vegi, m.a. til að friða stór landsvæði en girðingin þjónar jafnframt því hlutverki að halda búfé frá vegi, verði heimilt að skipta kostnaði og viðhaldi á milli fleiri aðila, enda sé gerður um það ákveðinn samningur. Hér gæti t.d. verið um að ræða landgræðslu- og skógræktargirðingar, varnarlínur og/eða landamerkjagirðingar. Sveitarfélögum verði gert skylt með lögum að setja sérsamþykktir um búfjárhald. Í því sambandi skal litið til búskaparhátta og aðstæðna á hverjum stað, sjónarmiða um landgræðslu, landvernd og fleiri atriða auk umferðaröryggissjónarmiða.

Nokkrar fleiri hugmyndir ætlaði ég að nefna en þarf tíma til að svara seinni lið fyrirspurnarinnar. Ég mun reyna að koma að því á eftir. Þar er spurt hvort ráðherra hyggist leggja fram frv. á yfirstandandi þingi. Því hefur að nokkru verið svarað en í álitinu kemur fram að algert bann við lausagöngu búfjár er að dómi þeirra sem best til þekkja vart framkvæmanlegt. Þeir telja að það mundi kalla á verulegar breytingar á hefðbundnum búskap í landinu og byggðaröskun. Í tillögum nefndarinnar er þó gert ráð fyrir lagabreytingum, jafnvel banni við lausagöngu búfjár á vissum stöðum. Eðlilegt er að sjá til hvernig tillögum nefndarinnar miðar í vor og sumar. Í framhaldi af lokaskýrslu nefndarinnar sem ætla má að liggi fyrir seinni hluta ársins yrðu þá teknar ákvarðanir um lagasetningu.