Lausaganga búfjár

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:59:12 (3268)

1999-02-03 15:59:12# 123. lþ. 58.14 fundur 287. mál: #A lausaganga búfjár# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:59]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Rétt er það hjá hv. fyrirspyrjanda. Þessi fyrirspurn hefur legið hér síðan fyrir jól. Þetta áfangaálit sem ég var að vitna til frá umræddri nefnd barst mér fyrir nokkrum dögum, kannski viku eða svo og mér fannst tilhlýðilegt að dreifa því um leið og þessi umræða færi fram, til frekari kynningar fyrir hv. fyrirspyrjanda, þingmenn og fjölmiðla.

Varðandi veggirðingar almennt er auðvitað nauðsynlegt, verði horfið að þeirri aðferð, þá sé það gert svo tryggilega að menn séu nokkuð öruggir þar sem slíkar girðingar eru. Girðingarnar mega ekki vera gildra sem halda fé á vegi sem því miður þekkist. Það þarf að standa að þessu með skipulögðum og vönduðum hætti.

Við þekkjum, af því að hv. fyrirspyrjandi vitnaði til aðstæðna erlendis, að það er algengt að þar séu vegir afgirtir, bæði vegna búfjár og villtra dýra í nágrenni þjóðvega. Annars staðar sjáum við að sett eru upp skilti og það er reyndar önnur tillaga úr þessu áliti. Ég nefndi hana ekki hér áðan. Lagt er til að setja upp skilti sem gera mönnum grein fyrir því ef um lausagöngu búfjár er að ræða eða hættu af skepnum á vegi. Slíkt sjáum við víða erlendis þannig að hér er reynt að feta leið, ekki ólíka þeirri sem víða er farin þó vafalaust séu misjafnar aðstæður og reglur gildandi í nágrannalöndum okkar.

[16:00]

Það er rétt hjá hv. þm. að sauðfé hefur fækkað en það auðveldar ekki málið. Það þýðir einungis að færri bændur eru að glíma með fé sitt á stórum svæðum. Það er heilmikill kostnaður og fyrirhöfn fyrir þá að þurfa einir að girða af sitt fé ef sú skylda er lögð á þá eingöngu.

Við hv. fyrirspyrjandi höfum áður fundað um möguleika þess að banna lausagöngu á Reykjanesi. En því miður hefur það reynst svo, þó að maður teldi að það ætti að vera auðvelt, að ekki hefur tekist að ná samkomulagi um að ganga frá því endanlega svo sómi sé að.