Mengunaráhrif af notkun nagladekkja og harðkornadekkja

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:16:40 (3274)

1999-02-03 16:16:40# 123. lþ. 58.16 fundur 325. mál: #A mengunaráhrif af notkun nagladekkja og harðkornadekkja# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:16]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 393 hef ég leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um mengunaráhrif af notkun nagladekkja og harðkornadekkja. Við þekkjum það í höfuðborginni að á góðviðrisdögum á veturna í miklum stillum verður loft mjög mengað. Nú hafa menn rætt um og nokkuð er farið að nota svokölluð harðkornadekk, auk nagladekkja. Ég óttast að þessi harðkornadekk muni leiða til þess að þau verði meira og minna í notkun allt árið. Því má búast við því að ef eitthvað er þá muni mengun vegna notkunar þessara dekkja aukast hér í borginni. Ekki þarf að hafa fleiri orð um þessar hugrenningar, þ.e. hvers vegna þessi fyrirspurn er fram komin. En ég vil, eins og fram kemur í fyrirspurninni, spyrja hæstv. umhvrh. hvort farið hafi fram á vegum umhverfisráðuneytis eða annarra aðila athugun á áhrifum notkunar nagladekkja og/eða harðkornadekkja með tilliti til mengunar í andrúmslofti.