Fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:24:39 (3277)

1999-02-03 16:24:39# 123. lþ. 58.17 fundur 349. mál: #A fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:24]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. fjmrh. er eftirfarandi:

,,Hvers vegna er körlum í ríkisþjónustu mismunað hvað varðar greiðslu launa í fæðingarorlofi eftir því hvar konur þeirra starfa?``

Hjá ríkinu gilda almennt eftirfarandi reglur um fæðingarorlof starfsmanna á kjarasamningum opinberra starfsmanna: Kona sem starfað hefur samfellt sex mánuði fyrir barnsburð hjá ríkinu á rétt til dagvinnulauna í barnsburðarleyfi í sex mánuði. Fyrstu þrjá mánuðina og í framlengdu leyfi er auk mánaðarlauna greitt meðaltal yfirvinnu og vaktaálag síðustu 12 mánaða fyrir barnsburð. Sé um fleirburafæðingu að ræða framlengist barnsburðarleyfið um einn mánuð fyrir hvert barn umfram eitt. Greiðslur Tryggingastofnunar eru þrír mánuðir fyrir hvert barn umfram eitt og getur foreldri með styttri rétt sótt um greiðslur til Tryggingastofnunar vegna þess tímabils sem á vantar. Karl sem kvæntur er konu sem einnig er ríkisstarfsmaður getur tekið hluta af barnsburðarleyfinu og þá með sömu skilmálum, þ.e. heldur sínum launagreiðslum. Ef konan er í fæðingarorlofi á greiðslum frá Tryggingastofnun, sem sagt ekki ríkisstarfsmaður, fær karlinn ekki barnsburðarleyfi á sínum launum heldur fæðingardagpeninga frá Tryggingastofnun.

Ég held að allir séu sammála um að stuðla að því að foreldrar nýti sér rétt til fæðingarorlofs. Það á við bæði um mæður og feður ekki síður. Forsenda þess að foreldrar nýti sér þennan rétt er í mörgum tilvikum sú að þeir verði ekki fyrir tekjuskerðingu meðan á fæðingarorlofi stendur. Nú er það svo að fólk býr við mismunandi réttindi eftir því hvort það starfar hjá ríkinu eða á almennum vinnumarkaði. Ég vildi sjá þá framtíð og hef staðið að tillögugerð í þá veru að réttur allra foreldra á Íslandi verði jafnaður þannig að allt fólk, allir foreldrar, hvort sem þeir starfa hjá opinberum aðilum eða á almennum vinnumarkaði, búi við sams konar kjör hvað þetta snertir og að kjörin skerðist ekki meðan á fæðingarorlofi stendur.

Í þessu tilviki ætti það að vera hægur vandinn fyrir hæstv. fjmrh. að leysa úr þessu máli. Síðan þegar ráðist verður í endurskoðun á fæðingarorlofinu í heild sinni þá er ég því eindregið fylgjandi að kjör allra foreldra á Íslandi verði jöfnuð, en að jafnað verði upp á við.