Fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:27:51 (3278)

1999-02-03 16:27:51# 123. lþ. 58.17 fundur 349. mál: #A fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:27]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt er hér um að ræða býsna snúið vandamál og margflókið í rauninni sem lýtur bæði að rétti mæðra og feðra en hefur hins vegar líka markast af þeim réttindamismun sem verið hefur fyrir hendi að því er varðar annars vegar opinbera starfsmenn og hins vegar starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að þetta mál þarf að reyna að leysa heildstætt. Það er auðvitað bara hluti af nútímanum og að maður tali nú ekki um framtíðinni á Íslandi að koma þessum málum ekki bara í skiljanlegt horf --- því þetta eru nú óskiljanlegar reglur fólki flestu svona a.m.k. við fyrstu sýn þó að hv. þm. hafi sett sig vel inn í þær --- heldur er þetta líka spurning um að gæta viss jafnræðis gagnvart foreldrum, óháð vinnuveitendum og fleiri slíkum atriðum. Eitt af því sem kemur til álita í því efni er sérstakt foreldraorlof sem mikið hefur verið rætt.

Að því er varðar þá spurningu sem fyrirspyrjandi beinir til mín, hvers vegna körlum í ríkisþjónustu sé mismunað hvað varðar greiðslu launa í fæðingarorlofi eftir því hvar konur þeirra starfa, þá kann ég ekki að svara henni. Ég bara veit það ekki. Ég er hins vegar ekki viss um að eins og spurningin er orðuð, þá sé hún nákvæmlega rétt. Ég er ekki viss um að munur sé á því hvernig farið er með karla í ríkisþjónustu að því er varðar laun. Ég hef grun um að menn missi öll laun en að rétturinn til bóta hjá Tryggingastofnun sé mismunandi, þ.e. að réttur til fæðingardagpeninganna sé ólíkur. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki jafnmikill sérfræðingur í þessu og ég ætti kannski að vera og ekki jafnmikill sérfræðingur og hv. þm. En ég geri mér grein fyrir því að þetta er angi af stærra máli sem er alveg nauðsynlegt að líta á í samhengi.

Fallið hefur hæstaréttardómur um skylt málefni, þar sem spurt var um réttindi karls gagnvart konu en ekki karls gagnvart öðrum karli eins fyrirspurn þingmannsins lýtur að. Málið hefur hins vegar ekki einfaldast í kjölfar þessa dóms og uppi er mismunandi réttarstaða. Við í fjmrn. höfum ekki treyst okkur til að taka af skarið að því er varðar niðurstöðu þess dóms á almennum grundvelli vegna þess að þar var um að ræða konu og karl sem bæði voru ríkisstarfsmenn. Og þar er önnur réttarstaða uppi.

Ég held að nauðsynlegt sé að horfa á þetta opnum huga og reyna að leiða hér í lög almennar reglur sem gildi fyrir alla. Ég held að það sé fyrst og fremst málefni sem lýtur að almannatryggingalöggjöfinni og lúti þar með að verksviði heilbr.- og trmrh., en sé síður kjarasamningamál sem mundi vera á verksviði fjmrh. Þetta er mín niðurstaða og svar við þessari stuttu spurningu sem reyndar kallar á miklu stærri og meiri umfjöllun en hún virðist gera, þessi eina og hálfa lína sem spurningin er. Þetta er gríðarlega flókið og umfangsmikið málefni.