Fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:32:07 (3279)

1999-02-03 16:32:07# 123. lþ. 58.17 fundur 349. mál: #A fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:32]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir þessa fsp. um fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu. Satt að segja voru svör hæstv. fjmrh. ekki mjög bitastæð. Hann virtist alls ekki átta sig á hvers vegna þetta misræmi er. En ég skal skýra það út fyrir honum svolítið betur en hann gerði sjálfur.

Ástæðan er sú að þessi réttur feðra er leiddur af rétti mæðra. Þ.e. réttindi mæðra ráða rétti föðurins. Það er auðvitað mjög mikilvægt baráttumál að feður fái sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Nú hafa þeir eingöngu tvær vikur en þeir þurfa að geta haft sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Ég vil vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur frv. mitt og okkar kvennalistakvenna um tólf mánaða fæðingarorlof þar sem feður geta tekið þrjá til sex mánuði og fá þrjá mánuði eyrnamerkta alveg fyrir sig. Þetta mál er auðvitað þvílík hneisa að það verður að lagfæra. Þetta er ekki bara spurning um almennu tryggingalöggjöfina heldur þarf að stofna sérstakan fæðingarorlofssjóð þannig að allir fái fæðingarorlof á fullum launum, mæður jafnt sem feður.