Fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:35:39 (3281)

1999-02-03 16:35:39# 123. lþ. 58.17 fundur 349. mál: #A fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er nú kannski ekki miklu við þessa umræðu að bæta. Hér hafa komið fram flest meginsjónarmið sem hægt er að flytja á þessum vettvangi við þetta knappa umræðuform. Niðurstaða mín er sú að ég er sammála því að taka þurfi heildstætt á þessu máli. Það þarf að samræma ákveðin atriði. Það er óeðlilegt að hafa í gangi mörg mismunandi réttindakerfi varðandi þætti eins og þennan, sem fólk gengst undir, lendir í eða verður fyrir, hvernig sem það er orðað, óháð því hvort það er í vinnu hjá ríkinu eða einhverjum öðrum. Sem betur fer eignast menn börn óháð starfi sínu eða vinnuveitanda. Aðalatriðið er auðvitað að búa þannig að foreldrum í landinu að þeir geti orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að skipta með sér því að ala önn fyrir börnum sínum meðan þau eru á þessum viðkvæma aldri. Það er auðvitað kjarni málsins.

Ég er ekki tilbúinn að kveða upp úr um leiðir í því sambandi, þær eru eflaust margar til. Aðalatriðið held ég að sé að reyna að ná fram almennri samræmingu á öllum vinnumarkaðnum, hvort sem það er gert með samningum eða í gegnum tryggingakerfið eins og ég tel nú eðlilegra.