Fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:41:23 (3283)

1999-02-03 16:41:23# 123. lþ. 58.18 fundur 427. mál: #A fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Samkvæmt upplýsingum frá útlendingaeftirlitinu voru 1. jan. 1999 2.089 útlendingar með gildandi atvinnuleyfi hér á landi. Þeir skiptast eftir kjördæmum svo sem hér segir: Í Reykjavík 33%, á Reykjanesi 19%, á Vesturlandi 8%, á Vestfjörðum 18%, á Norðurlandi vestra 2%, á Norðurlandi eystra 5%, 8% þeirra eru á Austurlandi og 8% á Suðurlandi.

Samkvæmt skrám útlendingaeftirlitsins voru 858 atvinnuleyfi í gildi í fiskvinnslu. Útlendingaeftirlitið tók fram að þó að óbundin atvinnuleyfi hafi verið gefin út til fiskverkafólks þá sé ekki endilega víst að það sé enn í fiskvinnslu. Það getur verið komið í önnur störf. Það má ekki taka þessar tölur alveg bókstaflega því að það getur verið hreyfing á fólki með óbundin atvinnuleyfi. Einnig er þar fyrirvari um að hugsanlega sé vinnustaðurinn í öðru sveitarfélagi en búsetustaðurinn. En miðað við búsetu eru fjölmennustu staðirnir þessir:

Í Reykjavík búa 99, á Ísafirði 68, í Garði 45, á Flateyri 43, í Neskaupstað 41, Þorlákshöfn 35, Reykjanesbæ 31, Bolungarvík 30, og Stykkishólmi 28, á Suðureyri 28, Hellissandi 26 og Patreksfirði 24, í Grundarfirði 23 og í Ólafsvík 23.

Varðandi fjórðu spurninguna um hve hátt hlutfall útlendinga sé meðal starfsfólks í sjávarútvegi og fiskvinnslu, þá er erfitt að svara henni nákvæmlega vegna þess hve lítið við vitum um fólk af Evrópska efnahagssvæðinu sem er hér í fiskvinnslu eða vinnur í sjávarútvegi. Eins og kunnugt er þurfa íbúar á Evrópska efnahagssvæðinu ekki atvinnuleyfi hér á landi og hafa sama rétt og innfæddir og því engar tölur til um það efni. Ef teknir eru eingöngu þeir sem eru með atvinnuleyfi, en þeir eru fyrst og fremst tengdir fiskiðnaði en ekki fiskveiðum, þá er hlutfall þeirra af starfandi fólki í sjávarútvegi liðlega 6% en tæplega 11% af þeim sem eru í fiskiðnaði á Íslandi eru útlendingar, þ.e. að frátöldum þeim sem koma af Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta eru tölur sem ég vona að gefi sæmilega mynd af stöðunni.

Íslenskukennslan kom, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, til umræðu í svari menntmrh., þ.e. hvað gert er í íslenskukennslu. Ég vil hins vegar aðeins bæta þar við. Ég vil minna á Námsflokkana. Ég nefni flóttamannahópana, þá sem koma hér sem flóttamenn. Þeir fá íslenskukennslu og það er lagt mjög ríkt á að þeir sinni henni. Við höfum þá skyldu að kenna þeim íslensku. Varðandi verkamenn eða þá sem koma hingað tímabundið til að vinna, þá er ekki víst að þeir kæri sig um að leggja það á sig. Jafnvel þó gott sé fyrir fólkið að læra íslensku er ekki víst að það sé fúst til að gera það nema að litlu leyti, helst þeir sem ætla að setjast hér að. Námsflokkarnir sinna þessu fólki hér í Reykjavík að einhverju leyti.

Við í félmrn. höfum gefið út bæklinga á ýmsum þjóðtungum um þjóðfélagið, þær upplýsingar sem við lítum svo á að séu nauðsynlegar fyrir útlendinga. Við höfum bæklinga á serbókróatísku, rússnesku, pólsku og ensku. Þeir eru á sjö tungum og við er að bætast spænska og eitt norðurlandamál. Við höfum gert kröfu um aðbúnað þessa fólks, að það sé í sómasamlegum verbúðum og höfum látið fylgjast með því og eins því að réttindi þess séu tryggð.