Fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:49:59 (3286)

1999-02-03 16:49:59# 123. lþ. 58.18 fundur 427. mál: #A fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:49]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir greinargóð svör og hv. þingmönnum fyrir góðar undirtektir. Mér sýnist á þeim tölum sem hæstv. ráðherra las hér upp að á Vestfjörðum séu um 380 útlendingar með atvinnuleyfi að störfum, þ.e. 18% af 2.089 gildum atvinnuleyfum. Það kom fram í ræðu hans að um 11% af störfum í fiskiðnaði á Íslandi væru unnin af útlendingum, þ.e. rúmlega tíunda hvert starf er í höndum útlendinga. Margar athyglisverðar tölur komu fram hjá honum eins og t.d. þær að á Snæfellsnesi, þ.e. samanlagt í Stykkishólmi, Hellissandi, Grundarfirði og Ólafsvík, eru yfir 100 útlendingar starfandi í fiskvinnslu væntanlega og t.d. á Suðureyri einni, ekki stærra byggðarlagi og fjölmennara en hún er, eru 28 atvinnuleyfi í gangi. Þetta finnst mér segja að það verður að reyna að taka heildstætt á þessu. Mér finnst hugmynd hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og fleiri góð. Það er spurning hvort það mætti hugsa sér að á Vestfjörðum væri gerð tilraun með ákveðið skipulag með miðstöð eins og þar er gerð tillaga um og það verði bara gengið í það mál á þann hátt sem hv. þm. leggur til. Mér finnst það góð hugmynd. Það er a.m.k. allt betra en stöðnun í þessu máli. Ég er ekki að segja að hún hafi verið, en við þurfum að taka heildstætt á því.

Ég vil að lokum skora á hæstv. félmrh. að velta því fyrir sér hvort ekki sé hugsanlegt að félmrn. beiti sér fyrir heildstæðum aðgerðum í þessu máli, þ.e. að skipaður verði starfshópur núna fljótlega með verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendum, þingmönnum og sveitarfélögum og tekið heildstætt á þessum málum. Aðbúnaður þessa fólks, menningarlega og félagslega, er ekki nógu góður hjá okkur.