Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 11:06:38 (3297)

1999-02-04 11:06:38# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[11:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að komið er fram nýtt frv. til útvarpslaga. Þetta er eins og hæstv. ráðherra sagði svona almennar leikreglur í útvarpsrekstri og vissulega þurfa lög sem snúa að rekstri útvarps og sjónvarps að vera í sífelldri endurskoðun og þróun vegna tækniframfara og tækniþróunar. Þess er vegna tímabært að lögin frá 1985 séu endurskoðuð.

Áður en ég geri nokkrar athugasemdir og spyr hæstv. ráðherra um nokkur atriði í frv. þá vil ég fagna því að hann hefur ekki í hyggju að selja Ríkisútvarpið eins og sjálfstæðismenn hafa oft verið að ræða því að ég tel það vera fásinnu. En ég tel að nauðsynlegt sé að ræða stöðu Ríkisútvarpsins sérstaklega og ég tek undir það.

Vegna 10. gr. þar sem fram kemur að minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verkefna sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum, þá vil ég fagna því að þarna er tekin þessi ákvörðun. En ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til umræðu að hafa sérstakt hlutfall af dagskrárfénu til íslenskrar framleiðslu þar sem við búum í litlu málsamfélagi og ákveðin tungumál hafa haft mikil áhrif, t.d. engilsaxnesk áhrif, á okkar málsamfélag. Er því ekki ástæða til þess að setja þarna inn ákveðið hlutfall af framleiðslu á íslensku efni sérstaklega? Það er virðingarvert að þarna skuli tekin afstaða til evrópsks efnis. En ég hefði haldið að við þyrftum að setja þarna inn ákveðið hlutfall af íslensku efni.

Andsvarsrétturinn er náttúrlega tryggður í lögunum en ég velti því fyrir mér hvernig menn bera sig að ef hann væri ekki virtur, hvort menn hafi einhverja ákveðna leið til þess að leita þess réttar síns samkvæmt 11. gr.

Ég vil einnig fagna því að sérstaklega skuli vera tekið inn ákvæði um vernd barna. Það hefur verið heilmikið í umræðunni og það þarf að taka þau mál föstum tökum.

Varðandi auglýsingar, og það sem kemur fram í 17. gr., þá var samkvæmt fyrri lögum, a.m.k. í Ríkisútvarpinu, séð til þess að auglýsingatímar kæmu ekki inn í dagskrárliði. Hér er tekið á því að auglýsingatímar séu á milli dagskrárliða. Þeirri reglu hefur ekki verið haldið og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til þess að halda þeirri reglu að hafa auglýsingatímana á milli dagskrárliða. Það er mjög virðingarvert í Ríkisútvarpinu hvernig auglýsingatímum hefur verið haldið fyrir utan dagskrárliði.

Þetta frv. byggir mjög á evrópskum tilskipunum eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra og er eðlilegt að tekið sé tillit til þeirra. Ég fagna því að hafinn skuli vera undirbúningur að stafrænu útvarpi til að nýta betur tíðnisviðin. Það er fyrir löngu orðið tímabært og það þarf að fara út í það. En sérstaklega vil ég fagna þeim sinnaskiptum hjá hæstv. ráðherra og stjórnvöldum að leggja það til að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður. Það er mál sem ég hef talað fyrir lengi bæði á síðasta kjörtímabili og þessu kjörtímabili og lagt þetta til. Það hafði þá ekki hljómgrunn hjá menntmráðherrum Sjálfstfl. En greinilega hafa þeir séð að full ástæða var til þess að taka á málefnum þessa sjóðs og leggja hann niður því eins og stendur í skýringum með þessu frv. þá hefur sjóðurinn verið mjög umdeildur, sérstaklega fjármögnun sjóðsins og ráðstöfun á fé hans og er þarna vægt til orða tekið, herra forseti.

Sjóðurinn gekk út á það að taka auglýsingafé frá stóru stöðvunum, frá Ríkisútvarpinu, Stöð 2 og Bylgjunni, þ.e. Íslenska útvarpsfélaginu, og flytja það til annarra stöðva. Það var náttúrlega fáránlegt. Það er fullkomlega eðlilegt að útvarpsstöðvarnar og sjónvarpsstöðvarnar haldi sínu auglýsingafé og ráðstafi því til dagskrárgerðar eins og þær telja réttast og best þeim sjálfum til hagsbóta.

Ég hefði gjarnan viljað fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst sjá til þess að Sinfóníuhljómsveit Íslands hafi rekstrarfé. Hvaða hugmyndir eru uppi um það? Mun rekstrarkostnaðurinn verða greiddur úr ríkissjóði beint eða eru einhverjar hugmyndir uppi um það hvernig standa skuli að rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands? Það er fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að Íslendingar eigi sína sinfóníuhljómsveit og standi að rekstri hennar. En að Ríkisútvarpið eða útvarpsstöðvar standi undir þeim rekstri er ekki rétt að mínu mati. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að það komi hér fram hvernig hæstv. ráðherra hyggst standa að rekstri sinfóníuhljómsveitarinnar.

Varðandi ummæli hæstv. ráðherra um það að breyta Ríkisútvarpinu jafnvel í hlutafélag og þær vangaveltur sem hafa verið í Evrópu um þau málefni, þá breyta menn ekki fyrirtæki í hlutafélag nema þeir ætli að selja það þannig að ég tel að það þurfi að skoða aðrar leiðir. Málefni Ríkisútvarpsins þarf að skoða. Þau þurfa að vera í sífelldri endurskoðun en ég held að gera þurfi aðrar ráðstafanir en að breyta því í hlutafélag. A.m.k. þarf að fá gild rök fyrir því hvers vegna þurfi að breyta því í hlutafélag.

Ég fagna því að aðgangur að breiðbandinu eigi að vera fyrir alla. Það er mál sem ég hef oft rætt á Alþingi. Reyndar velti ég því fyrir mér hvort uppbygging breiðbandsins sé hagkvæmasta leiðin í því að dreifa útvarpsefni um landið. Það eru vangaveltur sem ég tel að eigi ekki endilega að koma inn í þessa umræðu. En ég hefði gjarnan viljað fá svör, herra forseti, við þessum spurningum sem vöknuðu hjá mér við að skoða þetta frv. til útvarpslaga.

Þetta mál fer náttúrlega til menntmn. og hlýtur að koma aftur inn í þingið og þá verður sjálfsagt mun meiri umræða um frv.