Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 11:16:33 (3298)

1999-02-04 11:16:33# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[11:16]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði varðandi þetta frv. sem ég vil koma á framfæri athugasemdum við og það er í fyrsta lagi þeir þættir sem lúta að almennri íslenskri menningarþróun og eflingu íslenskrar tungu.

Í 7. gr. frv. eru ákvæði um dagskrárframboð en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Þó skal heimilt, ef sérstaklega stendur á, að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku.``

Ég hefði viljað inna hæstv. ráðherra eftir því hvað það þýðir ,,ef sérstaklega stendur á`` vegna þess að það er mjög mikilvægt að þegar Alþingi afgreiðir þetta mál, hvort sem það verður nú eða síðar, þá liggi það fyrir löggjafanum hvert ráðuneytið mundi fara með heimild af þessu tagi. Það kann út af fyrir sig að vera rétt hjá hæstv. menntmrh. að skynsamlegra sé að orða þetta með þessum beina jákvæða hætti en hafa þetta sem undantekningarákvæði og nálgast það þar með allt öðruvísi vegna þess að við vitum að það getur staðið þannig sérstaklega á að það sé ekkert annað að gera en opna fyrir það að sjónvarps- og útvarpsefni fari út á öðrum málum en íslensku.

Nú er það hins vegar þannig eins og við þekkjum að þess eru mörg dæmi að þetta hafi gerst án þess að það sé í raun heimilt ef grannt er skoðað. Ég held að nauðsynlegt sé að draga úr þeirri lagaóvissu sem verið hefur í þessum efnum þar sem veruleikinn hefur sett aðra nálgun á dagskrá en stundum hefur staðið í lögunum. Ég tel því að nauðsynlegt sé að taka á þessu máli. Það getur verið erfitt fyrir stjórnvöld að standa frammi fyrir málum eins og t.d. þeim þegar sent er út á erlendum málum vegna atburða sem eiga sér stað úti í heimi og lýst er jafnharðan og ekki er hægt að koma við textum eða þýðingum. Slík dæmi eru mörg.

Þess eru hins vegar líka dæmi að íslenskar útvarpsstöðvar sendi út fréttir á erlendum málum sem eru þá endurvarp frá öðrum stöðvum. Það eru væntanlega slík afmörkuð einstök tilvik sem þarna er átt við í þessari grein frv., eða hvað? Um það vil ég spyrja hæstv. menntmrh.

Ég vil líka víkja að því ákvæði í þessari grein þar sem stendur í 2. tölul.:

,,Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.``

Gerð er grein fyrir þessu í grg. sjálfri og mér finnst að við séum þarna dálítið í þeim sporum að reyna að taka á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir af því að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Vandi okkar er ekki sá að við þurfum endilega að hafa í okkar útvarps- og sjónvarpsstöðvum miklu meira efni frá öllum ríkjum Evrópu eða öllum málsvæðum Evrópu. Okkar menningarlegi vandi stafar fyrst og fremst af því að yfirþyrmandi engilsaxneskt efni er í miðlum okkar og það er til verulegra bóta að vera með efni frá öðrum menningarsvæðum í Evrópu. Það gerir menningarlífið hér fjölbreytilegra og dýpra en í rauninni er hægt að uppfylla þetta ákvæði frv. með því að vera með stóraukið efni t.d. frá breskum framleiðendum. Ég held í rauninni að það sé þó ekki það sem er sérstaklega eftirsóknarvert fyrir okkur með fullri virðingu fyrir þeim. Á bls. 14 í grg. frv. er aðeins tekið á þessu máli og þar segir, með leyfi forseta:

,,Tekin er upp regla þess efnis að sjónvarpsstöðvar skuli, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til gerðar evrópskra verka, þar á meðal íslenskra verka, sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum (10. gr. frumvarpsins).``

Ég spyr því, herra forseti, hvort nauðsynlegt sé að nálgast þetta svona, hvort ekki sé hægt að líta þannig á að þrátt fyrir þau ákvæði í þessum evrópsku samningum og frv., ef það yrði að lögum, væri hægt að leggja þær kvaðir á sjónvarps- og útvarpsstöðvar að það væri enn þá meira og enn þá hærra hlutfall af efninu íslenskt en hér er gert ráð fyrir. Er nokkuð sem mælir á móti því að slík almenn regla væri sett inn? Við vitum að franskar sjónvarpsstöðvar eru með miklu hærri kröfuþröskuld í þessu efni en hér er gert ráð fyrir og ég spyr: Er ekki hugsanlegt að um leið og þetta mál yrði afgreitt á Alþingi verði skyldur af þessu tagi lögfestar enn þá ákveðnar en hér er gert ráð fyrir?

Mér finnst líka, herra forseti, spurning og spyr hæstv. menntmrh. líka að því hvort ekki kæmi til greina að leyfi til útvarps á Íslandi væri að einhverju leyti bundið íslenskum menningarskilyrðum en ekki bara tæknilegum skilyrðum eins og gert er í 6. gr. frv., tölul. 4. Ég held að nálgast eigi málið þannig að við gerum býsna miklar kröfur til slíkra stofnana í þágu íslenskrar menningar og göngum mjög langt í þeim efnum. Ég tel að við eigum að ganga eins langt og ýtrast er hugsanlegt að ganga miðað við þá alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Ég vil inna hæstv. menntmrh. eftir því hvort ekki mætti hugsa sér að setja slík menningarleg skilyrði inn í 6. gr. og taka líka fram að hlutfallið megi vera meira en 10%.

Í því skilyrði sem ég las upp úr grg., herra forseti, er það í raun þannig að það mætti hugsa sér að 10% af útsendingartíma fari í evrópskt efni, þar á meðal íslenskt og þá verði 9,9% utan Íslands en 0,1% íslenskt efni, eins og þetta er nálgast hér. Það finnst mér ekki þægileg tilhugsun og spyr því hvort ekki sé hægt að velta því aðeins fyrir sér.

Í þriðja lagi vil ég víkja aðeins að Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er óhjákvæmilegt að það komi fram hvernig hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að taka á því máli. Það er ekki hægt að velta þessu yfir á Ríkisútvarpið og það er ekki ofsögum sagt af því í umsögn um málið frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Tvö ákvæði frumvarpsins hafa helst áhrif á kostnað ríkissjóðs. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður, en hann veitir fjárframlög til innlendrar dagskrárgerðar. Sjóðurinn hefur tekjur af 10% gjaldi sem leggst á allar auglýsingar í útvarpi sem áætlað er að nemi 130 millj. kr. á árinu 1999, þar af um 70 millj. kr. frá Ríkisútvarpinu. Samkvæmt gildandi útvarpslögum greiðir sjóðurinn 25% hlut Ríkisútvarpsins af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og er greiðslan áætluð 62 millj. kr. á árinu 1999. Þá má ætla, með hliðsjón af reynslu fyrri ára, að Ríkisútvarpið fái nokkurn styrk til dagskrárgerðar úr sjóðnum á árinu 1999 starfi hann þá samkvæmt gildandi lögum. Árið 1997 fékk Ríkisútvarpið 5,7 millj. kr. framlag úr sjóðnum. Verði frumvarpið að lögum fellur það í hlut Ríkisútvarpsins að greiða lögbundinn hlut sinn í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar. Standist þessar áætlanir munu framangreindar breytingar hafa óveruleg áhrif á afkomu Ríkisútvarpsins.``

Þetta sjá menn, ef sú leið verður farin sem gert er ráð fyrir, með því að skoða annars vegar 70 millj. kr. framlagið til Menningarsjóðsins og hins vegar 67,7 millj. kr. framlagið að því er varðar Sinfóníuna og styrkinn til dagskrárgerðar. En veruleikinn er engu að síður sá að óeðlilegt er að hengja þetta á Ríkisútvarpið. Og ég vil spyrja hvort ekki sé hugsanlegt að halda þannig á þessu máli, ef það verður afgreitt núna eða hvenær sem það verður, að um leið verði tekið á fjárhagsmálum Sinfóníuhljómsveitar Íslands því að þessi sambúð milli Sinfóníunnar og Ríkisútvarpsins er í raun og veru barn síns tíma, úrelt og væri betra ef hægt væri að laga það.

Ég vil að lokum fagna því að ekki er ætlunin að hrófla við starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég tel að mjög mikilvægt sé að sú yfirlýsing liggi fyrir frá hæstv. menntmrh. vegna þess að vofað hefur yfir að jafnvel yrði efnt til þess að breyta Ríkisútvarpinu í grundvallaratriðum. Flokkssamþykktir frá Sjálfstfl. hafa bent til þess að menn væru áhugasamir þar um að selja hluta af Ríkisútvarpinu og það er fagnaðarefni að ekki er bryddað upp á neinu slíku.

Ég held hins vegar að kerfislegur vandi Ríkisútvarpsins --- sem ég leyfi mér að koma aðeins inn á, þó ekki sé beinlínis verið að fjalla um það sérstaklega hér --- liggi fyrst og fremst í þessu afnotagjaldamáli. Að gera ráð fyrir að afnotagjöldin séu bundin við tæki sem síðan er lokað ef menn ekki borga afnotagjaldið, sem þýðir það að menn fá ekki efni frá öðrum stöðvum, er í raun og veru kerfi sem verður að fara öðruvísi í. Ég held að um það séu allir sammála. Ég vil láta mín lokaorð í þessum athugasemdum verða þau að ég tel að afnotagjaldakerfið eins og það er gangi ekki til lengdar og gæti orðið til þess að menn misstu Ríkisútvarpið eins og það hefur verið af því að svo mikil óánægja er með þetta afnotagjaldakerfi, sem er kannski óskylt þeirri hugsun sem er á bak við Ríkisútvarpið að öðru leyti.

Þetta vil ég láta koma fram sem mitt sjónarmið þó að ríkisútvarpsmálið sé ekki á dagskrá að öðru leyti. En meginatriðið í athugasemd minni er það hvort ekki sé hægt að gera ítarlegri og ákveðnari kröfur í þágu íslenskrar menningar en frv. gerir ráð fyrir.