Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 11:46:05 (3300)

1999-02-04 11:46:05# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[11:46]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Eins og kom skýrt fram í máli hæstv. menntmrh. þá er hér um að ræða að mestu leyti aðlögun að tilskipunum Evrópusambandsins. Engu að síður er að finna í frv. nýmæli sem hafa þýðingu, sum hver mikla þýðingu. Vil ég þar nefna sérstaklega heimild til menntmrh. að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi. Slík heimild er mjög mikilvæg og mikils virði. Stafrænt útvarp, sjónvarp og hljóðvarp, markar mikil framfaraspor í tæknilegu tilliti og opnar möguleika á nýjungum í fjölmiðlun og ýmiss konar samþættingu sem án þessarar tækni er ekki möguleg. Því er afar mikilvægt að marka þetta spor í frv. og vil ég lýsa sérstakri ánægju minni yfir því að það skuli hér komið inn. Ég vil einnig taka fram að það er mikilvægt að tryggja réttarstöðu útvarpsstöðva og sjónvarpsstöðva gagnvart breiðbandi og kapalkerfum, en frv. tekur á því einnig. Rétt er í þessu sambandi að taka fram að þótt réttarstaðan skipti miklu máli þá er einnig afar brýnt að þau flutningskerfi sem við höfum komið okkur upp og þá á ég einkum og sér í lagi við ljósleiðarann, verði nýtt sem best í þágu almennings, en enn sem komið er hefur ekki tekist að nýta þessi flutningskerfi eins og æskilegt væri. Vil ég þar sérstaklega geta þess að umferð sjónvarpsefnis á breiðbandinu er til þess að gera lítil og markast það að hluta til af verðlagningunni á þessari þjónustu sem er mjög há. Þess vegna þyrfti einhvern veginn að ýta undir betri nýtingu á breiðbandinu, þ.e. með breyttri verðlagningu. Aukin umferð á breiðbandinu er forsenda þess að verðlagningin geti breyst. En það er eins og þetta mál hafi ekki fengið eðlilegan framgang vegna þess að erfitt virðist vera að taka á því hvar eigi að hefja málið.

Eins og menn minnast kannski þá var, þegar sá sem hér stendur stýrði vinnu við frv. til útvarpslaga fyrir nokkrum árum, lögð fram skýrsla, nokkuð vönduð og ítarleg skýrsla, um endurnýjun dreifikerfis Ríkisútvarpsins og hvað það myndi þýða ef Ríkisútvarpið nýtti sér ljósleiðara. Í ljós kom að í fjárfestingum var hægt að spara um 400 millj. ef Ríkisútvarpið hyrfi frá þeim áformum sínum að endurnýja örbylgjukerfi sitt en nýtti sér þess í stað ljósleiðarakerfið. Ljósleiðarakerfið er enn þá mjög dýrt í notkun fyrir sjónvarpsefni og enn hefur ekki sú umferð sjónvarpsefnis um þetta kerfi sem æskileg er, komist á. Þetta er því viðfangsefni sem þyrfti nauðsynlega að reyna að ýta undir. Það er ekki einungis að það þurfi að ræða það mál við Ríkisútvarpið, heldur skiptir miklu máli að verðlagningin á dreifingu um ljósleiðarann verði endurskoðuð.

Hér hafa orðið nokkrar umræður um samkeppni í fjölmiðlun, þar á meðal stöðu Ríkisútvarpsins, þótt ekki sé í þessu frv. rætt um stöðu þess, né eigi að verða þar nokkur breyting á samkvæmt frv. Í því sambandi hafa menn talað um viðskiptalega stöðu samkeppnisaðila ríkisfjölmiðla og stöðu ríkisfjölmiðla gagnvart samkeppnisyfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er rétt að hugleiða það í þessu sambandi að starfsemi sjónvarps og útvarps er að sjálfsögðu öðrum þræði viðskiptastarfsemi en einnig menningarstarfsemi. Þó að samkeppnisyfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu hafi seilst til aukinna áhrifa á útvarpsmál, þá er engin breyting á því að hluti af þeirri starfsemi sem þessar stofnanir allar annast er mjög mikilvæg menningarstarfsemi. Því er afar brýnt að tryggja sem sterkasta stöðu þjóðlegrar menningar innan þessara fjölmiðla eftir því sem kostur er.

Það er ljóst að Evrópuríkin hafa talið gagnlegt að setja ákveðna hlutfallstölu evrópsks efnis sem viðmiðun í þessum efnum. Ég hef í sjálfu sér ekkert út á það að setja þótt ég hafi efasemdir um að slíkar viðmiðanir séu mjög gagnlegar því það skiptir ekki öllu máli að dagskrárefni sé upprunnið í einhverju ákveðnu landi, heldur skiptir meginmáli að dagskrárefnið sé vandað. Ég hef ekki trú á því að það mundi þjóna miklu hlutverki fyrir okkur Íslendinga að setja það í lög að ákveðið hlutfall sjónvarpsefnis væri íslenskt. Það eru til mjög margar aðferðir til að fara fram hjá slíkum ákvæðum, eða gera sér auðvelt að uppfylla slík ákvæði og segir í raun og veru ekkert um gildi og verðmæti þess efnis sem um er að ræða. Það sem skiptir máli er að á Íslandi sé framleitt íslenskt dagskrárefni sem er mikið að gæðum og hefur menningarlegt gildi. Ég held það verði ekki gert með ákvæðum um hlutfallstölur í dagskrárgerð. Hins vegar er afar mikilvægt að við Íslendingar styðjum einhvern veginn við dagskrárgerð, ekki bara í Ríkisútvarpi og sjónvarpi heldur líka í hinum einkareknu stöðvum.

Í raun felst í frv. ákveðið framlag til dagskrárgerðar, því sú tillaga að leggja Menningarsjóð útvarpsstöðva niður eykur svigrúm stöðvanna til að vinna að dagskrárgerð. Þess ber að geta að Menningarsjóður útvarpsstöðva hefur virkað hamlandi á dagskrárgerð, ekki síst vegna þess að það sem í hann hefur verið lagt af hálfu útvarpsstöðvanna hefur ekki skilað sér til baka af eðlilegum ástæðum þar sem hluti af þessu framlagi sjónvarpsstöðvanna fer til rekstrar sinfóníuhljómsveitarinnar. Því má segja að þegar lagt er til að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður þá aukist svigrúmið sem því nemur til dagskrárgerðar.

Ég vil hins vegar að það komi skýrt fram hér að ég er enn þeirrar skoðunar sem ég var fyrir nokkrum árum þegar lagt var fram frv. til laga um breytingu á útvarpslögum að æskilegt sé og nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að reka dagskrárgerðarsjóð þar sem reynt væri að ýta undir framleiðslu íslensks dagskrárefnis, vandaðs efnis og þá ekki bara hjá ríkissjónvarpinu heldur hjá öllum stöðvum sem framleiða útvarps- og sjónvarpsefni. Ekki er tekið á því í þessu frv. að öðru leyti en því að Menningarsjóður útvarpsstöðva er lagður niður, en ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að íhuga það og ígrunda mjög rækilega. Við megum ekki gleyma því að gerð sjónvarpsefnis sérstaklega er afar dýr en markaðurinn á Íslandi er mjög smár og af þeim sökum er ekki erfitt að ímynda sér að erfitt sé að standa að gerð vandaðs íslensks dagskrárefnis fyrir svo smáan markað.

Hér urðu nokkrar umræður um afnotagjaldið og er ljóst að það hefur ýmsa annmarka. Hins vegar er rétt að benda á að afnotagjaldið hefur markast m.a. af því hlutverki sem Ríkisútvarpið hafði gagnvart sinfóníuhljómsveitinni. Gjaldið hefur tekið mið af því þannig að ef þessi mál verða endurskoðuð nú í kjölfar þessa máls, þá er eðlilegt að taka það til athugunar einnig.

Ég vil að lokum taka fram að ég held að frv. sé gagnlegt og nauðsynlegt. Ég fagna því sem þar kemur fram um stafrænt útvarp og undirbúning að því að hefja slíkt útvarp hér og tel að það marki mikilvæg skref í umræðunni og málefnum fjölmiðlunar.