Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 12:17:59 (3305)

1999-02-04 12:17:59# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[12:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hér er um heimildarákvæði að ræða eins og segir í 23. gr., að heimilt er að ákveða þetta í reglugerð, það er ekki skylda að gera það. En við vildum hafa þessa heimild lögfesta þannig að það færi ekkert á milli mála að við gætum gert þetta ef svo sýndist.

Hitt er rétt, og ég taldi það koma vel fram í framsöguræðu minni, að bæði Stöð 2 og Sýn uppfylla þessi skilyrði. Það sem þær þyrftu að gera til að ná þessu markmiði væri að hafa þetta í opinni útsendingu. Það er það sem um er að ræða. Þær þyrftu að opna svo allir, þótt menn hafi ekki myndlykla, gætu séð slíkar sendingar. Ég sé ekki að það ætti að skaða stöðvarnar með neinu móti og þær fullnægja því að ná til 90% þjóðarinnar þannig að ekki er, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, verið að setja neinum stöðvum, sem hér starfa og þetta getur átt við, neinar nýjar skorður.