Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 13:32:27 (3306)

1999-02-04 13:32:27# 123. lþ. 59.3 fundur 351. mál: #A almenn hegningarlög# (reynslulausn o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[13:32]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, þar sem lagðar eru til ýmsar breytingar á ákvæðum um reynslulausn í V. kafla laganna og ákvæðum um skilorðsbundna dóma í VI. kafla laganna. Tillögur frv. eru af ýmsu tagi og tilefni þeirra er mismunandi, eins og ég mun nú rekja í helstu atriðum.

Með frv. er í fyrsta lagi lagt til að fellt verði niður það skilyrði í 3. mgr. 40. gr. laganna, að reynslulausn verði ekki veitt ef eftirstöðvar refsitímans eru skemmri en 30 dagar. Þetta skilyrði er reist á því, að ástæðulaust sé að veita reynslulausn ef refsitími er mjög stuttur. Við afnám varðhaldsrefsingar með lögum, sem tóku gildi 1. október sl., hækkaði lágmark refsivistar úr fimm daga varðhaldi í 30 daga fangelsi. Með hliðsjón af því er ekki jafnríkt tilefni og áður fyrir þessu skilyrði reynslulausnar. Þá leiðir þetta skilyrði reynslulausnar til mismununar gagnvart föngum eftir tímalengd fangelsisrefsingar.

Í öðru lagi er með frv. lagt til að tekið verði fram í hegningarlögum, að reynslulausn verði ekki veitt ef hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn. Litið hefur verið svo á að reynslulausn verði ekki veitt við þessar aðstæður og á sú framkvæmd sér stoð í reglugerð frá árinu 1993 um fullnustu refsidóma. Rétt þykir þó að kveða á um þetta afdráttarlaust í lögum. Að baki þessu búa þær röksemdir að með skilorðsdómi hafi dómari þegar ákveðið að hvaða marki refsing kemur til fullnustu.

Í þriðja lagi er í frv. að finna tillögu um að tekið verði fram í hegningarlögum að reynslulausn verði ekki veitt ef vararefsing fésektar er afplánuð. Í framkvæmd hefur verið litið svo á að þessi heimild sé ekki fyrir hendi. Á þessa túlkun laganna reyndi nýlega í álitum umboðsmanns Alþingis og telur umboðsmaður rök hníga að því, að sérstaklega hefði þurft með skýru og ótvíræðu lagaákvæði að takmarka að þessu leyti réttindi fanga, sem afplána vararefsingu. Með hliðsjón af þessu er ljóst að vafi leikur á túlkun hegningarlaganna að þessu leyti og er brýnt að úr þeirri réttaróvissu verði leyst með lagasetningu. Eins og nánar er rökstutt í frv. þykja ýmis vandkvæði samfara því að veita eftirgjöf á vararefsingu með reynslulausn. Þá verður að hafa hliðsjón af því að tiltekinn hluti vararefsingar svarar til ákveðins hluta sektarinnar. Það fæli því í sér ákveðna mismunun að veita eftirgjöf á vararefsingu gagnvart þeim sem greiðir sekt sína af skilvísi án þess að eiga kost á nokkurri eftirgjöf. Að þessu virtu þykja rök mæla gegn því að reynslulausn verði veitt þegar vararefsing fésektar er afplánuð. Því er lagt til að sú regla verði lögfest.

Þótt hér sé lagt til að reynslulausn verði ekki veitt af vararefsingu verður á hinn bóginn að hafa hliðsjón af því að sekt er vægasta tegund refsingar og því afar þungbært fyrir sektarþola að þurfa að þola fullnustu sektar með vararefsingu í fangelsi. Það á eins við þótt unnt væri með takmörkuðum hætti að ívilna sektarþola með því að veita honum reynslulausn. Í stað þess þykir nær að sektarþola verði með öðru móti en skerðingu á frjálsræði sínu gert kleift að þola fullnustu refsingar, þegar hann getur ekki greitt sekt.

Árið 1994 var lögfest heimild til að afplána óskilorðsbundna refsivist með ólaunaðri samfélagsþjónustu. Þessi heimild hefur hvorki tekið til fésektar né vararefsingar hennar. Með frv. til laga um breytingu á lögum um fangelsi og fangavist, sem flutt er samhliða þessu frumvarpi, er lögð til sú breyting að unnt verði að fullnusta vararefsingu með samfélagsþjónustu. Með því gefst sektarþola kostur á að komast með öllu hjá því að afplána vararefsingu í fangelsi. Slík fullnusta refsingar er mun sanngjarnari fyrir sektarþola í stað þess að þurfa að þola fangelsisrefsingu af þeim sökum einum að geta ekki greitt sekt. Þó verður áfram að gera ráð fyrir fullnustu vararefsingar með fangelsi þegar sektarþoli fullnægir ekki skilyrðum fyrir samfélagsþjónustu enda yrði að öðrum kosti dregið verulega úr varnaðaráhrifum refsinga.

Í fjórða lagi er með frv. lagt til að felld verði niður heimild stjórnvalda í 2. mgr. 42. gr. hegningarlaga til að ákveða að fangi skuli afplána eftirstöðvar refsingar vegna nýs afbrots á reynslutíma. Tillöguna má rekja til álits umboðsmanns Alþingis frá árinu 1995. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki fengi samrýmst 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að fella niður reynslulausn með þeim rökstuðningi að fangi hefði gerst sekur um ótvírætt hegningarlagabrot sem ekki hafði gengið dómur um. Í kjölfar þessa álits hefur reynslulausn ekki verið felld niður á þessum grundvelli. Sú framkvæmd hefur ekki leitt til teljandi vandkvæða.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.