Fangelsi og fangavist

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 13:38:01 (3307)

1999-02-04 13:38:01# 123. lþ. 59.4 fundur 350. mál: #A fangelsi og fangavist# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[13:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, en frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um breyting á reynslulausnar\-ákvæðum almennra hegningarlaga sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Megintillaga frumvarpsins er að mæla fyrir um heimild til að fullnusta vararefsingu fésektar með samfélagsþjónustu, en það úrræði hefur verið bundið við óskilorðsbundna fangelsisrefsingu frá því það var lögfest árið 1994.

Samkvæmt 54. gr. almennra hegningarlaga verður vararefsing ekki ákveðin í lengri tíma en eitt ár. Í frv. er gert ráð fyrir því að hámarksvararefsing verði fullnustuð með samfélagsþjónustu. Þetta er rýmri heimild en á við um fullnustu fangelsisdóma með samfélagsþjónustu sem bundin er við að refsing sé ekki þyngri en sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Það er út af fyrir sig álitamál hvort heimild til fullnustu vararefsingar eigi að vera rýmri að þessu leyti, eins og hér er lagt til, en með því mæla þau rök að sekt er ávallt vægari refsing en dómur um óskilorðsbundið fangelsi.

Í frv. er einnig lögð til sú breyting að í stað ráðherra skipi forstjóri Fangelsismálastofnunar fangaverði. Þetta er hliðstætt við lögreglulögin, eins og þeim var breytt fyrr á þessu ári en samkvæmt þeim skipar ríkislögreglustjóri lögreglumenn.

Þá er með frv. lögð til breyting á 11. gr. laganna til að skjóta ótvíræðri lagastoð undir heimild til að leyfa föngum að ljúka afplánun á áfangaheimili en sú tilhögun hefur gefið góða raun.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.