Ættleiðingar

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 13:59:11 (3310)

1999-02-04 13:59:11# 123. lþ. 59.6 fundur 433. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég byrja á því að fagna fram komnu frv. til laga um ættleiðingar. Það felur í sér töluvert miklar breytingar. Reglurnar um ættleiðingar eru færðar verulega í átt til þess sem eðlilegt er að séu hafðar um það samfélag sem við búum við í dag þótt vissulega sé það svo að það mætti ganga lengra að mínu mati í þeim efnum og mun ég koma nánar inn á það síðar.

Eldri lög um ættleiðingar voru að stofni til frá 1978 og segja má að þau hafi að mörgu leyti verið orðin úr sér gengin. Eins og rakið var í framsögu hæstv. starfandi dómsmrh. var það svo að samkvæmt laganna eða orðanna hljóðan var einungis miðað við það að hjón gætu ættleitt, ekki þeir sem voru í sambúð. Það var líka þannig samkvæmt texta laganna að einstaklingar gátu ekki ættleitt barn en í framkvæmd hefur verið vikið svolítið frá þessum reglum enda sýnir það sig í mörgum tilvikum að að sjálfsögðu geta þeir sem eru í sambúð verið jafnhæfir til þess að sinna uppeldishlutverki gagnvart börnum eins og þeir sem eru giftir auk þess sem það getur líka verið svo að einhleypingar geta verið jafn vel til þess fallnir að rækja uppeldishlutverkið og þeir sem eru í sambúð eða eru hjón, tveir einstaklingar.

[14:00]

Ég tel eðlilegt að þegar fólk óskar eftir leyfi til ættleiðingar þá fari fram ákveðin félagsleg úttekt eins og verið hefur. Þá ættu að mínu mati þeir sem sækja um að eiga sama rétt í grundvallaratriðum. Síðan yrði þessi félagslega úttekt, sem er að nokkru leyti bæði sálfræðileg og félagsleg, að skera úr um hverjir fái leyfi til að ættleiða barn.

Miklar breytingar hafa orðið á þeim fjölskyldugerðum sem við lýði eru. Þær sýna að fólk velur sér ýmis sambúðarform. Nú nýverið tóku gildi lög um staðfesta samvist sem leyfa að fólk af sama kyni staðfesti samvist sína. Ég hefði talið eðlilegt að í frv. væri einnig heimild fyrir þá einstaklinga, sambúðarfólk af sama kyni, að óska eftir ættleiðingu. A.m.k. tel ég að lögin ættu ekki að hindra að fólk í staðfestri samvist geti sótt um ættleiðingu.

Nú liggur fyrir í allshn. frv. frá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni. Þar er mælt með stjúpættleiðingu fólks í staðfestri samvist og ég vona að allshn. taki það til skoðunar við meðferð þessa frv. hvort ekki væri eðlilegt að stíga þarna skrefið til fulls þannig að fólki sé ekki mismunað eftir sambúðarformi, þó um sé að ræða einstaklinga af sama kyni. Ég tel það reyndar ekki aðeins eiga við um stjúpættleiðingarnar heldur líka um frumættleiðingar. Oft er barninu fyrir bestu að slík ættleiðing sé leyfð. Það hlýtur að vera það grundvallarsjónarmið sem alltaf er í heiðri haft. Eins og reyndar kemur fram í athugasemdum með frv. þá er frv. sniðið að velferð barnsins. Það hlýtur alltaf að vera leiðarljósið án tillits til sambúðarformsins.

Ég tel að breytingarnar sem að öðru leyti felast í frv. séu mjög til bóta, geri reglurnar mun eðlilegri og færi nær framkvæmdinni, sem er eðlileg og hefur verið viðhöfð að nokkru leyti.

Ég vil sérstaklega fagna V. kafla laganna sem er um upplýsingaskyldu kjörforeldra og aðgang kjörbarns að upplýsingum. Ég tel það mikilvæga réttarbót og nauðsynlegt að fest sé í lög vegna þess að því miður eru til dæmi þess, eins og reyndar er dregið fram í greinargerð með lögunum, að börn hafi komist að því, jafnvel utan úr bæ eða frá öðrum en foreldrum sínum, að þau hafi verið ættleidd. Í sumum tilvikum er þetta viðkvæmnismál. Ég tel það mikilvægan rétt hvers einstaklings að fá að vita um uppruna sinn. Réttur barnsins er að fá að vita að það er ættleitt og síðan, eins og kveðið er á um í 27. gr., þegar barnið hefur náð tilteknum aldri, hér er miðað við 18 ára aldur, eigi það rétt á að fá tiltækar upplýsingar um það frá dómsmrn. hverjir séu kynforeldrar þess eða fyrri kjörforeldrar, ef því er að skipta. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt ákvæði, bæði 26. gr., um upplýsingaskyldu kjörforeldra gagnvart barninu og eins um aðgang kjörbarns að upplýsingum í 27. gr.

Það sem kemur fram í 2. mgr. 26. gr. er einnig mikilvægt, þ.e. að kjörforeldrar eigi rétt á að fá ráðgjöf viðkomandi barnaverndarnefndar við upplýsingagjöf gagnvart barni sínu. Þetta getur verið mjög viðkvæmt mál og erfitt fyrir marga. Það er ekki sama hvernig þetta er framkvæmt eða hvernig upplýsingunum er komið á framfæri. Gert er ráð fyrir því í 26. gr. að kjörforeldrar skuli skýra kjörbarni sínu frá því að það sé ættleitt jafnskjótt og barnið hefur þroska til. Það skal að jafnaði gert eigi síðar en barn nær sex ára aldri. Við erum að tala um mjög ung börn og því er á engan hátt sama hvernig staðið er að slíkri upplýsingagjöf. Ég tel mikilvægt að þessi réttur sé tvímælalaus í lögunum þannig að þau slys gerist ekki að fólk heyri slíkt utan að sér og jafnvel á fullorðinsárum.

Í athugasemdum með 26. gr. frv. er tekið fram að í rannsóknum sálfræðinga, uppeldisfræðinga og fleiri sérfræðinga komi glögglega í ljós að miklu varði fyrir velferð kjörbarns að alast upp með vitneskju um að það sé kjörbarn, að það eigi einnig aðra foreldra en kjörforeldrana og kjörforeldrarnir skýri barninu frá því. Hér eru rakin hörmuleg dæmi um að aðrir hafi greint barni frá þessu. Við það geta skapast mjög sárar kringumstæður og erfiðar. Barnið eða sá einstaklingur sem fyrir verður getur verið lengi að ná sér eftir slíkt áfall. Hér er lagt til að þetta sé gert sem fyrst, að það sé sjálfsagður og eðlilegur hluti af lífi barnsins frá því að það fyrst man eftir sér að það sé kjörbarn. Þannig er ekki farið í grafgötur með sambandið við kjörforeldrana. Þetta má gera þannig að þetta sé eðlilegt fyrir barninu. Fyrir lagaákvæðum sem þessum eru fordæmi í lögum annarra Norðurlanda. Þar hefur þetta reynst vel og því held ég að þetta frv. sé skref í rétta átt.

Í athugasemdum með frv. er jafnframt tekið á því að erfitt geti verið að fylgja eftir svona lagaákvæði. Auðvitað er það svo með alla löggjöf sem tengist sifjaréttinum. Það getur verið erfitt að fylgja henni eftir en eigi að síður er mikilvægt að meginreglur og skyldur fólks komi fram í lagatextanum þannig að þessi upplýsingagjöf sé ekki einkamál hvers og eins.

Við ræddum fyrir skömmu síðan í þinginu, fyrir tveimur árum ef ég man rétt, frv. um tæknifrjóvganir sem varð að lögum. Þar var mikið rætt um rétt barna sem getin eru við tæknifrjóvgun með gjafasæði að vita um uppruna sinn. Ég var ein þeirra sem taldi að ekki ætti að vera nafnleynd í slíkum tilvikum. Ég hefði viljað ganga alla leið þó að það hafi ekki orðið niðurstaða þess frv. Hér tel ég tvímælalaust stigið skref í rétta átt, með þessum V. kafla laganna, með skyldunni til að upplýsa barnið og eins um rétt þess til að fá að vita hverjir kynforeldrar þess séu.

Ég hvet til þess að vandlega verði tekið til endurskoðunar hvort ekki sé hægt að koma meira til móts við fólk í staðfestri samvist. Við höfum verið í fararbroddi fyrir réttarbótum til handa samkynhneigðu fólki hvað varðar staðfesta samvist. Ég tel að við ættum að stíga skrefið til fulls og mismuna ekki fólki eftir sambúðarformi, ekki heldur þeim sem eru í staðfestri samvist og heimila þeim ættleiðingar.

Að öðru leyti tel ég frv. mjög til bóta frá því sem verið hefur og skref í rétta átt.