Ættleiðingar

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 14:10:29 (3311)

1999-02-04 14:10:29# 123. lþ. 59.6 fundur 433. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[14:10]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér er flutt frv. um ættleiðingar. Það sannast á þessu frv. að nákvæma og stranga löggjöf þarf um þessi mikilvægu mál. Þau snerta bæði hagsmuni fjölmargra foreldra og barna í landinu, ekki aðeins fjárhagslega hagsmuni heldur tilfinningalega hagsmuni líka. Um ættleiðingar gilda ströng skilyrði og ég tel að svo eigi að vera.

Ég kem þó í ræðustól fyrst og fremst til þess að ræða einn þátt þessa máls. Það er í raun og veru sá þáttur sem vantar í þetta frv. og felur í sér mismunun meðal þegna þessa lands. Í þessu frv. er ekki gætt að réttindum eins hóps. Hver er sá hópur? Það eru börn sem alast upp í staðfestri samvist en staðfest samvist er eins og menn vita lögleg samvist samkynhneigðra. Á Alþingi höfum við leitt í lög sambúðarformið staðfesta samvist og það nýtur allra þeirra réttinda sem annað sambúðarform hefur. Meðal þeirra réttinda er forræði barna að öllu leyti, sameiginlegur fjárhagur og annað sem við teljum til sjálfsagðra réttinda í sambúð.

Eitt atriði er þó undanskilið. Samkynhneigðir mega ekki ættleiða börn. Þetta er fyrst og fremst mismunun gagnvart börnunum. Börn sem alast upp við þessar aðstæður njóta ekki erfðaréttinda á við önnur börn. Þannig getur barn sem elst upp hjá samkynhneigðum í staðfestri samvist, frá tveggja ára aldri til 18 ára aldurs, verið svipt erfðarétti. Önnur börn sama kynforeldris sem ekki alast upp við þetta samband geta hins vegar fengið allan arf. Ég er ekki að segja að hin síðarnefndu eigi ekki arf skilið en þau hafa alist upp fjarri því sambandi sem um er að ræða í þessu tilfelli. Þetta tel ég að sé ljóður á þessu frv. Ég tel að þetta sé ljóður á viðhorfum okkar gagnvart þegnunum, gagnvart því megingrundvallaratriði mannréttinda og stjórnarskrár sem segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og jafnrétti skuli ríkja. Við höfum viðurkennt staðfesta samvist og því eigum við ekki að undanskilja þetta.

Annar þáttur þessa máls tengist réttindabaráttu samkynhneigðra. Þó að sú réttindabarátta sé mörgum framandi, þá er þetta engu að síður viðurkennd staðreynd í samfélagi okkar. Við eigum ekki að mismuna fólki eftir kynhneigð.

Réttindabarátta samkynhneigðra er mannréttindabarátta. Hún er barátta þjóðarinnar við eigin samvisku. Við eigum að auka forskotið sem síðasti ræðumaður gat um að við hefðum. Við Íslendingar eigum að auka þetta forskot með því að stíga þetta skref og breyta þessu frv. í meðferð nefndar á þann veg að í staðfestri samvist sé heimilt að ættleiða börn.

Eins og þingheimi er kunnugt hafa þingmenn úr öllum flokkum lagt fram frv. um ættleiðingu barna í staðfestri samvist. Það frv. kom fram á síðasta þingi og sá sem hér stendur var 1. flm. þess frv. Auk hans eru þingmenn úr öðrum flokkum eins og ég gat um. Mér væri það afar ljúft ef málsmeðferð gæti orðið sú í hv. Alþingi að stjúpættleiðing yrði lögtekin í meðferð nefndarinnar á þessu frv. og í framhaldsmeðferð þingsins. Á sama tíma mundum við sem vorum flutningsmenn að fyrrgreindu frv. draga það til baka þannig að hér þyrfti ekki að takast á um málið frekar en orðið er.

Virðulegi forseti. Ég beini þeim tilmælum til hv. allshn. að hún taki ábendingar mínar og annarra sem hafa talað í sömu átt til málefnalegrar, fordómalausrar meðferðar og við ljúkum lagasetningunni með því að viðurkenna að allir þegnar, hvort sem þeir tilheyra minnihlutahópum eða ekki, skuli vera jafnir og jafnréttháir og öll börn þessa lands skuli jöfn fyrir lögunum.