Flutningur ríkisstofnana

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 15:00:36 (3319)

1999-02-04 15:00:36# 123. lþ. 59.9 fundur 91. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[15:00]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um undirbúning vegna flutnings ríkisstofnana, 91. mál þingsins, framkominni hér í þinginu snemma í októbermánuði, án þess ég hafi dagsetninguna hér fyrir framan mig og er um að ræða endurflutning á máli sem flutt var fyrst á 120. löggjafarþingi og kemur þannig hér fram í fjórða sinn á þingi. Ég hygg, virðulegur forseti, að ýmsir þeir sem þekkja til málsins, og það eru auðvitað hv. þm. en einnig margir utan þings, hefðu kosið að mál þetta hefði fengið aðra meðferð en raun ber vitni á liðnum þingum. Það segi ég m.a. vegna þess atburðar sem varð hér í desember, skömmu fyrir jólahlé þingsins, þegar Hæstiréttur dæmdi ómerkan flutning tiltekinnar ríkisstofnunar, Landmælinga Íslands, upp á Akranes samkvæmt boði hæstv. umhvrh. þar sem Hæstiréttur taldi að lagaheimild skorti varðandi málið. En þetta þingmál er flutt af mörgum hv. þm. auk mín. Meðflm. eru hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson og Ögmundur Jónasson. Efni tillögunnar kemur fram í eftirfarandi texta, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta reglur um málsmeðferð við flutning ríkisstofnana milli landshluta. Taki þær reglur m.a. á eftirfarandi þáttum:

a. aðstöðu stofnunar í nýju umhverfi,

b. kjörum og réttarstöðu starfsmanna sem flytja með stofnuninni,

c. kjörum og réttarstöðu starfsmanna sem ekki kjósa að flytja,

d. málsmeðferð gagnvart Alþingi áður en ákvörðun er tekin.

Haft verði samráð við samtök opinberra starfsmanna og önnur stéttarsamtök, eftir því sem við á, um mótun reglnanna. Niðurstöður verði kynntar Alþingi eigi síðar en á haustþingi 1999 ásamt tillögum um lagabreytingar sem þörf er talin á.``

Þetta er efni tillögunnar. Eins og hér kemur fram er þarna vísað til mjög knýjandi aðgerða og undirbúnings sem þarf að liggja fyrir áður en svo veigamikil ákvörðun er tekin að flytja ríkisstofnun úr umhverfi sínu yfir í nýtt umhverfi.

Í grg. með tillögunni kemur fram að flm. telja að það sé eðlilegt markmið að dreifa þjónustu hins opinbera með skipulegum hætti um landið, þannig að henni verði í senn sem best fyrir komið gagnvart notendum þjónustunnar og einnig með það markmið í huga að styrkja byggð og æskilega byggðaþróun í landinu. Um þetta segir m.a. í grg.:

,,Stefnumörkun stjórnvalda um uppbyggingu og dreifingu opinberrar stjórnsýslu hefur lengst af verið afar óskýr og vöntun á svonefndu þriðja stjórnsýslustigi sem er til staðar annars staðar á Norðurlöndum hefur gert málstök erfiðari en ella.

Miklu skiptir fyrir byggðaþróun að dreifa um landið þeim verkefnum sem til falla á vegum ríkisins. Því fylgja m.a. störf fyrir sérhæft fólk sem kemst þá í snertingu við mannlíf og viðfangsefni í byggðum víða um landið. Að mati flutningsmanna tillögunnar hefur of mikill kraftur farið í skeggræður um að flytja stórar og grónar ríkisstofnanir frá höfuðstaðnum út á land í stað þess að byggja með samræmdum hætti upp þjónustu við íbúana í hverju kjördæmi á helstu umsýslusviðum ríkisins.

Mikilvægt er að þessi mál verði tekin öðrum og ákveðnari tökum en hingað til með það að markmiði að færa þjónustu ríkisins með samræmdum hætti nær fólkinu og styrkja svæðisbundna umsýslu. Þannig má stuðla að betri stjórnsýslu, treysta stöðu landsbyggðar með fjölgun starfa og draga úr miðstýringu.``

Virðulegur forseti. Í grg. með málinu er síðan fjallað um það sem snýr að starfsmönnum og þau sjálfsögðu viðhorf sem ber að hafa í heiðri að ganga fram með eðlilega umgengni við starfsfólk í huga og réttarstöðu þess og að tryggja að undirbúningur sé þannig að það komi mönnum hvorki í opna skjöldu né að ekki gefist eðlilegur aðlögunartími en jafnframt að þeir hinir sömu, sem starfa við þá þjónustu sem hugmyndin er að færa til, fái eðlilega málsmeðferð og viti glöggt að hverju þeir ganga, hvort sem þeir kjósa að flytja sig um set eða ekki. Á þetta hefur átakanlega skort í sambandi við margt af því sem aðhafst hefur verið á þessu sviði, þó ekki alltaf. Ég vil nefna þar eitt dæmi sem er ljóst og sýnir að hægt er að taka á málum þannig að í senn sé með eðlilegum hætti fylgt stjórnarskrá og lögum og tekið tillit til eðlilegrar aðlögunar. Það var þegar aðalstöðvar Skógræktar ríkisins voru fluttar frá höfuðstaðnum austur á Fljótsdalshérað. Þá var það gert í fyrsta lagi með því að í upphafi var samþykkt þáltill. á Alþingi þar sem vilji þingsins kom fram og síðan tók framkvæmdarvaldið við, þ.e. landbrn., sem Skógræktin heyrir undir, sem undirbjó flutninginn m.a. með því að afla sérstakrar lagaheimildar á Alþingi fyrir flutningi þessarar stofnunar. Hann var ekkert sársaukalaus gagnvart starfsfólki sem þá vann við þessa þó tiltölulega fáliðuðu stofnun, en það var þó farið að stjórnarskrárákvæðum í þessu efni og aflað var nauðsynlegra heimilda frá þinginu í formi almenns álits og síðan laga. Þetta mega teljast vera eðlileg vinnubrögð en þarna lágu samt ekki fyrir þær samræmdu reglur varðandi réttarstöðu starfsfólksins sem nauðsynlegt er að settar verði.

Ég kynnti mér m.a. aðdraganda að undirbúningi þessa máls, hvernig nágrannar okkar í Noregi standa að málum en þeir hafa færst talsvert í fang við að flytja opinbera þjónustu frá höfuðstaðnum, Ósló, út um landið en eiga hægara um vik að dreifa þjónustu, m.a. vegna þess að þar eru fylki til að taka við þjónustu af hálfu ríkisins. Þar eru einingar, raunar allstórar einingar sem eru undir það búnar, þar sem reglur og öll aðstaða er til staðar til að taka við þjónustu ríkisins og dreifa henni til einstakra landsvæða. Eitt dæmi sem ég kynnti mér sérstaklega vegna þess að ég var að vinna að tillögugerð varðandi eina tiltekna nýja ríkisstofnun sem reyndar var lögfest hér á Alþingi, þ.e. heimskautastofnunar, sem hlaut nafnið Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, á Akureyri. Af því tilefni kynnti ég mér hvernig staðið hefði verið að málum í Noregi, þar sem um er að ræða fjölmenna stofnun, Norsk Polarinstitutt sem sinnir heimskautamálefnum fyrir hönd norska ríkisins og sú stofnun hefur verið flutt frá Ósló til Tromsö. Þá kom það upp úr dúrnum að þarna hafði verið unnið mjög vandað verk með um fimm ára aðlögunartíma, þar sem um er að ræða samkomulag við viðkomandi starfsmannafélög um réttindamál starfsmanna og allt var undirbúið með þeim hætti að mönnum var ljóst hvernig standa ætti að málum með löngum fyrirvara. Þetta færði mér heim sanninn um að það er hægt að móta með eðlilegum hætti reglur þótt alltaf verði síðan álitamál hvað eigi að flytja, hvernig eigi að standa að málum og hvaða markmiðum menn eru að sinna í þeim efnum.

Ég mæli kannski ekki endilega fyrir munn allra flm., án þess að hafa kannað það nokkuð sérstaklega, þegar ég segi að viðfangsefnið í þessu sambandi á númer eitt að vera það að dreifa þjónustu ríkisins almennt til einstakra svæða, einstakra kjördæma í landinu en ekki að vera að glíma við það sem aðalviðfangsefni að kippa upp einstökum stofnunum héðan úr höfuðstaðnum og flytja þær í heilu lagi eða skáka þeim til annarra landshluta, eins og því miður hefur verið að því er virðist meginviðfangsefnið í þau fáu skipti sem gripið hefur verið til raunverulegra aðgerða í þeim efnum. Það er ekki það sem skilar raunverulegum árangri, hvorki fyrir stjórnkerfið í heild sinni eða leysir þann vanda sem við er að fást í byggðaþróun í landinu. Þess vegna hef ég ætíð verið hvatamaður þess að menn taki á málinu út frá almennum forsendum, að dreifa þjónustu ríkisins, draga niður í starfsmannahaldi á höfuðborgarsvæðinu en koma þjónustuþáttunum fyrir í landshlutunum úti í kjördæmunum. Það er slík dreifing á opinberri þjónustu sem einhverju skilar í raun. En menn þurfa jafnframt að gæta þess að vernda kosti höfuðborgar og miðlægrar þjónustu sem alls ekki er víst að gert sé í rauninni, ef menn ekki gæta sín, þannig að heildarhagsmuna sé gætt.

Virðulegur forseti. Þessi tillaga er ekki ný af nálinni. Hún hefur verið til meðferðar og það liggja fyrir umsagnir og nokkrar þeirra eru birtar sem fskj. með tillögunni. Þar kemur fram stuðningur úr ýmsum áttum, t.d. frá Vinnuveitendasambandi Íslands, sem að vísu tekur ekki eindregið undir efni tillögunnar en telur þó að móta þurfi reglur um hvernig standa beri að slíkum flutningi, en er almennt gagnrýnið á slíkan flutning. En miðstjórn Alþýðusambandsins mælir með samþykkt tillögunnar og fjórðungssambönd úr einstökum landshlutum eru jákvæð gagnvart málinu, mörg hver, þannig að víða er að finna skilning á þessu. Ég er sannfærður um að skilningurinn á þessu fer vaxandi um land allt að settar séu skilmerkilegar reglur til að menn komist út úr þeim hremmingum sem því miður hafa einkennt þá viðleitni til að dreifa þjónustu ríkisins og þá einkum að flytja einstakar stofnanir eða starfsþætti frá höfuðstaðnum út um land.

Síðan eru það nýmæli í þjónustu ríkisins, nýjar stofnanir þar sem auðvitað geta verið efnisleg rök fyrir því vegna starfsemi viðkomandi stofnunar að koma fyrir á stöðum utan höfuðborgarinnar eða höfuðborgarsvæðisins og dæmi eru um það. Ég nefndi áðan Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem heimskautastofnun sem auðvitað er vel sett á Norðurlandi, í höfuðstað Norðurlands svo dæmi sé tekið. Ég get líka vísað til margra vel heppnaðra aðgerða sem sá sem hér talar hefur átt nokkurn þátt í. Það var lagasetningin um iðnráðgjafa sem varð fyrsti vísirinn að þeirri atvinnuþróunarstarfsemi sem vaxið hefur upp í öllum kjördæmum landsins. Það voru sett lög um þetta 1980. Það var kannski einn fyrsti skipulegi vísirinn að því að taka þannig ákveðna þætti og dreifa þeim kerfisbundið. Ég get vísað til setra Náttúrufræðistofnunar Íslands, eða náttúrustofa. Það er einnig aðferðafræði sem var hugsuð þannig að dreifa markvisst þjónustu hins opinbera, rannsóknarstarfsemi öðru fremur út í kjördæmi landsins og hefur skotið rótum með mjög jákvæðum hætti. Ég held að það sé flestra mat. Það eru vönduð vinnubrögð og vel hugsuð í þessum efnum sem ég hvet til að verði ástunduð. Þannig munu menn ná árangri í senn til að efla byggð sem víðast í landinu sem réttmætt er og að dreifa þjónustu ríkisins þannig að hún sé sem næst viðfangsefnum og fólkinu sem hennar á að njóta.

Ég legg til að að lokinni umræðu fari tillaga þessi enn og aftur til hv. allshn. til meðferðar og hefði ég kosið að það væri skilningur á málinu nú og við eigum eftir að sjá málið aftur fyrir lok þingsins.