Sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 15:56:09 (3325)

1999-02-04 15:56:09# 123. lþ. 59.11 fundur 140. mál: #A sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[15:56]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög jákvæðar undirtektir við tillöguna og markmið hennar og alveg sérstaklega taka undir það sjónarmið sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að eðlilegt sé að lög um náttúruvernd taki einnig til hafsins, hafsbotnsins. Þau hafa verið sniðin að landinu fyrst og fremst og auðvitað er mörgu ósvarað að því er snertir meginhluta íslenskrar efnahagslögsögu, þ.e. hafið, hafsbotninn sem er eign ríkisins eftir að við slógum eign okkar ótvírætt á hann með löggjöf 1990, þar sem kveðið er á um að hafsbotninn með því sem er í honum og á --- þ.e. annað en lífverur --- sé eign íslenska ríkisins. Íslenska ríkið ber því mjög víðtækar skyldur varðandi verndun á þessum hluta efnahagslögsögunnar.

Ég ítreka þakkir til hæstv. ráðherra fyrir undirtektir. Það er nauðsynlegt að sjútvrn. og umhvrn. sem framkvæmdarvald taki saman á málum sem að þessu lúta.