Hjálmanotkun hestamanna

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 16:08:18 (3327)

1999-02-04 16:08:18# 123. lþ. 59.13 fundur 171. mál: #A hjálmanotkun hestamanna# frv., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[16:08]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til þess að lýsa ánægju minni með það frv. sem hér liggur fyrir um að hestamenn skuli bera viðurkenndan hlífðarhjálm á höfði. Ég er ekki mikill hestamaður sjálfur en hef þó stundum farið í skipulagðar ferðir í fylgd vanra hestamanna, með misvönum hópum. Það hefur vakið athygli mína að þó svo að yfirleitt séu þeir hafðir með hjálma sem eru í þessum hópum og eru að kaupa sér þjónustu þeirra sem sjá um þessar ferðir, og hjálmar séu til taks fyrir þá, sem er náttúrlega hið besta mál, þá eru þeir oftar en ekki hjálmalausir sem eru með hópana. Nú er ég ekki að segja að þetta sé almenn regla hjá þeim sem sjá um slíka hópa en þetta hefur vakið athygli mína og virðist benda til þess að full þörf sé á því að setja þessar reglur. Það hefur oft verið notað sem rök gegn öryggistækjum, m.a. öryggisbeltum í bifreiðum, að þar með væri verið að skerða rétt manna --- þá væntanlega til þess að skaða sjálfa sig. En ég vona að hestamenn á Íslandi og þeir sem nota hesta taki þessu frv. fagnandi og noti almennt hjálma og að þingheimur beri gæfu til þess að samþykkja frv.