Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:16:54 (3346)

1999-02-08 17:16:54# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:16]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bið um orðið í andsvari við ræðu hv. þm. Magnúsar Stefánssonar vegna þess að mér finnst að hv. þm., auk hæstv. umhvrh., lesi í málið, eins og þetta stjórnarfrv. liggur hér fyrir, með nokkuð öðrum hætti en ég geri út frá texta frv. Því vildi ég heyra skilning hv. þm. á því. Það sem ég er að vísa til er sú staðreynd að í 2. gr. stjórnarfrv. sem við ræðum hér segir, með leyfi forseta:

,,Samvinnunefnd miðhálendis gerir tillögur til Skipulagsstofnunar um svæðisskipulag á miðhálendinu og gætir þess að samræmi sé með aðalskipulagstillögum einstakra sveitarfélaga innbyrðis og að þær samræmist svæðisskipulagi miðhálendisins.``

Í efnisgreininni á undan er ákvæðið um ráðherraskipaða samvinnunefnd miðhálendisins til fjögurra ára með tilteknum móti. Þar eru ekki fulltrúar sveitarfélaga. Þar eru fulltrúar tilnefndir af hæstv. ráðherra og átta fulltrúar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga er enginn lögaðili í sambandi við skipulagsmál. Það er þessi formgalli á frv. ríkisstjórnarinnar, sem ég er nú aldeilis steinhissa á að skuli vera lagt hér fram með svona augljósum formgalla, sem veldur mér áhyggjum. Ég er sammála því markmiði að miðhálendið skuli skipulagt hvað svæðisskipulag varðar sem ein heild og sé að því leyti sérstök stjórnsýslueining í samhenginu svæðisskipulag.