Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:36:46 (3351)

1999-02-08 17:36:46# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:36]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Vandi málsins sem við stöndum frammi fyrir er sá að hæstv. ráðherra hefur uppi túlkanir sem ganga gegn þeim texta sem fyrir liggur og er hér ræddur í formi stjórnarfrv. Það er vandi málsins og af því spretta þær spurningar sem hér um ræðir.

Það deilir enginn um það við hæstv. ráðherra eða aðra að landinu var skipt með löggjöf upp milli sveitarfélaga á síðasta ári. Um það deilir enginn. En það útilokar ekki þá málsmeðferð sem hæstv. ráðherra er hér að gera tillögu um. Hæstv. ráðherra les ekki sinn eigin texta rétt inn í samhengi löggjafarinnar. Hér er gert ráð fyrir að umrædd samvinnunefnd miðhálendis geri tillögu að svæðisskipulagi. Þetta er ekki nefnd sveitarfélaga. Þessi aðili er hinn ábyrgi tillöguaðili samkvæmt þessu frv., ef lögfest verður, og heldur á málinu sem slíkur. Og þar með er hæstv. ráðherra búinn að gera miðhálendið innan umræddrar markalínu sem ég heyri að hæstv. ráðherra ætlar að lögfesta --- hina sömu og var viðmiðunarlínan í gerð svæðisskipulags miðhálendisins --- búinn að búa til sjálfstæða stjórnsýslu í samhengi skipulagslaga, þ.e. þess hluta sem við köllum svæðisskipulag, innan marka þessarar línu. Hann er búinn að taka það vald. Nú geta sveitarstjórnirnar eingöngu samkvæmt því sem hæstv. ráðherra segir --- og það er enginn að taka það af þeim --- gert athugasemdir eins og hver annar, allir sveitarstjórnarmenn, en þeir gera það ekki sem neinn valdaaðili í sambandi við þetta svæðisskipulag, ekki sem sérstakur valdaaðili. Það er búið að taka svæðisskipulagsvaldið undan sveitarstjórnunum með þessu frv. ríkisstjórnarinnar og þær verða að nálgast málið öðruvísi. Svona liggur þetta.

En það væri fróðlegt að heyra aðeins nánar um línuna. Hver er undirbúningurinn að þessari lögfestingu? Er samkomulag um þetta fyrirliggjandi?