Starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 18:08:52 (3356)

1999-02-08 18:08:52# 123. lþ. 60.17 fundur 179. mál: #A starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi# þál., Flm. KH
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[18:08]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 14. þm. Reykv. fyrir að taka undir efni þessarar tillögu og ræða hana að nokkru. Það er mikils virði að hv. formaður félmn. lýsi viðhorfum sínum í þessari umræðu. Ég vona svo sannarlega að tími gefist til að ræða hana í nefndinni og taka formlega afstöðu til hennar.

Ég tek svo sannarlega undir með hv. þm., að mest sé um vert að fram fari lifandi umræða og að lifandi starf sé í gangi í þjóðfélaginu. Hvort sem við tölum um kvennahreyfingu eða kvennahreyfingar þá er mikilvægast að líf sé í starfinu. Það skiptir meira máli en peningarnir sem hér eru þó til umræðu. Þeir eru fyrst og fremst til þess að styðja og styrkja það sem sprettur upp í grasrótinni og er mjög mikils virði ef starfið er frjótt.

Ég er innilega sammála hv. þm. um að við þurfum að huga að þessu, ekki bara í sambandi við kvennahreyfinguna eins og ég kom reyndar að í máli mínu, heldur varðandi margs konar grasrótarstarfsemi og starfsemi frjálsra félagasamtaka og hópa í þjóðfélaginu, hvert sem umfjöllunarefni þeirra er. Mér hefur oft runnið til rifja hve fjárveitingavaldið hefur skammtað naumt í þeim efnum. Við sem eigum að halda utan um þessa peninga og ákveða hvert þeir renna höfum haft skelfilega lítið á milli handanna til að deila á milli hinna fjölmörgu hópa sem bæði eru skapandi og frjóir en einnig þeirra sem vinna afskaplega gagnleg störf og leggja samfélaginu lið. Ég vil minna á þá fjölmörgu sem vinna að velferð ýmissa sjúklingahópa, að ekki sé minnst á hlut góðgerðarfélaga og kvenfélaga sem styrkt hafa alls konar starfsemi, keypt tæki fyrir milljónatugi og lagt til sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Þannig hafa slík samtök og félög sparað þjóðfélaginu stórfé. Hið sama má segja um hvers kyns önnur frjáls félagasamtök. Framlag þeirra er þegar allt kemur til alls miklu meira en það sem þjóðfélagið leggur til þeirra. Það verður ekki metið til fjár.

Ég held að það væri mikils virði ef mótuð væri stefna í þessu efni og gerð áætlun, eins og lagt er til í þessari tillögu. Þannig mundu menn vinna markvisst að því að stuðningurinn komi að gagni og samfélaginu nýtist það sem slíkir hópar og félagasamtök hafa fram að færa.