Lífsiðfræðiráð

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 18:21:37 (3358)

1999-02-08 18:21:37# 123. lþ. 60.19 fundur 182. mál: #A lífsiðfræðiráð# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[18:21]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni 182. mál þessa þings. Það er till. til þál. um að stofna lífsiðfræðiráð. Málið hefur áður komið fyrir þingið, 121. og 122. löggjafarþing, og er hér endurflutt óbreytt frá því sem það lá fyrir á síðasta þingi. Ég sé ástæðu til þess, virðulegur forseti, að fylgja tillögunni úr hlaði með nokkrum orðum um leið og ég fer yfir meginefni hennar, sem er svofellt, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma hið fyrsta á fót lífsiðfræðiráði til að fjalla um siðfræðileg álitaefni sem tengjast erfðabreytingum á lífverum og einræktun og afla til þess nauðsynlegra heimilda á Alþingi. Ráðinu verði ætlað að fylgjast með þróun í líftækni innan lands og erlendis, veita stjórnvöldum ráðgjöf og miðla fræðslu til almennings. Um leið verði endurskoðað núverandi kerfi ráðgefandi nefnda hjá hinu opinbera á þessu sviði og stefnt að einföldun þess og samræmingu.

Einnig verði hið fyrsta komið á fót samstarfsnefnd ráðuneyta sem fari með mál er snerta líftækni og rannsóknir á því sviði, hvort sem um er að ræða menn, dýr, plöntur eða örverur. Nefndin verði m.a. tengiliður lífsiðfræðiráðs við einstök ráðuneyti.``

Þetta er efni tillögunnar. Í grg. með tillögunni er rakin þróun þessara mála, í rauninni tilrauna með erfðaefni sem hófust fyrir 24 árum eða fyrir þeim aldarfjórðungi sem liðinn er frá því að erfðavísar voru fyrst fluttir milli örvera. Lengri er nú ekki þessi saga en þróunin hefur verið gífurlega ör og því afar þýðingarmikið að af opinberri hálfu sé þannig búið um hnúta að yfirsýn sé til staðar og góð samvinna á milli aðila framkvæmdarvaldsins sem þessi efni falla undir. Að því markmiði miðar þessi tillaga sem hér er flutt.

Ekki eru nema þrjú ár síðan fyrsta löggjöfin hérlendis var sett um erfðabreyttar lífverur. Síðan hefur lögum og ákvæðum fjölgað og settar á fót á ýmsum sviðum nefndir sem ætlað er að fylgjast með og veita aðhald eftir atvikum á hinum ýmsu sviðum. Ég held að það mætti vísa til a.m.k. sex laga sem sett hafa verið þar sem um er að ræða nefndir sem m.a. eiga að taka á siðfræðilegum álitaefnum, fyrir utan siðanefndir sem starfa án sérstakrar löggjafar á vegum einstakra fagfélaga og á vegum jafnvel stofnana eins og sjúkrahúsa auk siðaráðs landlæknis sem starfar á vegum landlæknisembættisins.

Í sambandi við mótun þessarar tillögu þá var litið til nágrannalanda þar sem starfandi eru sérstök lífsiðfræðiráð eða líftækninefndir til að fylgjast með þróun, veita stjórnvöldum ráðgjöf og er ætlað að taka heildstætt á málum, þar á meðal á siðferðilegum þáttum líftækni. Þessi tillaga er að mínu mati afar brýn og ég harma að þetta mál skuli ekki hafa komið fyrr til umræðu á þinginu. Það var lagt fram fyrir mánuðum. En þannig vinnst þetta hér hjá okkur að þingmál frá stjórnarandstöðu bíða ansi lengi eftir að fá umræðu.

Við opnum varla svo málgögn, tímarit sem fjalla um alvarleg efni, ef svo má segja, að ekki beri við eitt eða annað sem snertir efni af þeim toga sem fjallað er um í þessari tillögu. Ég hef fyrir framan mig, af því að það barst í hendur mér nýlega, grein í virðulegu blaði sem heitir Le Monde diplomatique, sem farið er að gefa út á enskri tungu. Það er mjög lofsvert framtak að veita þeim sem eru kannski rétt stautandi í frönsku en ekki mikið meira aðgang að fróðlegu efni sem þar er fram reitt. Þar er að finna í síðustu útgáfu, janúar 1999, ágætt yfirlit yfir í rauninni þá ógn sem felst í því sem kallað er í fyrirsögn ,,The Genetic-Industrial Complex``, þ.e. erfðabreytingaiðnaðarkerfið, lauslega þýtt, og dregin fram sú ógnvænlega þróun sem er í gangi á þessu sviði. Ég segi ógnvænlega vegna þess að það er svo langt frá því að menn horfi fram fyrir tærnar á sér í þessum efnum og þarna eru það fjárhagslegir hagsmunir, virðulegur forseti, sem ráða ferðinni. Gífurlegar fjárhæðir eru veittar til þess að hafa áhrif á þá sem ættu að stýra þessari þróun eða hafa eftirlit með henni. Það er kallað lobbíismi eða greiðslur, sem auðvitað má með réttu flokka undir mútur, sem beitt er af framleiðendum til þess að ryðja þessari þróun braut þar sem sem gróðafíknin ræður ferðinni.

Og eins og segir í undirfyrirsögn þeirrar greinar sem ég var að nefna þá er niðurstaðan af aðgerðum líftæknifyrirtækjanna, hinna stóru, sú að fjölþjóðafyrirtækjunum sem eru ráðandi í þessu erfðabreytingaiðnaðarveldi, hafa verið gefin í rauninni fríspil til þess að hafa áhrif eða ,,manipulate``, eins og það er orðað hér, og jafnvel að gera lífverur varanlega ófrjóar til þess að ná markmiðum sínum.

Ég held að það sé mikil ástæða fyrir okkur Íslendinga að bregðast við. Þó að ég nefni hér þetta stóra svið sérstaklega þá er ekki síður ástæða til þess á hinu mannlega sviði, á sviði læknisfræðinnar og á sviði upplýsingatækninnar eins og hún grípur þar inn í --- og er þar skammt að minnast frv. sem lögfest var 17. desember á Alþingi um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði --- að átta sig á hvað hér er á ferðinni og hversu víðtækt þetta svið er.

Í stað þess að byggja eingöngu á nefndum sem eiga að líta eftir takmörkuðum hluta af þessu stóra sviði þá þurfum við að hafa samtengjandi ráð, líftækniráð, til þess að halda yfirsýninni og hagræða síðan nefndakerfi og eftirlitskerfi út frá þeirri forsendu að menn hafi slíka yfirsýn. Tillagan gerir ráð fyrir því að leitað verði einföldunar á núverandi kerfi þannig að menn séu ekki að stofna til óþarfs kostnaðar, en jafnframt að setja á fót þá samstarfsnefnd sem hér er gert ráð fyrir.

Virðulegur forseti. Mér láðist að nefna að tillaga mín er að þessu máli verði vísað til hv. umhvn.