Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 13:44:02 (3361)

1999-02-09 13:44:02# 123. lþ. 61.6 fundur 223. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (vöruþróunar- og markaðsdeild) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[13:44]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að það er mjög mikilvægt að búa nýsköpun skynsamlegt umhverfi í atvinnulífinu. Stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var hluti af þeim starfsskilyrðum sem áttu að stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Ég tel ekki nokkurn vafa leika á að starfsemi Nýsköpunarsjóðs hefur nú þegar skilað talsvert góðum árangri og mun skila enn betri árangri þegar fram líða stundir.

Þegar Nýsköpunarsjóður var stofnaður með lögum frá Alþingi fyrir rúmu ári var áætlað að kringum 750 millj. kr. væru til ráðstöfunar í þessari deild. Þeim fjármunum átti að ráðstafa á þremur árum. Að öðrum kosti skyldu eftirstöðvarnar leggjast við stofnsjóð Nýsköpunarsjóðs. Ég þori ekki að fullyrða nákvæmlega um upphæðina sem ráðstafað hefur verið út úr þessari deild sjóðsins á liðnu starfsári en ef ég man rétt held ég að stofnsjóðsframlagið standi eftir vegna þess að viðbótartekjurnar og ávöxtunin á árinu 1998 hafa staðið nokkurn veginn undir þeim framlögum sem ráðstafað var á því ári. Við erum því enn að tala um að í þessari deild sjóðsins geti verið í kringum 700 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að hægt sé að ráðstafa til styrkja, lána, til vöruþróunar og markaðsaðgerða í komandi framtíð.