Aðgerðir gegn peningaþvætti

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 14:19:35 (3376)

1999-02-09 14:19:35# 123. lþ. 61.8 fundur 226. mál: #A aðgerðir gegn peningaþvætti# (gjaldsvið o.fl.) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti. Frv. þetta er á þskj. 253 og er 226. mál þingsins.

Ísland hefur verið aðili að samstarfi 26 OECD-ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti, svonefndum FATF-ríkjahópi, frá upphafi þess samstarfs árið 1989. Á vettvangi þessa samstarfshóps hafa verið samþykkt 40 tilmæli til aðildarríkjanna um þær aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að fjármálakerfi landanna verði notað til peningaþvættis. Vegna þess samstarfs sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hefur betur komið í ljós að fyrir hendi er hætta á að fleiri aðilar kunni að vera notaðir til peningaþvættis en þeir aðilar sem starfa á grundvelli starfsleyfis sem fjármálastofnun. Dæmi um slíkt má t.d. nefna lögmenn, endurskoðendur, happdrætti og aðra aðila sem geta lent í þeirri aðstöðu við framkvæmd sinna starfa að þurfa að sýsla með fjármuni viðskiptavina sinna með einum eða öðrum hætti.

Ég vil, með leyfi forseta, víkja að einstökum greinum frv. Í 1. gr. frv. er að finna breytingar á 1. gr. gildandi laga um aðgerðir gegn peningaþvætti. Hér er lagt til að í stað þess að telja upp þær fjármálastofnanir sem lögunum er ætlað að taka til verði talin upp sú starfsemi þar sem framvegis verði skylt að framfylgja ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Eins og ég gat um áðan hefur á undanförnum árum komið betur í ljós að unnt er að nota aðra aðila en fjármálastofnanir til að þvætta fjármuni sem er afrakstur af refsiverðum brotum. Með hliðsjón af því þykir eðlilegra að í 1. gr. sé tilgreind sú starfsemi þar sem sérstakrar aðgæslu er þörf í samræmi við ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti fremur en að hafa tæmandi upptalningu á þeim stofnunum sem lögunum er ætlað að taka til eins og gert er í núgildandi lögum. Auk þess er lagt til að gildissvið laganna verði rýmkað nokkuð frá því sem nú er.

Samkvæmt frv. er í 1. gr. tekið fram að ef í þjónustu sem einstaklingar eða lögaðilar veita felist einhver sú starfsemi sem fellur undir einn eða fleiri þeirra 14 liða sem taldir eru upp í 1. gr. þá beri þeim að fylgja tilmælum laganna. Framvegis ber því ýmsum aðilum sem ekki hafa hingað til þurft að hlíta ákvæðum þessara laga að krefja viðskiptamann um skilríki og tilkynna til lögreglu ef viðskipti eru grunsamleg. Í 7. tölul. 1. gr. segir að ef í þjónustu sem veitt er felist að eiga viðskipti fyrir eigin reikning eða reikning viðskiptamanns með peninga, verðbréf eða gjaldeyri, þá skuli ákvæði laganna um aðgæslu laganna ná til slíkra aðila. Undir þetta ákvæði mundu því falla ýmis tilvik, t.d. má nefna þegar í þjónustu lögmanns felst að taka við fjármunum frá skjólstæðingi sínum til varðveislu um lengri eða skemmri tíma í tengslum við lögmannsstörf í hans þágu, svo sem búskipti, móttöku fjármuna vegna tjónauppgjörs o.s.frv. Einnig geta aðrir aðilar fallið undir þessi ákvæði frv., svo sem endurskoðendur, fasteignasalar eða aðrir ráðgjafar sem vegna sinna starfa eru í sams konar aðstöðu og kunna að veita þjónustu af því tagi sem talin er upp í einu eða fleirum hinna nefndu 14 töluliða í 1. gr. frv.

Að öðru leyti en því sem ég hef lýst hér að framan má segja að gildissvið laganna sé í megindráttum sambærilegt við það sem hingað til hefur verið, þ.e. undir ákvæði laganna fellur starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða, verðbréfafyrirtækja, líftryggingarfélaga auk svonefndra gjaldeyrisviðskiptastöðva og þar fram eftir götunum.

Í 2. gr. frv. er að finna breytingar sem taka mið af því að árið 1997 voru samþykktar á Alþingi breytingar á almennum hegningarlögum og ýmsum sérlögum, svo sem tollalögum, lögum um ávana- og fíkniefni, lyfja- og áfengislögum svo nokkur dæmi séu nefnd. Breytingar þessar voru nauðsynlegar vegna staðfestingar Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni, skynvilluefni og samnings um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum. Með þeirri breytingu á almennum hegningarlögum, sem þá var samþykkt, var þvættisbrot gert að sjálfstæðu broti. Nú er því orðið skýrara en áður var í lögum hvað telst falla undir þvættisbrot og miðast því breytingarnar sem lagðar eru til í 2. gr. frv. að því að skýra betur en nú er gert hvað felst í hugtakinu peningaþvætti.

Í 3. gr. frv. er að finna ákvæði þar sem markmiðið er að skýra og gera fyllra ákvæði gildandi laga um aðgerðir gegn peningaþvætti með því að setja nánari reglur um hvenær skylt sé að krefjast persónuskilríkja og hvaða skilríki teljist gild í því sambandi. Eins og kunnugt er gildir sú meginregla í öllu viðskiptalífinu hér á landi að notuð er kennitala til að auðkenna viðskiptamenn fyrirtækja og stofnana og gildir það jafnt um innlenda sem erlenda aðila en Hagstofa Íslands hefur umsjón með þeim málum svo sem kunnugt er. Eðlilegt er að í lögunum komi því skýrt fram að einungis sé unnt að taka sem fullgild persónuskilríki í skilningi þessara laga þau skilríki sem gefin eru út í samræmi við þær kröfur sem Hagstofa Íslands gerir í því sambandi en dæmi um slík skilríki er ökuskírteini og vegabréf.

Í 4.--6. gr. er að finna ýmsar breytingar sem telja má að falli undir tæknilegar breytingar á orðalagi nokkurra greina laganna sem óþarfi er að gera hér sérstaklega grein fyrir enda skýra þær sig sjálfar.

Í 7. gr. frv. er lagt til að í stað þess að tilkynningar um grunsamleg viðskipti skuli sendar til ríkissaksóknara skuli þær framvegis sendar til embættis ríkislögreglustjóra og er það í samræmi við ákvæði nýrra lögreglulaga.

Í 8. gr. er lagt til að við lögin bætist ný grein þar sem skýr ákvæði eru sett um tilkynningar sem gerðar eru til lögreglu á grundvelli laganna og að lögreglu sé skylt að gera tafarlaust viðvart sé ekki talin þörf á hindrun viðskipta.

Í 9.--15. gr. frv. eru að öðru leyti aðeins breytingar sem nauðsynlegar eru af lagatæknilegum ástæðum og lagðar til vegna þeirra breytinga sem felast í frv. og ég hef áður gert hér grein fyrir.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að gera nánari grein fyrir ákvæðum þessa frv. en vil, með leyfi forseta, leggja til að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.