Lausafjárkaup

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 14:39:41 (3379)

1999-02-09 14:39:41# 123. lþ. 61.9 fundur 227. mál: #A lausafjárkaup# (heildarlög) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér hefur verið lagt fram, þ.e. ný heildarlöggjöf um lausafjárkaup, er mjög merk lagasetning.

Eins og hæstv. ráðherra vék að á málið sér langan aðdraganda. Útlínur þess voru upphaflega dregnar af prófessor Magnúsi Torfasyni og síðan héldu prófessorarnir Stefán Már Stefánsson og Þorgeir Örlygsson áfram þeirri vinnu. Niðurstaðan liggur fyrir í vönduðu þskj. sem hér er til umræðu.

Ef borið er saman við löggjöfina frá 1922, sem er orðin býsna gömul, þá er hið nýja frv. tvöfalt meira að umfangi þó vitaskuld sé það ekki gildur mælikvarði. Samt sem áður sýnir það að þessir þættir hafa breyst mjög á síðustu árum og áratugum.

Eins og fram kemur í frv. er það fyrst og fremst norræn kaupalöggjöf sem er lögð til grundvallar við samningu þessa frv. en jafnframt er tekið mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um lausafjárkaup sem öðlaðist gildi 1988. Vitaskuld þurfum við sem fáumst við að setja löggjöfina fyrst að svara þeirri spurningu hvort nauðsynlegt sé að setja ný lög. Hvað er það sem gerir það að verkum að hin eldri löggjöf dugar ekki sem rammi um þá starfsemi sem til staðar er? Hægt væri að nefna fjögur atriði sem kalla á ný lög um lausafjárkaup.

Það eru í fyrsta lagi aukin viðskipti. Viðskipti hafa margfaldast á síðustu áratugum. Í öðru lagi hefur ný tækni komið fram og viðskipti því orðin flóknari. Í þriðja lagi er aukin áhætta í viðskiptum sem tengist m.a. hinu aukna umfangi og í fjórða lagi þarf að kveða skýrt á um aukna ábyrgð í nútímalöggjöf.

Í frv. er farið vel yfir sögu málsins og bent á þau ákvæði sem eru í Grágás en einnig ítarlegri ákvæði í Jónsbók og Járnsíðu. Við á hinu háa Alþingi sjáum af þessu að stofnunin hefur áður hugsað fyrir ýmsu því sem við erum nú að fjalla um.

Heiti frv. ber reyndar með sér að þar sé ekkert fjallað um fasteignaviðskipti. Svo er heldur ekki í núgildandi löggjöf en eitt hið markveraðsta í frv. er neytendaverndin. Hún kemur skýrt fram í þessu frv. Reyndar er álitamál hvort neytendamál og neytendavernd eigi að fella inn í lög af þessu tagi eins og hér er gert. Sum Norðurlandanna, t.d. Danmörk og Noregur, hafa farið þá leið en önnur, eins og Svíþjóð, hafa sett sérstök lög í þeim efnum. Í frv. er sérstaklega er bent á að tengslin við neytendamál og almenn kaupalög þurfi að skoða nánar. Það er þá framhaldsverkefni ef af lögfestingu þessa mikla máls verður.

Benda má á ýmis nýmæli sem fylgja í þessu frv. Þau koma m.a. fram vegna þess hve viðskipti eru orðin flóknari. Ítarlega er kveðið á um ábyrgð vegna aukaskyldna í viðskiptum, vegna galla eða dráttar á afhendingu eða greiðsludráttar. Þetta eru allt hugtök sem við þekkjum ágætlega í daglegum viðskiptum. Hérna er kveðið á um hvernig með skuli fara og réttarstaða afmörkuð. Sömuleiðis er kveðið á um viðbótarfresti svo nefnd séu örfá atriði sem ekki eru beinlínis ákvæði um í núgildandi lögum.

Ég nefndi neytendalögin en þetta eru að hluta til neytendalög vegna þess hvernig þetta er fellt inn í löggjöfina. Mörg ákvæði um neytendavernd eru þó einnig í öðrum lögum. Flutningsmenn meta það hins vegar svo, og ég er sammála því, að þetta frv. styrki og efli réttarstöðu neytenda. Ég tel mikilvægt við lagasetningu af þessum toga að skoða út frá hvaða sjónarmiðum lagaramminn er settur. Mér finnst það mjög góð nálgun og í samræmi við nútímaleg viðhorf að skoða málin mjög vel út frá neytendum.

Ég tel, herra forseti, að frv. sé vel gert. Það er efnismikið en skýrt í framsetningu í greinargerð, enda höfundar vel færir til að fjalla um og koma frá sér skýrum texta, hvort sem er í greinargerð eða einstökum lagafrumvarpsgreinum. Að því leyti má segja að þetta frv. sé með þeim vandaðri sem ég man eftir að hafa fengið til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. Ber að virða það og hrósa þeim sem að verkinu hafa staðið.

Málið verður vitaskuld til skoðunar í nefnd. Eina atriðið sem ég nefni sérstaklega, af því að það er mér hugleikið, er að neytendaþátturinn verði kannaður sérstaklega, hvort hann sé eins vel úr garði gerður og eins vel frá honum gengið og hægt er. Ég ætla ekki að leggja neitt mat á það á þessu stigi málsins en ég tel að þetta frv. þurfi ítarlegrar skoðunar við. Meginatriðið er að ég tel lögfestingu þess í meginatriðum vera mikilvæga réttarbót.