Brunatryggingar

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 14:56:24 (3381)

1999-02-09 14:56:24# 123. lþ. 61.10 fundur 388. mál: #A brunatryggingar# (lækkun brunabótamats van- eða ónýttra húseigna o.fl.) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[14:56]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta er dálítið skrýtið frv. sem við ræðum hér. Það kemur til vegna þess að Bændasamtökin eru óánægð með hvernig brunatryggingum er háttað í sveitum á húsum sem komin eru að falli, og vildu fá sérlöggjöf um þann þátt, töluðu beinlínis um að aðilum í atvinnurekstri ætti að vera í sjálfsvald sett hvort þeir brunatryggðu húseignir sem notaðar eru í atvinnurekstri. Það er alveg fráleitt, herra forseti, ef það á að vera mönnum í sjálfsvald sett hvort þeir brunatryggja húseignir eða ekki. Enda var lagst gegn þessu af öllum öðrum aðilum varðandi þetta mál. Hins vegar er frv. lagt fram og gert ráð fyrir því í 2. gr. frv. að heimilt sé að færa niður vátryggingarfjárhæðir húseigna af Fasteignamati ríkisins og er þá áskilið samþykki sveitarstjórnar o.s.frv. Þetta miðar allt við það að búa til sérreglu gagnvart bændum hvað varðar brunatryggingar.

Ég tel þetta vera ranga stefnu, herra forseti. Við erum með almenna löggjöf um brunatryggingar, sem hefur reynst nokkuð vel, og ef þarf að endurskoða hana þá eigum við að endurskoða hana almennt. Við eigum ekki að búa til sérreglur gagnvart einstökum atvinnugreinum eins og gert er í þessu frv.

Ég geri mér fulla grein fyrir að aðstæður í sveitum eru oft þannig að víða eru niðurnídd hús sem e.t.v. væri betra að hyrfu alveg af fasteignaskrá frekar en að verið sé að greiða af þeim gjöld, því að það er ekki einungis tryggingagjaldið heldur einnig gjöld til Ofanflóðasjóðs og iðgjöld Viðlagatryggingar, umsýslugjöld og brunavarnagjöld sem falla inn í vátryggingargjaldið. Það breytir því ekki, herra forseti, þó að landbúnaður njóti vissrar sérstöðu í samfélaginu, að við eigum ekki að auka á þá sérstöðu með löggjöf af þessu tagi eins og hér er lögð fram.

Ég lýsi mig reiðubúinn til að standa að frv. og aðgerðum sem gerir rekstrarumhverfi bænda betra en nú er, en þá tel ég að það eigi að gera með almennum hætti en ekki með þessum sérstaka hætti eins og hér er í reynd lagt upp með, því þó svo að orðuð sé í 2. gr. almenn heimild Fasteignamatsins að lækka þá kemur alveg skýrt fram í greinargerð að það er gert til að mæta óskum Bændasamtakanna gagnvart bændum. Það er ekki rétt leið, herra forseti, af hálfu Bændasamtakanna og bænda yfirleitt að biðja um sérstakar ívilnanir í löggjöf eins og hér er lagt til, og ég teldi rétt að þetta frv. fengi það vandaða skoðun í nefnd að við værum ekki að huga að lögfestingu þess á þessu þingi.