Álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 15:25:56 (3385)

1999-02-09 15:25:56# 123. lþ. 61.12 fundur 359. mál: #A álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga# (breyting ýmissa laga) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Segja má að við séum að ræða tvö frv. samtímis því að hæstv. viðskrh. gerði grein fyrir frv. um lagaramma um alþjóðleg viðskiptafélög en raunverulega var hæstv. fjmrh. að draga fram aðalatriði málsins sem er skatta\-ívilnanir til handa alþjóðlegum viðskiptafélögum. Frv. sem var lagt fram áðan fjallaði meira og minna um skilgreiningar á alþjóðlegum viðskiptafélögum. Alþjóðleg viðskiptafélög eru að stunda viðskipti á alþjóðavettvangi. Það getur vitaskuld hvaða félag sem er gert. Í sjálfu sér þarf ekki neina sérstaka löggjöf um það. Hins vegar er nauðsynlegt að setja þann lagaramma þar sem á að veita þessum félögum sérstakar skattaívilnanir þannig að hin lógíska uppbygging í frv. er fyrir hendi. E.t.v. hefði mátt fella inn í frv. hæstv. fjmrh. nákvæmari skilgreiningu á því hvað átt er við með alþjóðlegum viðskiptafélögum og vera ekki með sérstaka löggjöf um félögin vegna þess að þau eru náttúrlega að stunda eðlileg og hefðbundin viðskipti. Það verður skoðað í hv. efh.- og viðskn. hvort rétt sé að finna þessu annan lagaramma. Ég er ekkert viss um að það sé en mér finnst koma fyllilega til greina að skoða það.

Það sem hér er lagt upp með er skemmtileg hugmyndafræði, þ.e. að nýta skattalöggjöfina til að búa til nýja starfsemi. Fyrir mig er þetta alveg sérstaklega ánægjulegt því að ég hef lagt fram hugmyndir um þetta efni. Fyrir þinginu liggur einmitt frv. sem er dálítið svipað þessu, þ.e. sú aðferðafræði að nýta skattalöggjöfina til að örva starfsemi. Þar á ég við það frv. mitt að heimila fyrirtækjum sem leggja til menningar-, vísinda- og kvikmyndastarfsemi að draga frá tekjum tvöfalt það framlag. Hér er hugmyndin að nota skattalögin til að örva tiltekna starfsemi. Það frv. hefur því miður ekki náð fram að ganga en það hefði verið sérstaklega gaman að reyna slíka löggjöf alveg eins og hér er verið að leggja upp með raunverulega tilraun með þessi alþjóðlegu viðskiptafélög en hæstv. ríkisstjórn hefur því miður ekki séð ljósið í þeim efnum hvað frv. mitt varðar. Er það miður, sérstaklega vegna kvikmyndagerðarinnar.

Önnur hugmynd sem ég hef nýlega varpað fram er einmitt að nota skattalöggjöfina til að örva starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, fyrirtækja þar sem starfa frá tveim til tíu manns, og lækka tekjuskattsprósentu þar úr 30% niður í 20%. Þetta er mjög athyglisverð hugmynd. Það eru 5.000 fyrirtæki og félög sem falla undir þessa skilgreiningu hérlendis og mundi efla einmitt starfsemi smærri fyrirtækja. Hugmyndin hefur vakið athygli. Ég setti hana reyndar einnig fram í tengslum við breytingu á tekjuskatti einstaklinga, um lækkun tekjuskatts einstaklinga úr 40% niður í 25%.

Ég nefni þetta, herra forseti, til að sýna, að hægt er að nota skattkerfið til að örva ýmiss konar starfsemi ef menn hafa hugmyndir og menn þurfa einnig vald til að ná fram þeirri löggjöf sem nauðsynleg er. Það má e.t.v. segja um mig að ég hafi hugmyndirnar en mig skortir enn þá valdið til að geta fylgt þeim fram. (Gripið fram í: Það stendur til bóta.) Það stendur til bóta, kallar hv. þm. fram í, og við skulum vona að það verði spádómsorð.

Alþjóðleg fjármálalöggjöf, þetta frv. og þessi hugmyndafræði er vitaskuld liður í því, er í nokkuð góðu lagi hjá okkur. Nú er það ekki vegna þess að við höfum verið svo frjó í hugsun í fjmrn. og viðskrn. og við þingmenn eða ríkisstjórn, heldur miklu frekar vegna þess að þetta er EES-löggjöf sem við styðjumst við í meginatriðum og lögfestum þær breytingar sem koma frá Evrópusambandinu. Þar er náttúrlega búið að leggja í mjög mikla hugsun og vinnu hvernig útfæra eigi löggjöf á viðskiptasviði.

[15:30]

Í þessum frumvörpum, ég kýs að tala um frumvörp, þ.e. bæði skilgreiningin á alþjóðlegum viðskiptafélögum og skattaívilnanafrv., sem hæstv. fjmrh. talaði hér fyrir, er fyrst og fremst rætt um að reyna að freista þess að búa til viðskiptafélög um sjávarafurðir. Það sé svið sem við kunnum vel á og gætum haslað okkur völl á. Það er alveg laukrétt að þar kunnum við vel til verka. Við stundum nú þegar umtalsverð alþjóðaviðskipti með sjávarafurðir. Sjávarviðskipti í heiminum eru nú u.þ.b. 50 milljarðar Bandaríkjadala á ári. Hlutur okkar er um 1,3 milljarðar dala, eða um 100 millj. kr. þannig að markaðshlutdeild okkar í sjávarviðskiptum heimsins er u.þ.b. 2--3%. Það er, herra forseti, eini vettvangurinn í alþjóðaviðskiptum þar sem við mælumst, það er í viðskiptum með sjávarvörur.

Hins vegar er athyglisvert að velta því fyrir sér að þessi viðskipti hafa aukist mjög mikið á síðustu árum og áratugum og er sífellt verslað með meira af heimsaflanum milli landa. Margt bendir til þess að veruleg aukning verði á þessu sviði á næstu árum, m.a. vegna þess að fiskeldi er nú þegar fjórðungur af heimsaflanum og vaxandi. Þungamiðja í sjávarfangi og verslun með sjávarfang er að færast til Asíu. Þar eru sóknarfærin. Hins vegar búum við Íslendingar yfir mjög verðmætri auðlind á sviði sjávarútvegs sem er markaðskerfi okkar á Vesturlöndum.

Ef við spáum því að alþjóðaviðskipti með sjávarfang mundi hækka úr 50 milljörðum Bandaríkjadala í 70 milljarða Bandaríkjadala, og það eru til spádómar um að það muni gerast innan nokkurra ára, og ef við vildum halda okkar hlut, segjum að við vildum vera með um 3% af þessum viðskiptum og meira og minna halda markaðshlutdeild okkar, yrði framleiðsla okkar að vera u.þ.b. 2 milljarðar Bandaríkjadala. Það er alveg ljóst að Íslandsmið geta ekki gefið af sér slíkt verðmæti. Þó svo að fiskstofnar séu nú aðeins að braggast og markaðssókn að aukast og við séum að ná betri tökum á þessu öllu saman. Þá eru því samt viss takmörk sett hvað við náum út úr miðunum umhverfis Ísland. Þess vegna eru sóknarfærin fólgin í því að fara út í heim og nýta okkur það sem við höfum fram yfir aðrar þjóðir. Þar höfum við eitt í sambandi við sjávarútveg, það er fyrst og fremst sölukerfið, það er markaðsþekkingin. Icelandic, vörumerki Sölumiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum, er ekki einungis þekktasta vörumerki Íslendinga heldur þekktasta vörumerki í frystum fiski í Bandaríkjunum. Bacalao Islandia, þ.e. íslenski saltfiskurinn á Spáni, er hugtak sem hefur verið þekkt þar um áratuga skeið.

Menn segja oft að við búum yfir mjög mikilli sérþekkingu í veiðum og vinnslu og öðru slíku. Jú, við kunnum sæmilega vel til verka þar. En það kunna aðrar þjóðir líka mjög vel. Við getum að vísu kennt nokkuð en sérstaðan sem aðrar þjóðir hafa ekki er þetta sölukerfi. Það eru söluleiðirnar inn á dýrustu markaði í heimi, hvort sem er í Bandaríkjunum, Evrópu eða Japan. Það er svo mikilvægt vegna þess að framtíðarviðskipti með sjávarfang munu byggjast á fiski frá ódýrum löndum, þ.e. frá Asíulöndum, m.a. fiskeldi, og vitaskuld vilja þessar þjóðir selja á dýrustu mörkuðunum. Þar höfum við tækifæri til að ná góðri sneið af þeirri köku, stækkandi köku sem viðskipti með sjávarfang eru. Í því ljósi, herra forseti, skoða ég þetta frv. þó svo að það sé útfært hér almennt. Að sjálfsögðu væri hægt að versla með fleira en fisk og á að gera, en við erum ekki að einblína sérstaklega á einhver fjármálaumsvif, þau eru heimil samkvæmt núgildandi löggjöf, en við erum að gefa fyrirtækjum sem vilja höndla á alþjóðlegum vettvangi ákveðið forskot og sérstaklega þar sem við höfum eitthvað að bjóða fram yfir aðra. Það er grundvallaratriði í öllum viðskiptum og viðskiptafræðum, að menn eru í samkeppni og sá sem hefur ekki eitthvert forskot fram yfir annan á einhverju sviði mun einfaldlega dragast aftur úr og tapa í þeirri samkeppni.

Þetta byggist á því að styrkja stöðu menntunar, við gætum gert það á næstu árum, hvort sem er á sviði tæknikunnáttu eða í viðskiptum eða menntun almennt. Þar höfum við reyndar dregist aftur úr en ef þessari hugmyndafræði fylgir sókn á því sviði sé ég það fram undan að hér gæti orðið umtalsverð verðmætasköpun á næstu árum. Heimurinn allur er að verða eitt markaðssvæði, landamæri skipta engu máli núorðið, menntun er alþjóðleg, tæknin er að verða alþjóðleg og það skilur orðið sífellt minna milli einstakra þjóða. Það sem við höfum hins vegar sérstaklega upp á að bjóða er þessi markaðsþekking og menn mega ekki gleyma því að markaðsþekking í íslenskum sjávarútvegi er næstum því aldargömul. Við byrjuðum að selja saltfisk í verulegum mæli í byrjun þessarar aldar. Það eru yfir 50 ár síðan við hófum sókn okkar í frystingu þannig að við erum að tala um svið sem við höfum áratuga reynslu í og við eigum að nýta okkur til sóknar.

Það sem ríkisstjórnin leggur upp með er að hún segir: Gott og vel, þetta er góð hugmyndafræði. Sköpum umgjörð um þessi félög, látum þau greiða 5% tekjuskatt og vera eignarskattslaus og stimpilgjaldslaus. Eiginlega má segja að þeim sé veitt skattfrelsi meðan þau starfa á þessu sviði.

Þetta er róttæk hugmynd. Mér finnst hún hins vegar mjög áhugaverð. Ég styð hana vegna þess að ég held að það sé nauðsynlegt að við gerum líka útrás og svona tilraun. Það kemur þá í ljós hvort þessi hugmyndafræði heppnast. Ég veit að fyrirtæki eru starfandi hér á landi sem hafa milligöngu um fisksölu milli þjóða. Fiskur frá Noregi fer kannski til Þýskalands án þess nokkurn tíma að koma við á Íslandi en er seldur í gegnum íslenska síma og íslenska tölvu og verðmætasköpun verður að hluta til hér á landi. Þessi viðskipti eiga sér þegar stað. Við, Íslendingar, seljum fisk frá Suður-Ameríku á Spáni, frá Suður-Afríku til Bandaríkjanna án þess að fiskurinn komi til Íslands. Stundum gerir hann það en stundum gerir hann það ekki. En hér erum við að búa til umgjörð til að starfa á sviði sem ég nefndi að er vaxandi, fer úr 50 milljörðum sem ég nefndi áðan og getur þess vegna tvöfaldast á nokkrum árum. Mikil sókn er í sjávarútvegi í heiminum, einkum í Asíu og einkum í fiskeldi.

Sá sem tekur ekki þátt í þessu verður einfaldlega út undan. Þetta er eins og önnur alþjóðleg viðskipti ef menn grípa ekki gæsina þegar hún gefst þá grípa menn hana alls ekki. Hvenær eiga menn að grípa gæsina nema einmitt þegar hún er í færi? Ég held þess vegna, herra forseti, að það sé gott að lögfesta þetta mál, skoða það að sjálfsögðu í nefnd en gera þetta, sjá til hvort ekki verði um nýsköpun og framsækni að ræða í kjölfar þessa. Ef ekki, þá endurmeta menn bara löggjöfina, þá hafa menn í sjálfu sér ekki tapað neinu. En meginatriðið er þó það að menn nýti skattalöggjöfina til sóknar og ég bendi enn og aftur á hugmyndir mínar í þeim efnum þó svo að þær hafi ekki enn þá náð fram að ganga.

Vitaskuld verður einn þáttur í þessu að gera greinarmun milli félaga þannig að ekki verði um misnotkun að ræða. Nefndin mun fara vel yfir þann þátt málsins þannig að fyrirtæki flýi ekki inn í þetta alþjóðlega viðskiptafélagaumhverfi án þess að hafa til þess unnið. Það verður aðalvandamálið hjá okkur að ganga frá löggjöfinni á þann hátt. Við þekkjum það vandamál, öll ívilnun skapar viss vandkvæði hvað slíka hluti varðar. En ég efast ekki um að efh.- og viðskn. getur leyst það á farsælan hátt.