Álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 15:45:14 (3388)

1999-02-09 15:45:14# 123. lþ. 61.12 fundur 359. mál: #A álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga# (breyting ýmissa laga) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[15:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Fyrirliggjandi frv. sem við ræðum hér og einnig það frv. sem flutt var rétt áðan, er angi af samkeppni ríkja um fyrirtæki, fólk og fé. Nú á dögum tölvualdar og geysimikilla og auðveldari alþjóðlegra samskipta færist það í vöxt að fyrirtæki velji sér staðsetningu í löndum með hliðsjón af skattalegu umhverfi, sem og öðru umhverfi, lagalegu og reglugerðarumhverfi. Þau geta valið sér mörg lönd í þessu tilliti. Það eru sérstaklega fyrirtæki í óefnislegri framleiðslu, þ.e. fyrirtæki sem framleiða hugbúnað eða fjármálafyrirtæki sem leita að slíkum tækifærum, sem hér er verið að bjóða upp á. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að slík fyrirtæki greiði 5% tekjuskatt í staðinn fyrir 30%, og það gladdi hjarta mitt áðan að heyra hv. þm. Ágúst Einarsson geta þess að lækkun á skattprósentu kynni að auka veltuna, sem var nú rætt mikið hér í fyrra varðandi þessi 30% sem ég vildi lækka niður í 27% en fékkst ekki fram, það var fellt fyrir mér hér á Alþingi. Þessi fyrirtæki borga 0% eignarskatt í staðinn fyrir 1,45% og þau borga 0% stimpilgjald í staðinn fyrir 1,5% sem almennt er lagt á og er ákaflega íþyngjandi fyrir atvinnulífið.

Með frv. þessu er verið að ívilna fyrirtækjum sem ekki starfa hér á landi og maður spyr: Hvers eiga innlend fyrirtæki að gjalda? Það mætti hugsa sér að t.d. Singapúr færi sömu leið og setti nákvæmlega sömu lög og við erum að ræða hér í dag, þ.e. þessi tvö frv. Síðan færi Eimskip til Singapúr og yrði skráð í Singapúr með starfsemi á Íslandi og borgaði 5% tekjuskatt og 0% eignarskatt og 0% stimpilgjald. Og öll fyrirtæki í Singapúr kæmu til Íslands og borguðu hér 5% tekjuskatt og enga aðra skatta. Hvað gerðist þá?

Í þessu sambandi vil ég geta þess að á netinu um daginn þar sem ég var að vafra rakst ég á ríki sem er verið að stofna í Karabíahafinu, heilt samfélag sem stefnir að lágmarksríki. Þetta er fyrirbæri sem reist er úti í miðju hafi og stendur á stöplum og þetta á að verða sjálfstætt ríki með lágmarkssamfélag. Lágmarksríki með náttúrlega mjög lága skattprósentu og annað slíkt. Það er því að koma til sögunnar mjög öflug samkeppni á þessu sviði, þ.e. fyrirtækjum og fólki eru boðin góð skilyrði bæði í skattalegu tilliti og reglugerðartilliti o.s.frv.

En þá kemur hinn endinn, herra forseti. Hvað verður um velferðarkerfið okkar sem sumir hv. þm. sem hér sitja í salnum eru mjög áhugasamir um? Hver á að standa undir velferðarkerfinu? Það er nefnilega dæmi sem við þurfum líka að horfa á þegar við ræðum svo mikla breytingu eins og hér er verið að tala um. Mín skoðun er sú að breyta þurfi fjármögnun velferðarkerfisins og alveg sérstaklega þurfi að gera velferðarkerfið skilvirkara og skattheimtuna skilvirkari, ódýrari og einfaldari þannig að skattheimtan verði ódýrari og lægri og mildari á fyrirtækin en gefi samt sem áður þær tekjur til þess að standa undir því velferðarkerfi sem ég hygg að velflestir hv. þm. vilji sjá blómstra.

Hugmyndin á bak við bæði þessi frv. er að laða til landsins fyrirtæki sem ekki hafa starfað hér áður og það er mjög gott mál, en það er alveg á hreinu að þessi fyrirtæki verða tekin frá einhverjum öðrum ríkjum. Við skulum hafa það alveg á hreinu. Þau hefja starfsemi hérna og fara frá því ríki þar sem þau störfuðu áður og þau ríki kynnu að grípa til gagnráðstafana og lækka hjá sér skatta fyrir þau fyrirtæki sem eru starfandi hér á landi. Menn þurfa að búa sig undir slíka samkeppni.

Mér finnst að við hv. þingmenn og hæstv. ríkisstjórn þurfum að skoða dæmið enn ítarlegar. Getur ekki verið að við gætum búið til lagaumhverfi fyrir t.d. fjármálafyrirtæki sem væri þeim að skapi? Ég er ekki að tala um einhvers konar svikakerfi heldur kerfi sem er gott, öruggt og ódýrt í rekstri, þ.e. rökrétt kerfi. Það hefur verið aðalgallinn á flestum kerfum sem fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki hafa starfað undir, og þá ekki síður skattkerfum sem öðrum kerfum, að þau eru órökrétt. Gott dæmi um það er eignarskatturinn hér á landi, sem menn geta komist hjá að borga með því að kaupa spariskírteini, sem er alger rökleysa eins og þau eru meðhöndluð í skattkerfinu. Ef við hygðum að því að búa til lagaumhverfi t.d. í sambandi við fjármálafyrirtæki sem væri rökrétt, einfalt, öruggt og ódýrt í rekstri, þá gætum við ásamt með þessu frv. fengið hingað til landsins starfandi fjármálafyrirtæki úr öllum heiminum og þar þarf ekki að verða mikil álagning til að Ísland geti hagnast verulega á því.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að Ísland er eina landið í heiminum sem getur talað við restina af heiminum á skrifstofutíma. Við getum talað við Japan á morgnana og Bandaríkin á kvöldin. Þetta er eini staðurinn á jörðinni þar sem hægt er að tala við allan heiminn á skrifstofutíma, auk þess sem Ísland er staðsett með einhvers konar aðild að Evrópu, en þó ekki aðild og það eru líka mjög náin tengsl við Ameríku og stutt yfir pólinn til Asíu. Við ættum því að hugleiða að nýta okkur þá kosti líka.

Ég er hlynntur þessu frv. Mér finnst þetta mjög merkileg tilraun sem verið er að gera. Þetta er tilraun til að taka þátt í þeirri samkeppni ríkja um fyrirtæki, fólk og fé, sem stendur fyrir dyrum og fer sívaxandi.