Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 15:58:07 (3391)

1999-02-09 15:58:07# 123. lþ. 61.13 fundur 149. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ábyrgðarmenn en ásamt mér eru flm. hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Sighvatur Björgvinsson, Ágúst Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Gísli Einarsson, Kristín Halldórsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Pétur Blöndal, Einar Oddur Kristjánsson, Magnús Stefánsson, Svavar Gestsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Ögmundur Jónasson og Ragnar Arnalds.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi en er nú endurflutt með nokkrum breytingum.

Í núgildandi lögum er hvergi að finna almennar reglur um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga eða hvernig staðið skuli að slíkri samningsgerð. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa því að mestu mótað eigin reglur um samskipti sín og ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga.

Samkvæmt skýrslu nefndar frá því í nóvember 1996, sem viðskiptaráðherra skipaði til að fara yfir framkvæmd ábyrgðarveitinga, kemur fram að gera má ráð fyrir að um 90 þús. einstaklingar yfir 18 ára aldri séu í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila. Það eru um það bil 45--50% allra Íslendinga á þessum aldri.

Flest bendir til þess að ábyrgðarskuldbindingar séu mun algengari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum eða í Vestur-Evrópu. Þannig kemur fram í áðurnefndri skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, Ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga, að höfundur norrænnar skýrslu um ábyrgðarveitingar telur að á 10% heimila á Norðurlöndum megi finna einstaklinga sem eru í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum annarra. Ef aðeins er tekið mið af upplýsingum sem fram koma í skýrslunni er ekki óvarlegt að ætla að á 60--80% heimila hér á landi megi finna einstaklinga yfir 18 ára aldri sem eru í persónulegri ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum annarra. Því má fullyrða að þróun ábyrgðarskuldbindinga hér á landi hefur orðið með öðrum hætti en annars staðar á Norðurlöndum.

[16:00]

Markmiðið með framlagningu þessa frumvarps, sem skiptist í sex kafla, er að lögfesta almennar reglur um stofnun, form og efni ábyrgðarsamninga, samskipti ábyrgðarmanna og kröfuhafa, upplýsingaskyldu kröfuhafa og ógildingar\-ástæður, auk samskiptareglna milli ábyrgðarmanna og lánveitanda. Ýmsir möguleikar voru kannaðir í því sambandi en niðurstaðan varð sú að leggja til að reglurnar nái til allra samninga og viðskiptabréfa sem nema að fjárhæð 150.000 kr. að nafnvirði eða hærri þar sem einstaklingar skuldbinda sig persónulega til að tryggja efndir peningakröfu á hendur aðalskuldara. Reglunum er því ætlað að gilda um samninga þar sem einstaklingar takast á hendur persónulega ábyrgð eða ábyrgð fyrir hönd einkafirma síns og aðalskylda skuldara er greiðsla peninga.

Frumvarpið byggist að miklu leyti á sjónarmiðum um neytendavernd. Nauðsyn hennar birtist meðal annars í aðstöðumun sem jafnan er á stöðu ábyrgðarmanna annars vegar og viðsemjenda þeirra, lánastofnana, hins vegar. Í flestum tilvikum er öll sérfræðiþekking í lánsviðskiptum hjá lánveitanda, kröfuhafa, auk þess sem ábyrgðarmaður sjálfur hefur sjaldnast nokkurn hag af samningum. Þá er þess að geta að ástæður einstaklinga fyrir því að gangast í ábyrgð eru oftar en ekki krafa lánastofnana eða annarra stórfyrirtækja um auknar tryggingar, auk þrýstings frá fjölskyldumeðlimum, vinum og kunningjum sem erfitt getur verið að standast þar sem afkoma og afdrif einstaklinga geta verið undir því komin að umbeðin fyrirgreiðsla fáist.

Hér á landi virðist hafa verið lögð ríkari áhersla á að þriðji maður ábyrgist efndir aðalskuldara en þekkist í nágrannalöndunum. Minni áhersla hefur verið lögð á að lánveitandi láti fara fram faglegt mat á greiðslugetu lántakenda eins og skýrslan sem vitnað er til hér að framan ber með sér. Lánastofnanir virðast því hafa lagt mun meiri áherslu á að reyna þess í stað að tryggja sér ábyrgð þriðja manns í því skyni að takmarka áhættu sína. Markmiðið með framlagningu frumvarpsins er því öðrum þræði að reyna að breyta vinnubrögðum lánastofnana frá því sem nú tíðkast í allt of ríkum mæli.

Enn fremur er eitt af markmiðum frumvarpsins að tryggja að upplýsingar um áhættu ábyrgðarmanns liggi fyrir þegar ábyrgðarsamningur er undirritaður. Þessi upplýsingagjöf kröfuhafa er forsenda samningsins og liggi upplýsingar ekki nægjanlega skýrt fyrir við samningsgerð getur það leitt til þess að samning megi ógilda á grundvelli reglna frumvarpsins og almennra reglna um brostnar forsendur í samningum, sbr. III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Finna má þess mörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi að forsenda þess að samningar tókust var að þriðji aðili, einstaklingur, tókst á herðar ábyrgð á efndum. Mýmörg dæmi eru um tilvik þar sem samningsaðilum sjálfum var ljóst að aðalskuldari gæti aldrei efnt samning, en hann komist á þrátt fyrir það, án þess að ábyrgðarmanni væri þessi vitneskja tiltæk. Þetta hefur oft og tíðum leitt til þess að ábyrgðarmenn hafa misst heimili sín og þannig verið kippt stoðum undan fjárhagslegu og félagslegu öryggi heilu fjölskyldnanna, án þess að ábyrgðarmenn hafi nokkurn tíma haft af því hagsmuni að samningi væri komið á. Afleiðingarnar hafa oft verið mjög alvarlegar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.

Róttækustu breytingarnar sem frumvarpið felur í sér er að finna í 4. gr. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um að ábyrgðarsamningar skuli vera skriflegir. Það er formskilyrði fyrir gildi þeirra. Rökin fyrir þessari breytingu eru þau að sönnunaraðstaða um efni ábyrgðarsamnings væri annars mjög erfið. Í reynd er það svo að flestir ábyrgðarsamningar eru skriflegir og því mun þessi breyting ekki hafa mikla praktíska breytingu í för með sér frá því sem nú er. Í 2. mgr. er kveðið á um að ábyrgðarsamningar, þar sem ekki er kveðið skýrt á um höfuðstól kröfu á hendur aðalskuldara, séu ógildir. Þá er þar kveðið á um að óheimilt sé að afhenda viðskiptabréf með ábyrgðarmönnum til að tryggja kröfu sem kann að stofnast síðar. Sú regla leiddi meðal annars til þess að afhending svokallaðra tryggingavíxla, sem er sér íslenskt fyrirbæri, yrði ekki lengur heimil.

Enn fremur er að finna róttækar breytingar í 9. gr. frumvarpsins en þar er efni ábyrgðarloforðs þrengt frá því sem nú er. Í fyrsta lagi er kveðið á um að ef veðréttur hefur stofnast með aðfarargerð í fasteign þar sem ábyrgðarmaður eða fjölskylda hans býr, vegna kröfu sem á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs, kemur ekki til úthlutunar upp í þá kröfu af andvirði fasteignarinnar nema af því andvirði hennar á nauðungarsölu sem er umfram 10 millj. kr. Sama á við þegar fasteign er til meðferðar við gjaldþrotaskipti. Sú fjárhæð, 10 millj. kr., er verðtryggð frá þeim tíma sem lögin taka gildi. Auk þess er kveðið á um það í þessari grein að ekki verði gerð krafa um gjaldþrotaskipti á búi ábyrgðarmanns ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs, nema kröfuhafi geri það sennilegt að ábyrgðarmaður hafi skotið undan eignum. Héraðsdómarar meta hvort slíkar ásakanir séu sennilegar þegar þeir taka afstöðu til þess hvort taka skuli viðkomandi bú til gjaldþrotaskipta eða ekki.

Það er mat flutningsmanna að með framlagningu frumvarpsins sé á engan hátt vegið að eðlilegu samningsfrelsi í landinu. Samningsfrelsi er og verður ein af grundvallarreglum samfélagsins þótt sú regla verði að sæta eðlilegum undantekningum sem finna má ýmis dæmi um í löggjöfinni. Í frumvarpinu er að finna skýrar reglur um hvernig standa skuli að samningsgerð þegar þriðji maður gengst í ábyrgð á efndum aðalskuldara vegna fjárskuldbindinga, án þess að lagt sé bann við nokkru sem nú er sérstaklega heimilað.

Rökin að baki þeim reglum sem hér er lagt til að lögfestar verði er markmiðið um vernd einstaklingsins sökum þeirrar yfirburðastöðu sem lánveitendur hafa jafnan við samningsgerð. Það er einnig mat flutningsmanna að sú þróun sem átt hefur sér stað hér á landi hvað varðar fjölda ábyrgðarmanna sé óásættanleg, eins og áðurnefnd skýrsla iðnaðar- og viðskiptaráðherra ber með sér.

Eins og áður hefur komið fram er frumvarp þetta lagt fram öðru sinni þar sem það varð ekki útrætt á síðasta þingi. Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á því eru í fyrsta lagi þær að nú er reglunum ætlað að gilda um tékka og víxla og teljast þeir ábyrgðarmenn í skilningi frumvarpsins sem ekki hafa beina fjárhagslega hagsmuni af útgáfu víxils eða tékka. Í umsögnum um frumvarpið á síðasta þingi komu fram sterk rök fyrir því að markmiði frumvarpsins yrði ekki náð nema reglurnar tækju einnig til tékka og víxla. Í öðru lagi er reglunum ekki ætlað að gilda um fjárskuldbindingar sem ekki ná 150 þús. kr. að nafnvirði. Ástæða þessa er sú að mat flm., einkum þess sem hér stendur, er að annað gæti torveldað viðskipti þar sem um lágar fjárhæðir er að ræða. Í þriðja lagi er fellt brott ákvæði um að ekki verði gert fjárnám í heimili ábyrgðarmanns. Þess í stað er lagt til að heimili ábyrgðarmanns verði varið, ef svo má að orði komast, þannig að ekki komi til úthlutunar upp í slíka kröfu nema andvirði fasteignar nemi meira en 10 millj. kr. Í fjórða lagi er sett inn nýtt ákvæði sem leggur kröfuhöfum þær skyldur á herðar að senda um hver áramót tilkynningu til ábyrgðarmanna með upplýsingum um ábyrgðir sem þeir eru í og hvort þær séu í vanskilum og þá hversu mikil þau vanskil eru. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að haldið sé vel utanum þetta því að eins og ábyrgðarmannakerfið hefur þróast hér á landi er óvíst að allir hafi nákvæmt yfirlit yfir í hvaða ábyrgðum þeir eru. Má í því sambandi benda á Lánasjóð íslenskra námsmanna, en það hefur löngum tíðkast að samstúdentar skrifi upp á hver fyrir annan án þess oft og tíðum að hafa næga yfirsýn yfir þær ábyrgðir sem þeir hafa skrifað upp á.

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara nánar í einstakar greinar þessa frv. en langar, áður en ég lýk máli mínu, að fjalla örlítið um þær umsagnir sem um frv. bárust í fyrra. Áður en að því kemur, virðulegi forseti, vil ég taka fram að sú endurskoðun sem fram hefur farið á frv. frá því í fyrra hefur að hluta verið gerð í samstarfi við Neytendasamtökin. Ég vil sérstaklega þakka það samstarf sem hefur verið einkar ánægjulegt og margar mjög góðar ábendingar sem komu þaðan.

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, vitna ég til umsagnar frá Seðlabanka Íslands en undir hana rita fyrrv. aðalbankastjóri, Steingrímur Hermannsson, og Eiríkur Guðnason. Meginniðurstaða Seðlabankans, sem gerði nokkrar tæknilegar athugasemdir við frv. frá því í fyrra, er þessi, með leyfi forseta:

,,Seðlabankinn telur að lögfesting frv. sé almennt til bóta og til þess fallin að draga úr hinni miklu notkun ábyrgða einstaklinga hér á landi við lánveitingar og hvetja lánastofnanir um leið til þess að leggja faglegt mat á greiðslugetu lántakenda. Er bankinn meðmæltur lögfestingu þess.``

Vátryggingaeftirlitið er sama sinnis. Þó ekki taki það beina afstöðu til efnis málsins, þá segir hér: ,,Eftirlitið telur ekki ástæðu til að gera efnislegar athugasemdir við frv.`` Það er bein tilvitnun í þá umsögn.

Neytendasamtökin gerðu nokkrar athugasemdir við frv. í fyrra. Frv. sem hér liggur fyrir hefur verið unnið í samstarfi og samráði við samtökin, enda standa þau að fullu með lögfestingu þess. Þeir einir sem leggjast gegn lögfestingu þessa frv. eru viðskiptabankar og sparisjóðir auk þess sem Vátryggingafélag Íslands hefur gert athugasemd við að það verði lögfest.

Ekki er hægt, herra forseti, að gera til þess kröfu að allir séu sammála þeim málum sem hér eru flutt. Mig langar að lesa örlítinn kafla úr umsögn Sambands ísl. sparisjóða um frv. Maður áttar sig þó ekki fyllilega á því hvert þeir eru að fara þá rætt er um jafnmikið réttlætismál og að koma böndum á samskipti lánveitenda og ábyrgðarmanna. Ég ætla að lesa örstuttan kafla úr umsögn Sambands ísl. sparisjóða um frv. til laga um ábyrgðarmenn frá því í fyrra. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Samband sparisjóða telur að samkomulagið muni gerbreyta þeim forsendum sem liggja til grundvallar flutningi þessa frv., sbr. greinargerð með því, og að frjálsir samningar séu mun heilladrýgri en lögþvingun í samningum manna á meðal. Í því sambandi er óhjákvæmilegt að vekja athygli á röksemdafærslunni í greinargerð með frv. þessu um inngrip í samningsfrelsi sem að breyttu breytanda minnir óþyrmilega á réttlætingu á meiri háttar slysum í mannréttindasögu síðustu alda og ára. Um það má hafa mörg orð, sem ekki skulu rakin hér.``

Ég verð að segja alveg eins og er að umsagnir sem svona eru settar fram eru þeim sem þær gefa á engan hátt til framdráttar og til lítils sóma auk þess sem það er á engan hátt rökstutt neitt frekar. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að vitaskuld er hér um mikið hagsmunamál að ræða. Það er mikið hagsmunamál fyrir bankana og viðskipta- og lánastofnanir almennt að geta haldið áfram að krefjast ábyrgðarmanna til að tryggja efndir á þeim lánum sem þeir veita í stað þess að vinna faglega að þeim lánveitingum sem þeir standa í.

Ég held að sú hugsun sem hér birtist sé einungis til þess fallin að draga úr eðlilegri þróun og koma í veg fyrir að á næstu árum verði sambærileg þróun og átt hefur sér stað víðast hvar erlendis. Þar er gengið út frá því að menn vinni faglega og vel að þeim lánveitingum sem þeir inna af hendi í stað þess að treysta alfarið á að þriðji aðili ábyrgist lánveitingar og þær skuldbindingar sem lánastofnanir takast á herðar.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn.