Markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 16:52:38 (3397)

1999-02-09 16:52:38# 123. lþ. 61.14 fundur 160. mál: #A markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis# þál., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[16:52]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér flytja þeir á ný tillögu sína, þeir hv. þm. Stefán Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson. Því miður tókst landbn. ekki að afgreiða tillöguna á síðasta þingi en hún var send út og fær góðan hljómgrunn.

Ég tek undir með framsögumanni að það sem hér er lagt til gæti skipt landbúnaðinn mjög miklu máli, sauðfjárræktina og þá í leiðinni þá atvinnugrein sem mestu mun ráða um byggð á Íslandi. Sauðfjáræktin er auðvitað sú atvinnugrein sem hefur í gegnum aldir haldið landinu í byggð og sauðkindin hefur verið atvinnuskapandi í dreifbýlinu.

Það er ljóst að 1995, þegar við komum að ríkisstjórn, voru mörg mál þessarar atvinnugreinar og reyndar landbúnaðarins í heild strand. Það var því eitt af fyrstu verkum núv. landbrh. þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar og stjórnarflokka að höggva á marga mikilvæga hnúta. Þar í var nýr sauðfjársamningur sem var tekinn upp fyrir tímann og gerð á honum bragarbót sem skipti sauðfjárræktina mjög miklu máli. Ég minnist þess að þegar verið var að gera þennan samning og hann fór í gegnum þingið var hann gagnrýndur mjög og þegar hann var kynntur spáðu sumir að hann yrði til ills eins. Sem betur fer gengu meginmarkmið hans upp. Birgðirnar voru afsettar og í rauninni hófst nýtt tímabil í sauðfjárræktinni sem hefur verið að bæta stöðu sína síðan. Því ég tek undir það að nú er mikilvægt að fylgja þeirri sókn eftir með ýmsum aðgerðum.

Ég hef jafnan sagt að eigi sauðfjárræktin að halda stöðu sinni og ég tala nú ekki um að vaxa að einhverju leyti, sem er mjög mikilvægt, þá er útflutningur það frelsi sem gefur landbúnaðinum og sauðfjárbændum nýja von. Sem betur fer hefur á þessum síðustu árum verið mjög vel hugsað um nýja markaði með nýjum hætti á sterkum afurðastöðvum bænda. Þar hafa farið fyrir Austur-Skaftfellingar, Húsvíkingar, Sláturfélag Suðurlands, Kjötumboðið o.s.frv. og hafa verið að ná þokkalegu verði. Ég nefni Sláturfélag Suðurlands sem hefur verið að fá svipað verð og gerist hér á Íslandi. Heimurinn vill hreinar afurðir og dilkakjöt okkar kemur frá slíku landi þannig að þarna eigum við möguleika.

Ég tek undir efni þessarar tillögu og tel hana merka og þau samtök sem hér eru nefnd hafa ekki komið nálægt landbúnaðargeiranum að neinu sem heitir. Þar eru Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda en þau hafa þó stundum sýnt því áhuga. Þau búa yfir sölumennskunni, mikilli verkþekkingu þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi tillaga nái fram. Það er spurning hvort landbrh. ætti að skipa nefnd (EgJ: Í guðs bænum ekki.) til þess að vinna málið og gera tillögur. Stundum þarf að vinna málið þannig. Ég ætla ekkert að fullyrða það að set það hér fram sem hugmynd og biður þá hv. þm. Egill Jónsson guð almáttugan að hjálpa sér sem mér finnst nú tímabært. Þegar slíkur skörungur ætlar að hverfa af þingi þá verður skarð fyrir skildi á landsbyggðinni og fyrir okkur aðdáendur sauðkindarinnar að missa slíkan búhöld og baráttumann.

Ég vil líka taka undir það að um leið og menn ganga þessa leið að leita markaðanna með nýjum hætti þurfa menn líka að hugsa um innanlandsmarkaðinn. Sannleikurinn er auðvitað sá að mér finnst það skaði að innanlandsrétturinn eða beingreiðslurnar skuli fastar, að menn geti ekki styrkt sig og tekið við þeim rétti sem ýmsir vilja í dag láta af hendi af því að þeir hverfa til annarra atvinnustarfa, eiga aðra möguleika o.s.frv. Ég oft rætt það við Bændasamtökin að menn þurrfi að skoða í fyllstu alvöru hvort ekki sé hægt að hreyfa þann rétt á milli.

Ég lofa hv. flm. því að þetta mál mun fá góða umfjöllun og vonandi skjóta í landbn. þó stuttur tími sé til þingloka.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.