Markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 16:58:57 (3398)

1999-02-09 16:58:57# 123. lþ. 61.14 fundur 160. mál: #A markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis# þál., Flm. StG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[16:58]

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágætar undirtektir við tillöguna. Það kemur mér ekki á óvart að þeir sem hafa kvatt sér hljóðs tali á þessum nótum. Þetta eru báðir menn sem hafa velt þessum málum lengi fyrir sér og vita hvað þeir eru að fjalla um.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni að það hefur verið vinna í gangi til að efla útflutning á dilkakjöti og fyrir það ber vissulega að þakka. Ég þarf ekki að telja upp aftur þau fyrirtæki sem þar hafa verið í forustu. Þau hafa unnið frábærlega gott starf við erfiðar aðstæður.

Ég get sagt frá því að ég fór að velta þessu máli fyrir mér vegna þess að í sjálfu sér fannst mér miða hægt að afla okkur markaðar erlendis. Ég gerði mér grein fyrir því að það er hægra sagt en gert að brjótast inn á markað úti í hinum stóra heimi með lítt þekkta vöru. Því fór ég í smiðju til eins af forstjórum útflutningsfyrirtækja í sjávarútvegi og ræddi við hann um þetta mál, hvernig viðbrögð þess fyrirtækis mundu verða ef slík tillaga eins og hér er verið að tala fyrir yrði samþykkt á Alþingi. Hann tjáði mér að því máli yrði fagnað og tekið vel í því fyrirtæki sem hann er forstjóri fyrir. Ég get alveg sagt það hér við hvern ég var að tala. Það var fyrrverandi forstjóra Íslenskra sjávarafurða, Benedikt Sveinsson, sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á þessu máli. Hann sagði mér ýmislegt fróðlegt um markaðsmálin og hvernig væri hægt að koma þessu fyrir í samstarfi við þessi stóru markaðs- og sölufyrirtæki erlendis.

Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að sóknarfæri okkar í því að byggja upp sauðfjárbúskap á Íslandi felast í því að við getum aflað okkur nýrra og betri markaða. En grundvöllur þess er auðvitað sá að hann skili bændum því verði sem ásættanlegt er. Það er grundvallarmál í dag að sá markaður sem við horfum til og ætlum okkur að vinna geti skilað þeirri afkomu að fólk geti búið við mannsæmandi lífskjör.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það voru um þetta á síðasta þingi miklar og ágætar umræður. Nú er að taka til hendi og ljúka afgreiðslu málsins hér á þingi og ég fagna því sem formaður landbn., hv. þm. Guðni Ágústsson, sagði að hann mundi beita sér mjög fyrir því að málið yrði tekið fyrir í landbn. strax og þá er ég sannfærður um að það tekst að ljúka því nú fyrir þinglok og fyrir það mun ég þakka.