Stuðningur við konur í Bosníu

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 17:40:36 (3402)

1999-02-09 17:40:36# 123. lþ. 61.0 fundur Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[17:40]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stuðning við konur í Bosníu en flm. ásamt mér er Drífa Hjartardóttir. Þessi tillaga gengur út á það að Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að beina hluta þeirrar fjárhagsaðstoðar sem ætluð er til uppbyggingar í Bosníu á komandi árum til kvenna þar í landi í samvinnu við kvennasamtök. Verði aðstoðin notuð til að styrkja uppbyggingu kvennahúss í Sarajevó og til annarra brýnna verkefna sem konur í Bosníu fást við.

Í grg. þessarar tillögu er skýrt rækilega frá aðdraganda þessa máls en þar er skemmst frá að segja, hæstv. forseti, að íslensk kona, Vilborg Ísleifsdóttir sagnfræðingur, sem búsett er í Þýskalandi, hefur beitt sér mjög í þessu máli. Þegar styrjöldin hófst í Bosníu streymdi mikill fjöldi flóttamanna til Þýskalands og vinkona Vilborgar, sem er læknir, fékk margar þessara kvenna í meðferð til sín. Varð henni þá ljóst að mjög mikil þörf var á sérstakri aðstoð við konur í Bosníu.

Eins og menn eflaust minnast var styrjöldin sem ríkti í Bosníu, og náði reyndar að hluta til inn í Króatíu og víðar, hræðileg styrjöld og það var einkum tvennt sem einkenndi hana. Það var annars vegar það að einkum Serbar reyndu að útrýma minnihlutahópum á þeim svæðum sem þeir réðu yfir, minnihlutahópum eða þjóðabrotum eða hvað maður á nú að kalla þetta, þetta er allt meira og minna sama fólkið en það eru trúarbrögð sem greina einkum þarna á milli. Serbar myrtu karlmenn í stórum stíl og tóku upp á því, sem er hitt sérkenni þessarar styrjaldar, að safna konum saman í búðir og nauðga þeim. Ég held að önnur eins dæmi um hópnauðganir séu ekki til úr nokkurri styrjöld. Þetta gerðu Serbar fyrst og fremst til þess að brjóta þessar konur gjörsamlega niður líkamlega og andlega. Því eru margar þeirra ákaflega illa farnar eftir þessa styrjöld en þar sem þær eru múslimar eiga þær mjög erfitt með að leita sér hjálpar, þær eiga mjög erfitt með að viðurkenna þá hræðilegu niðurlægingu sem þær urðu fyrir enda hefur ekki víða verið hægt að leita hjálpar.

Alþjóðasamtök, Evrópusambandið og kvennasamtök hafa verið að vinna að hjálparstarfi og svokölluð BISER-kvennasamtök hafa unnið að því að koma upp kvennahúsum, annars vegar í Túsla --- og eflaust minnast margir þess bæjar úr fréttum frá styrjöldinni --- og hins vegar í Sarajevó. Tekist hefur að safna peningum fyrir kaupum á húsi sem er alveg að verða tilbúið. Það segir mikið um ástandið að þegar konurnar komu að húsinu sem þær höfðu keypt stóð eiginlega ekkert uppi annað en veggirnir og þakið. Búið var að stela öllu steini léttara úr húsinu, draga út rafleiðslur, hirða alla vaska og allt sem í húsinu var. Talið er að þetta hafi verið gert til þess að selja þessa hluti á svarta markaðnum. Því hefur nánast orðið að byggja húsið algjörlega upp frá grunni. Nú síðast kom í ljós að þakið var verr farið en leit út í fyrstu. Það kom í ljós þegar ákveðið var að lyfta þakinu og búa til þriðju hæðina í húsinu til þess að hægt væri að nýta það enn þá betur.

[17:45]

Fyrirhugað er að halda námskeið í þessu húsi í saumaskap, lestri, og ýmsu því sem gæti hjálpað þessum konum til þess að leita sér menntunar eða til þess að byggja þær upp þannig að þær geti fengið vinnu og þar með séð sér og sínum farborða því að það er gríðarlega mikið af ekkjum í Bosníu. En jafnframt námskeiðum á að bjóða upp á viðtöl við sálfræðinga og lækna og það er ágætt yfirskin fyrir konurnar að fara á námskeið en nota tækifærið í leiðinni og ræða við lækni eða sálfræðing. Þá þarf enginn að vita af því að þær eru að sækja sér slíka þjónustu sem virðist vera svona gríðarlega viðkvæmt mál.

Þegar Vilborg Ísleifsdóttir kom hingað heim, ég hygg að það hafi verið í nóvember, var haldinn fundur á vegum Kvenréttindafélagsins, Kvenfélagasambands Íslands og Bandalags kvenna í Reykjavík þar sem hún greindi frá ástandinu í Bosníu og aðdraganda þess, lýsti því sem þar hefur verið á ferðinni og þeim verkefnum sem konurnar hafa verið að vinna að. Samkvæmt því sem fram kom hjá henni eru konur nú um 68% íbúa Bosníu, þær eru tveir þriðju hlutar íbúanna vegna þess að karlmenn hurfu þar í stórum stíl. Meðal þessara kvenna er mikið ólæsi, það er ótrúlegt að í þessu Evrópuríki er gríðarlegt ólæsi, en það á sér ýmsar skýringar í siðvenjum múslima og því skipulagi sem tíðkaðist í Bosníu fyrir styrjöldina. Af þessu leiðir að mjög fáar konur hafa einhverja menntun en þær eru þó til, bæði læknar og sálfræðingar og verkfræðingar og konur með ýmsa aðra menntun. En það eru líka ýmsar siðvenjur sem standa þessum konum fyrir þrifum. Í greinargerðinni er greint frá dæmi sem Vilborg sagði okkur frá. Nokkrar múslimakonur frá Bosníu sem voru í Þýskalandi fengu þá hugmynd að opna kaffihús í Sarajevó en þær komust að þeirri niðurstöðu að þær gætu það alls ekki, það samræmdist ekki þeirra siðvenjum og konur sem ynnu á veitingastöðum yrðu einfaldlega álitnar lauslætisdrósir. Þetta þýðir að möguleikar þeirra til að vinna fyrir sér, til að stofna fyrirtæki eða gera eitthvað af sjálfsdáðum eru takmarkaðir vegna þessara sterku hefða. Þetta tíðkast innan Evrópu, hæstv. forseti.

Megintilgangur tillögunnar er að vekja athygli íslenskra stjórnvalda á þeim brýnu verkefnum sem eru í Bosníu og snerta konur sérstaklega, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi hér áðan, að þær eru tveir þriðju hlutar íbúanna. Ákveðin upphæð á fjárlögum er ætluð aðstoð við Bosníu. Sérstök Bosníunefnd starfar og leggur til hvað gert skuli til aðstoðar Bosníumönnum. Tilgangurinn með þessari tillögu er að fá hæstv. utanrrh. og Bosníunefndina til að beina sjónum að konum í Bosníu.

Á síðasta ári fengu BISER-samtökin 400 þús. kr. frá utanrrn. sem kom sér gríðarlega vel og nú er verið að biðja um meira. Það er brýn þörf því að það liggur mjög mikið á að hefja starfsemina og ýmis loforð um framlög byggjast á því að starfsemin fari af stað. Því er mjög brýnt að reyna að styðja við bak þessara samtaka og annarra sem eru að vinna í þágu kvenna.

Þau íslensku kvennasamtök sem ég nefndi áðan ákváðu á fyrrnefndum fundi að efna til fjársöfnunar í þágu kvenna í Sarajevó og opnaður var bankareikningur. Söfnunin hefur ekki farið almennilega af stað. Eftir því sem ég best veit þarf að undirbúa það betur. Eftir því sem ég best veit hefur Bandalag kvenna í Reykjavík þegar keypt nokkrar saumavélar sem það ætlar að gefa til hússins í Sarajevó. Þarna eru ákveðin framlög á ferð en betur má ef duga skal og svo mikið er víst, hæstv. forseti, að gríðarleg þörf er á því að aðstoða þessar konur, sem margar hverjar hafa börn á framfæri sínu. Þær búa mjög margar við það að vita ekkert hvað varð af eiginmönnum, sonum, bræðrum eða öðrum skyldmennum og það er mikið álag fyrir fjölskyldur að búa við slíkt.

Við höfum heyrt af því í fréttum að íslensk kona, sem er pólsk að uppruna, Eva Klonowski, hefur verið að fást við það verkefni að greina lík í Bosníu, grafa upp fjöldagrafir og greina lík. Hún sagði mér að þetta lægi eins og mara á fólkinu þarna og það væri óskaplegur léttir einfaldlega að fá það staðfest að mennirnir hafi verið drepnir. Það er hræðileg tilfinning að vita ekki hvað varð af skyldmennunum, bera einhverja von í brjósti um að einhvers staðar séu kannski enn þá fangabúðir eða eitthvað slíkt. Þetta starf er því af ýmsu tagi sem kemur fólki til góða.

Íslenska ríkisstjórnin hefur ákveðið að styðja starf Evu Klonowski og hér er um það að ræða að styðja annað slíkt verkefni þar sem Íslendingar koma við sögu. Ég ætla að láta það verða mín síðustu orð, hæstv. forseti, að Vilborg Ísleifsdóttir, sagnfræðingur og doktor, hefur verið gríðarlega dugleg að vinna í þessu. Hún hefur verið mikið í Bosníu og kom þaðan í þarsíðustu viku. Þá talaði ég við hana og hún greindi mér frá stöðu mála á því augnabliki, og enn einu sinni nefndi hún hversu gríðarlega brýna þörf þær hefðu fyrir framlög og að þar munaði um allt.