Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 17:54:35 (3403)

1999-02-09 17:54:35# 123. lþ. 61.18 fundur 252. mál: #A happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna# (peningavinningar) frv., 253. mál: #A vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga# (peningavinningar) frv., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[17:54]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum nr. 16/1973, um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, og frv. til laga um breytingu á lögum nr. 18/1959, um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga. Meðflm. með mér á þessum báðum frumvörpum eru hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Árni M. Mathiesen, Árni Ragnar Árnason og Sigríður Anna Þórðardóttir.

1. gr. frv. til laga um um breytingu á lögum um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna er svohljóðandi:

,,Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:

Heimilt skal Dvalarheimili aldraðra sjómanna að starfrækja happdrætti með peningavinningum. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um slíkt happdrætti og hefur að öðru leyti eftirlit með starfsemi þess.``

1. gr. frv. um breytingu á lögum nr. 18/1959, um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga er svohljóðandi:

,,Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein sem verður 2. gr. og orðast svo:

Heimilt skal Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga að reka happdrætti með peningavinningum. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um slíkt happdrætti og hefur að öðru leyti eftirlit með starfsemi þess.``

Og efnismgr. 2. gr. sama frv. er svohljóðandi:

,,Vinningar í happdrættinu skulu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti, á því ári sem þeir falla.``

Í greinargerðum með frv. segir að frumvörpin feli í sér heimild fyrir Dvalarheimili aldraðra sjómanna og Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga til að reka happdrætti með peningavinningum. Gert er ráð fyrir að ágóði af slíkum happdrættum renni til byggingarframkvæmda fyrir aldraða á vegum Sjómannasamtakanna í Reykjavík og enn fremur fyrir happdrætti eins og fyrir er um mælt í lögum nr. 18/1959, um vöruhappdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga.

En eins og segir í grg. með frv. til laga um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna er gert ráð fyrir því ,,að ágóði af slíku happdrætti renni til byggingarframkvæmda fyrir aldraða á vegum Sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Ráðgert er að heimild til reksturs slíks happdrættis verði bundin sömu tímamörkum og mælt er fyrir um í lögunum, þ.e. til ársloka 2007, og mælt verði nánar fyrir um starfsemi happdrættisins í reglugerð sem dómsmálaráðherra setur.

Samkvæmt núgildandi lögum um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna er því einungis heimilt að greiða andvirði vinninga út í vörum. Frá þeim tíma er heimild til reksturs slíks happdrættis var veitt hafa starfsskilyrði happdrætta breyst mikið og samkeppni þeirra aukist gríðarlega, einkum í kjölfar aukins framboðs happdrætta þar sem vinningar eru greiddir út í peningum. Samkeppnin hefur bitnað mjög á happdrættum SÍBS og DAS sem einungis hafa haft heimild til að greiða andvirði vinninga út í vörum. Í nágrannalöndum okkar hefur orðið svipuð þróun og er nú svo komið að vöruhappdrætti í þeirri mynd sem þekkist hér á landi heyra sögunni til og af þeim sökum hefur íslenskum vöruhappdrættum verið ómögulegt að tengjast erlendum happdrættum.``

Sama á við um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga. Þessi tvö happdrætti eru bundin lögum um það að enn skuli þau afhenda vinninga í vörum, og má þar t.d. nefna búvélar og búpening, svo eitthvað sé nefnt, og segir kannski nokkuð um þá sögu og þá þróun sem orðið hefur hér á happdrættismarkaðnum. Á sama tíma, herra forseti, og þessi lög eru í gildi um hin þröngu takmörk þessara tveggja happdrætta, sem þó hafa staðið að mikilli uppbyggingu, bæði fyrir aldraða og fyrir þá sem hafa lent í slysum og hafa notið góðrar og mikillar umönnunar á Reykjalundi, og tekjur þeirra hafa þá byggst mest á þessum happdrættum bæði hvað snertir aldraða og þá sem hafa lent í slysum, þá eru þeim settar það þröngar skorður að mega ekki greiða út vinninga með öðrum hætti en í vörum.

Á sama tíma er flóra þessa happdrættismarkaðar orðin allsérkennileg. Þau happdrætti sem eru á markaðnum á þessu herrans ári 1999 og hafa leyfi til að greiða vinninga í peningum eru: Happdrætti Háskóla Íslands, þ.e. flokkahappdrætti, skafmiðahappdrætti og spilakassar, Íslensk getspá, þ.e. Lottó 5/38, Víkingalottó og Jóker, Íslenskar getraunir, þ.e. Lengjan og Getraunir. Og síðan íslenskir söfnunarkassar, Rauði kross Íslands, Landsbjörg, Slysavarnafélag Íslands og SÁÁ.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt langt enda tel ég ekki ástæðu til þess því að sagan segir allt um þann þrönga kost sem þessi tvö ágætu happdrætti hafa átt við að búa við annars ágætt markmið sem þau bæði hafa stuðlað að og eins lagt ríkulegan skerf fram til þjóðfélagsins til þess bæði að aðstoða þá sem eftir slys eða mikil veikindi hafa þurft á endurhæfingu að halda eins og þeirri sem happdrætti SÍBS hefur stuðlað að á Reykjalundi svo og líka þeim öldruðu sem njóta dvalar á Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Því er afar brýnt að veita þessum tveimur happdrættum heimild til að starfa við hlið þeirra happdrætta sem hafa verið heimiluð frá 1980 svo þau geti áfram verið sá fjárhagslegur stuðningur við þá uppbyggingu sem þau hafa staðið fyrir í hálfa öld.

Herra forseti. Eins og okkur fór í milli ætla ég ekki að hafa langa framsögu um þessi mál en ég held að allir geri sér fulla grein fyrir því að við það umhverfi sem hér ríkir má ekki lengur una og að þessi tvö happdrætti geti stutt við þau ágætu mál sem þau hafa gert nú um langan tíma.

Ég legg til, herra forseti, að lokinni 1. umr. verði þessum málum vísað til allshn.