Uppbyggður vegur yfir Kjöl

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 18:09:04 (3406)

1999-02-09 18:09:04# 123. lþ. 61.20 fundur 255. mál: #A uppbyggður vegur yfir Kjöl# þál., Flm. GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[18:09]

Flm. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. um uppbyggðan veg yfir Kjöl. Flm. ásamt þeim sem hér stendur er Hjálmar Jónsson.

Tillögugreinin hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta Vegagerðina gera athugun á vegstæði, kostnaði og þýðingu þess fyrir byggðaþróun og umferð milli landshluta að gera uppbyggðan veg með slitlagi um Kjöl.``

Sunnanmaður og norðanmaður takast hönd í hönd til þess að leggja til að samskipti á milli þessara sterku byggðarlaga megi verða betri í framtíðinni og hafa stórfelld áhrif á gang þjóðmála og búa landsbyggðinni þar með betri hag. Við segjum í greinargerð:

,,Engin ein framkvæmd í samgöngumálum hefur jafnbyltingarkennd áhrif á samgöngur og mannlíf í landinu og Hvalfjarðargöng. Allar vegalengdir frá Norður- og Vesturlandi til Reykjavíkur hafa styst sem nemur klukkustundarakstri og erfiður vetrarvegur um Hvalfjörð er úr leik.

Eðlilegt er að spurt sé hvort einhverjar aðrar samgöngubætur geti valdið álíka byltingu og um leið styrkt byggðir og mannlíf.

Til forna völdu forfeður okkar miðhálendið sem ferðaleið á milli fjórðunga, það var hagkvæmast. Hvaða áhrif hefði uppbyggður og breiður vegur með slitlagi yfir Kjöl á mannlíf á Suður- og Norðurlandi? Mundi slíkur vegur hafa álíka áhrif og Hvalfjarðargöng?

Frá Gullfossi að Blönduvirkjun eru um 156 km, þar af er nú þegar rúmlega 60 km uppbyggður vegur. Leiðin milli byggða yrði innan við 200 km, 168 km frá Geysi að Blönduvirkjun og um 180 km frá Geysi að Svínvetningabraut.

Vegalengdir milli Selfoss og staða norðan lands eru eftirfarandi, vegalengdir um hringveg sýndar til samanburðar:``

Frá Selfossi í Varmahlíð eru í dag um hringveg 338 km, en eru 268 km um Kjöl, Blöndudal og Vatnsskarð.

Frá Selfossi á Sauðárkrók eru í dag um hringveg 362 km, yrðu um Kjöl, Blöndudal og Vatnsskarð 294 km.

Milli Selfoss og Akureyrar eru um hringveg í dag 432 km en yrðu um Kjöl, Blöndudal og Vatnsskarð 363 km.

,,Kanna þarf ýmsar áhugaverðar tengingar út frá núverandi Kjalvegi sem mundu stytta verulega allar leiðir norður og austur um, t.d. um Blöndustíflu og niður Mælifellsdal eða Gilhagadal í Skagafirði. Síðan má hugsa sér að Héraðsvötn verði brúuð í sambandi við virkjunarframkvæmdir við Villinganes í Skagafirði. Trúlega yrði Kjölur torfarinn yfir háveturinn en ekki endilega verri en margir aðrir fjallvegir í landinu. Ný tækni býður upp á allt aðrar upplýsingar á veðurfari ferðamönnum til glöggvunar en áður var.

Í huga flutningsmanna er uppbyggður vegur yfir Kjöl heillandi verkefni sem á að taka til skoðunar sem fyrst. Ætla má að þessi vegagerð mundi kosta innan við einn milljarð króna. Byggðaáhrifin yrðu nýtt ævintýri og hagræðing mikil fyrir landsmenn alla.``

Svo hljóðar sú greinargerð sem þessari þáltill. fylgir. Ég hef litlu við hana að bæta. Auðvitað koma fleiri leiðir til greina yfir hálendið. Menn eiga að skoða það, eins og með Ódáðahraun. Ég vil segja um þetta að ég held að það mundi breyta miklu að þessi fjallvegur yrði byggður upp með varanlegu slitlagi, þar yrði ekki ryk og ófærur á eftir þannig að þetta yrði mjög spennandi ferðamannaleið á milli jöklanna.

Ég er sannfærður um að verði þetta að veruleika, sem ég trúi að verði fljótlega á næstu öld, þá mun þessi vegagerð hafa mikil áhrif á líf og frelsi fólks í okkar landi og byggðaáhrif sem munu þýða það að landsbyggðin verður sterkari eftir en áður.

Að lokum legg ég til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og hæstv. samgn.