Útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 13:49:04 (3413)

1999-02-10 13:49:04# 123. lþ. 63.1 fundur 313. mál: #A útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með ítarlegri útboðslýsingu fór fram opinbert útboð í júlí 1997 á verslunar-, banka- og veitingarekstri og langtímabílastæðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Með útboðinu var einokun ríkisins á þessum verslunarrekstri rofin og einkafyrirtækjum boðin þátttaka í verslunarrekstrinum í fyrsta skipti. Í framhaldi af þessu útboði var gengið frá 14 leigusamningum við níu aðila. Þeir eru: Íslenskur markaður hf., Leonard ehf., Óson ehf., Artica ehf., Change Group ehf., Kristall ehf., Gleraugnaverslun Keflavíkur ehf., Flugleiðir hf. og Securitas ehf. Allir þessir leigu- og starfssamningar eru gerðir til fimm ára, frá og með 1. jan. 1998 til 31. des. 2002. Á þeim tíma er ekki mögulegt að breyta rekstrarumhverfi leigutaka með nýjum útboðum eða breytingum á rekstrarformi ríkisrekinnar fríhafnar.

Vegna þess sem hv. fyrirspyrjandi sagði um Landsbankann þá er það rétt aðstaða Landsbanka Íslands á annarri hæð var ekki boðin út. Hins vegar vil ég benda á að fjármálafyrirtækið Change Group hefur fengið aðstöðu í flugstöðinni samkvæmt útboði. Rétt er að benda á að með stækkun flugstöðvarinnar mun bætast við þá starfsemi sem fram fer í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Íslandsbanki hefur m.a. óskað eftir aðstöðu í flugstöðinni. Þau mál eru nú til athugunar og ekki komin niðurstaða í þau. Á meðan þessir leigusamningar gilda verður engin breyting á en það er ákvörðun utanrrh. þegar þar að kemur hvort lengra skuli gengið í sambandi við útboð.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, að þetta hafi gefist mjög vel. Það var reynt að fara varlega af stað en í ljósi reynslunnar finnst mér ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram á sömu braut og auka fremur það rými sem boðið er út, þannig að jafnræðis sé gætt í öllum atriðum. Þetta hefur bæði orðið til þess að fjölga störfum og í fyrsta skipti sjáum við fram á að hægt sé að greiða niður þær miklu skuldir sem hvíla á flugstöðinni. Þess vegna tek ég undir það með hv. fyrirspyrjanda að þessi ráðstöfun hefur verið mjög til góðs.