Útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:01:08 (3420)

1999-02-10 14:01:08# 123. lþ. 63.1 fundur 313. mál: #A útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:01]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins ítreka að gerðir hafa verið samningar um þessi mál til fimm ára og að sjálfsögðu verður ekki hróflað við þeim samningum hvort sem það er í gegnum útboð eða með beinum samningum.

Eins og ég sagði áðan var ákveðið að fara varlega í sakirnar, m.a. til þess að raska sem minnst starfsumhverfi þeirra sem höfðu starfað þarna í langan tíma, eins og Fríhafnarinnar. Það á líka við um Landsbankann sem taldi sig hafa verið mikinn frumkvöðul í þessu og tekið á leigu mjög dýrt húsnæði í upphafi. Allt þetta þarf að koma til endurmats að þessum tíma loknum. Engin ástæða er til þess að fullyrða neitt um það í dag. Rétt er að meta það þegar nær líður og ég vil ekki gefa neina vísbendingu um neitt annað, enda er það ekki á mínu færi. Það verður utanrrh. á þeim tíma þegar þar að kemur að taka ákvörðun um.

Hins vegar er rétt að benda á að vonandi verður viðbygging risin og þá nýtt húsnæði sem er til ráðstöfunar og mér þykir líklegt að það verði boðið út með einum eða öðrum hætti. Ég ætla ekki að fara að ræða um það sem áður hefur verið sagt í þessu en ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að hægt er að lesa í þingtíðindum umræður utan dagskrár á Alþingi um þetta mál. Ef ég man rétt lá utanrrh. sem hér stendur undir mjög miklum ámælum í þeim umræðum svo ekki sé meira sagt og ætla ég ekki að nafngreina þá sem höfðu uppi mjög stór orð í þeim umræðum. En það væri kannski rétt fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur að lesa þetta allt saman í þingtíðindum og mín vegna má lesa það upphátt kvölds og morgna suður í flugstöð.