Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:18:53 (3427)

1999-02-10 14:18:53# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Í tilviki sveitarfélaganna hefur upp á síðkastið verið afar erfitt að gera landsfeðrunum til hæfis. Það er þannig að hæstv. félmrh. hefur opinberlega skammað sveitarfélögin fyrir ábyrgðarleysi í fjármálum og fyrir að gefa eftir gagnvart kröfum kennara og má þar benda á ummæli hans bæði á Alþingi og í sjónvarpsþætti 2. febrúar sl. Einnig hefur ráðherra bent á að sveitarfélögin hafi ekki fullnýtt tekjustofna sína eins og útsvar. Á sama tíma ætlar hæstv. forsrh. af göflunum að ganga þegar nokkur sveitarfélög, og þar með talin Reykjavík og Vestmannaeyjar, hækkuðu lítillega útsvarsprósentu sína. Talsmenn atvinnurekenda hafa tekið undir þennan kór að sveitarfélögin þurfi að rifa seglin í fjármálunum.

Ummæli hæstv. félmrh. sem ráðherra sveitarstjórnarmála koma náttúrlega sérstaklega á óvart í þessu sambandi. Hæstv. ráðherra sagði á Alþingi m.a.:

,,Hins vegar hefur kröfuharka kennara í sumum tilfellum keyrt um þverbak. Þó eru þeir búnir að fá upp í 43% hækkun meðan ASÍ er með innan við 20%. Kröfuharkan hefur náttúrlega keyrt um þverbak og sveitarfélögunum er skapaður vandi með fjöldauppsögnum.``

Í Deigluþætti að kvöldi 2. febrúar sl. lét hæstv. félmrh. einnig mörg athyglisverð ummæli falla. Þar sagði hæstv. ráðherra m.a:

,,Sveitarfélögin verða náttúrlega að gá að sér. Það þýðir ekkert fyrir sveitarfélögin að reka sig svona áfram, framkvæma og hækka laun starfsmanna sinna án þess að hafa tekjur. Ríkisstjórnin kom lagi á ríkisfjármálin, stóð af sér þrýsting. Þetta er spurning um siðferðisþrek. Það þýðir ekki að láta undan. Það er óseðjandi hít. Menn verða að bíta á jaxlinn`` sagði hæstv. félmrh. í þessu sambandi oft, í öllum tilvikum um sveitarfélögin. Hæstv. ráðherra sagði einnig: ,,Samkvæmt vinnulöggjöfinni eru hópuppsagnir ekki heimilar og gæti þetta ekki gerst á almennum vinnumarkaði. Má segja að það standi upp á Alþingi að setja lagaramma sem heldur.``

Fleira mætti vitna í, herra forseti. Nú getur það verið skoðun hæstv. ráðherra að almennt launafólk þyrfti meiri kauphækkanir og deili ég að sjálfsögðu ekki við hann um það. En það er sérkennilegt að heyra ráðherra sveitarstjórnarmála ræða þessi mál eins og honum sé með öllu ókunnugt um þann vanda sem verið hefur uppi í grunnskólahaldi í landinu undanfarin ár hvað varðar að manna stöður og fá réttindafólk til starfa ekki síst út um landið. Hefur hæstv. ráðherra ekki heyrt af fólksflótta úr þessari grein?

Öll þessi ummæli, herra forseti, gefa tilefni til að spyrja hæstv. ráðherra, því við verðum að ætla að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar séu ábyrgir orða sinna, hvort sem um er að ræða félmrh. eða forsrh., og þeir blaðri ekki út í loftið um þessi mál ábyrgðarlaust. Ég spyr því hæstv. félmrh.: Telur ráðherra, samanber ummæli hans í umræðum á Alþingi þriðjudaginn 2. febr. sl. og ummæli í umræðuþætti í ríkissjónvarpinu að kvöldi sama dags, að laun grunnskólakennara séu of há? Ef svo er, hvað teldi ráðherra vera hæfileg laun fyrir grunnskólakennslu?

Í öðru lagi: Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir breytingum á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eða lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla til að takmarka réttindi kennara eða annarra á sambærilegra hópa? Hvað þýddu ummæli ráðherra í því sambandi?

Í þriðja lagi: Telur ráðherra að sveitarfélögunum sé ekki treystandi til að vera viðsemjandi grunnskólakennara eða til að fara með samningsrétt yfirleitt?