Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:28:33 (3430)

1999-02-10 14:28:33# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:28]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Sem fjárlaganefndarmanneskja átti ég þess kost í haust að sitja fjárhagsráðstefnu sveitarfélaga. Kom mér þar mest á óvart á þeirri ráðstefnu að þar virtist vera fundinn sökudólgur með stórum staf að fjárhagsvandræðum sveitarfélaga yfirleitt. Kom þar hver stórhöfðinginn eftir annan og lýsti því yfir að það væru kennarar og samningamenn kennara sem væru að ríða sveitarfélögunum á slig. Mér kom þetta vægast sagt á óvart því að ég þekki það hvað kennarar hafa í laun. Ég þekki það að eftir allar þær prósentuhækkanir sem hæstv. félmrh. er búinn að draga hér saman, þá eru grunnskólakennarar eftir þriggja ára háskólanám með rúm 100 þúsund í laun, ef engin eftirvinna er sem víða er núna. Það er engin eftirvinna lengur eftir að skólar voru einsettir. Þetta gengur ekki svona ef við ætlum að gera góðan skóla betri á Íslandi.