Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:34:31 (3434)

1999-02-10 14:34:31# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það alvarlega í þessu máli er að menn stóðu ekki við kjarasamninga en það kann að snúast við og það ættu menn að hafa í huga. Það kann að snúast við þegar atvinnuástandið versnar og sveitarfélögin fara að segja fólki upp og ráða svo annað fólk á lægri launum. Það er hið alvarlega í málinu.

Svo má ekki gleyma því sem alltaf gleymist að opinberir starfsmenn njóta sérstakra lífeyriskjara sem svara til einum mánaðarlaunum á ári alla starfsævina. (SJS: Af hverju flýja þeir þá úr störfum?) Það er enn þá fullt af opinberum starfsmönnum í starfi. Ég veit ekki betur.

En það sem er verst er að kennarar sjá enga umbun fyrir sitt starf. Mjög margir kennarar eru mjög metnaðarfullir og vinna gott starf en það sést hvergi. Þessu þarf að breyta. Það þarf að breyta því þannig að það starf sjáist sem góðir kennarar inna af hendi og við þurfum ásamt með kennurum að vinna að því að ná fram meiri menntun fyrir börnin okkar, því ég hef grun um að hún sé ekkert sérstaklega góð. Meiri menntun fyrir sömu peninga.