Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:35:49 (3435)

1999-02-10 14:35:49# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er alltaf viðkvæmt að ræða launamál heilla stétta og sér í lagi þegar auðvelt er að benda á að vissulega þyldu þeir sem launin fá að fá hærri laun. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst töluverður tvískinnungur í þessari umræðu af hálfu sumra stjórnarandstæðinga. Ég vil nefna tvo sem sérstaklega hafa látið gamminn geysa og það eru hv. fyrirspyrjandi Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem bæði hafa verið ráðherrar á undanförnum átta árum, annað í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar frá 1988--1991 og hitt ráðherra í síðustu ríkisstjórn. Alþfl. var í ríkisstjórn í átta ár samfleytt, frá 1987--1995. Eftir það stjórnartímabil eru launin eins og þau eru og menn geta haft sína skoðun á því hvort þau eru góð eða slæm. En ég hlýt að snúa spurningu hv. fyrirspyrjanda við og spyrja: Er þetta þá til marks um það að dómi þessara tveggja fyrrv. ráðherra, að launin hafi þá verið hæfileg? Ber að skilja ummæli þeirra þannig að það sem þeir skildu við hafi verið hæfilegt?