Aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:53:06 (3440)

1999-02-10 14:53:06# 123. lþ. 63.4 fundur 461. mál: #A aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Skógrækt ríkisins, Náttúruvernd og Náttúruverndarráð, sem nú er Náttúruvernd ríkisins, hafa á liðnum áratugum haft forgöngu um uppbyggingu og aðstöðu fyrir ferðafólk á lendum sínum og gefið gott fordæmi eftir því sem fjárráð hafa leyft. Þau hafa vissulega verið allt of knöpp, ekki síst til að reka aðstöðu fyrir ferðafólk. Samvinna við heimaaðila er auðvitað nauðsynleg og réttmæt en mér finnst ekki sjálfgefið að það sé allt sett í hendur einkaaðila, allur rekstur á lendum bæði Skógræktar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins. Það er álitaefni hvort ekki beri að standa sem myndarlegast að uppbyggingu ferðaþjónustu á vegum hins opinbera í samvinnu við einkaaðila, eftir atvikum. Mér finnst anda óþarflega köldu í garð þessa rekstrar. Mér finnst það vaka að baki þessari fsp. að einhverju leyti. Ég bíð nú eiginlega eftir því að fram komi tillögur um að selja ríkisskógana til þess að spara í ríkiskassanum.