Aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:54:56 (3441)

1999-02-10 14:54:56# 123. lþ. 63.4 fundur 461. mál: #A aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er misskilningur hjá þeim hv. þm. sem hér talaði síðast að það andaði köldu frá þessari fsp. Hér er aðeins verið að spyrja um samráð Skógræktarinnar við heimamenn. Þetta er því óþarfa útúrsnúningur, virðulegur forseti.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og biðjast jafnframt afsökunar á því hve fsp. var viðamikil, miðað við að farið var fram á munnleg svör en ekki skrifleg. Ég vil ekki hafa það á samviskunni að sprengja hæstv. ráðherra á þessum stutta tíma sem hann hefur til svara.

Hins vegar er það alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að hann kom ekki beinlínis inn á það sem var kveikjan að þessari fsp., en það er m.a. skipulag og framkvæmdir vegna ferðaþjónustu eða aðgengi almennings í skóglendum í Þjórsárdal og öðrum þjóðskógum. Skóglendur þær sem nú eru í eigu og umsjá ríkisins verka aðlaðandi fyrir ferðamenn. Við höfum hvatt bændur og aðra til að auka ferðaþjónustuna. Bændur hafa tekið hana upp í auknum mæli, m.a. vegna þess niðurskurðar sem hefur verið í hefðbundnum búgreinum. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann væri tilbúinn að skoða hvort stofna ætti samstarfsráð heimamanna og fulltrúa Skógræktar ríkisins og reyndar annarra sem vinna í ferðaþjónustunni svo sátt megi ríkja um framkvæmdir eins og göngustígamerkingar, bílastæði, tjaldsvæði og annað. Þær þurfa að vera í fullu samræmi við það sem heimamenn eru að vinna, ýmist einir og sér eða á vegum sveitarfélaga.