Náttúrugripasafn Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:04:30 (3444)

1999-02-10 15:04:30# 123. lþ. 63.5 fundur 429. mál: #A Náttúrugripasafn Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:04]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, hv. 11. þm. Reykn., eins og hann hóf mál sitt, að það er vissulega til vansa hvernig staðið er að húsnæðismálum þessa mikilvæga safns. Ég hef gert nokkrar atlögur að því máli þann tíma sem ég hef setið í stóli umhvrh. og leitað eftir tillögum og hugmyndum og reynt að bera þær á borð þar sem ég hef talið að þær ættu heima og leitað eftir stuðningi, bæði um að fá eldra húsnæði fyrir safnið og hugmyndir um nýbyggingu fyrir það. Ég veit að forverar mínir, eins og var vitnað til í fyrirspurninni, hafa margir hverjir einnig lagt á þetta áherslu, bæði meðan málin heyrðu undir menntmrh., eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, og sjálfsagt einnig forverar mínir í stóli umhvrh. og ég veit reyndar að ákveðin hugmynd var nokkuð langt komin í tíð fyrri ríkisstjórnar um samstarf við háskólann og Reykjavíkurborg en það samstarf brotnaði upp að ég hygg að segja megi vegna ósamkomulags milli fulltrúa stjórnarliðsins sem þá fóru með málið en rek ekki þá sögu hér frekar.

Ég hef sem sagt talið brýnt að reyna að leysa úr húsnæðismálum Náttúrugripasafnsins. Í upphafi síðasta árs, og það er það síðasta sem hefur verið unnið að á undanförnum mánuðum, lagði ég tillögu fyrir ríkisstjórnina um að gerð yrði tímasett áætlun og tekin ákvörðun um varanlega lausn á húsnæðisvanda safnsins, annaðhvort með byggingu nýs húsnæðis fyrir safnið eða á endurbótum á hentugra og eldra húsnæði. Ríkisstjórnin ákvað að málið yrði kannað betur af ráðuneytisstjórum þriggja ráðuneyta, umhvrn., menntmrn. og fjmrn., og að þeir gerðu tillögu um framgang þess. Ráðuneytisstjórar umhvrn. og fjmrn. lögðu síðan til í september sl. að lög um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga yrðu endurskoðuð og það svigrúm sem væntanlega skapaðist við að lögin féllu úr gildi 31. desember 1999 yrði notað til þess að afla fjár til byggingar nýs náttúrugripasafns. Tillagan gerði jafnframt ráð fyrir að fljótlega yrði hafist handa við undirbúning og að ný bygging gæti verið tilbúin og safnið tekið til starfa í nýju húsnæði á árunum 2004--2005. Eftir nánari athugun málsins og viðræður við menntmrh., sem fer með umrædd lög, kom í ljós að þau verkefni sem nú blasa við að taka þurfi á vegna endurbóta á menningarbyggingum voru svo umfangsmikil að tekjustofn sem lögin mynduðu gerði vart meira en að duga til þeirra á næstu árum og hv. þingmenn þekkja síðan breytingar sem gerðar voru á þeim lögum í vetur.

Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar á síðasta ári um ráðuneytisstjóranefndina og samkvæmt tillögu nefndarinnar mun ég taka málið upp aftur í ríkisstjórninni nú á næstu dögum með nýjum tillögum um framgang málsins, en það er skammt síðan ég átti fund með menntmrh. um þau mál.

Þess má geta að samkvæmt áætlun um byggingu nýs húss undir náttúrugripasafn er kostnaður við bygginguna talinn geta orðið á bilinu 700--900 millj. kr. þannig að hér er um verulegt átak að ræða sem vissulega þarf að gera því að sýna þarf þessu safni fullan sóma.

Sem svar við annarri spurningu hv. fyrirspyrjanda verður að segja að ekki eru ákveðnar neinar breytingar á starfsemi safnsins eða hlutverki þess í sambandi við hugmyndir um lagabreytingar. Safnið er í umsjá Náttúrufræðistofnunar Íslands en þess ber þó að geta að ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið að skipa nefnd til að undirbúa rammalöggjöf um safnamál að frumkvæði menntmrh. Verði tekin ákvörðun á næstunni um að bæta húsnæðisvanda safnsins og jafnframt sett rammalöggjöf um safnamál er óhjákvæmilegt að einhverjar breytingar verði á starfsemi, umsvifum og rekstri þess.

Þá er spurt um hvort ráðherra muni beita sér fyrir að reist verði myndarlegt náttúrugripa- og fiskasafn sem nýtist sem vísinda- og sýningasafn. Sem svar við þeim lið fyrirspurnarinnar hef ég og mun áfram vinna að því að reist verði náttúrugripasafn sem hýsi alla þætti íslenskrar náttúru, þar með talda fiska. En þar með er ég þó ekki að segja að þar verði komið upp safni lifandi fiska, eins og t.d. í Vestmannaeyjum, ég veit ekki hvort beinlínis er nauðsynlegt að setja upp slíkt safn á tveimur stöðum. En þá er líka verið að ræða um umfangsmeiri og vandasamari rekstur en hingað til hefur verið rætt um í tengslum við Náttúrugripasafnið. Þetta er þó auðvitað sjálfsagt til skoðunar eins og fleira við hugmyndir um framtíðarfyrirkomulag.

Náttúrugripasafn í hefðbundinni merkingu þess orðs er fyrst og fremst hugsað sem sýningar- og fræðslusafn sem höfðar til almennings en síður sem vísindasafn. Náttúrufræðistofnun Íslands er samkvæmt lögum gert skylt að byggja upp vísindasafn og eðli málsins samkvæmt verður vísindasafn alltaf nauðsynlegur bakhjarl fyrir sýningarsafn og því er nauðsynlegt að huga vel að því hvernig tengsl eigi að vera milli þessara tveggja sýningarþátta.

Að lokum spyr hv. fyrirspyrjandi um samstarf við ferðaþjónustu. Þar er svarið að megintilgangur Náttúrugripasafnsins er að veita fræðslu um náttúru landsins og samskipti manns við náttúruna. Augljóst er hins vegar að tilvist veglegs náttúrugripasafns með góðri sýningaraðstöðu mun draga að sér ferðamenn í ríkum mæli, um það eru allir sammála sem fjallað hafa um gildi Náttúrugripasafnsins. Ég tel því eðlilegt að í tengslum við gerð náttúrugripasafns verði gerð könnun á áhrifum slíks safns á þessa atvinnugrein. Ég tel þó eðlilegra að aðilar í ferðaþjónustu skoði þetta út frá áhrifum á greinina eða ferðaþjónustuna í samstarfi og samráði við umhvrn. Mér er reyndar ekki kunnugt um að hve miklu leyti þau sjónarmið hafa verið til hliðsjónar eða verið uppi við vinnslu þeirra hugmynda sem hingað til hefur verið unnið eftir.